Spurning

Hver er stefna ESB þegar kemur að viðskipta- og fríverslunarsamningum?

Spyrjandi

Egill Almar Ágústsson

Svar

Aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) komu sér upp sameiginlegum tollum um leið og tollar voru felldir niður þeirra á milli með

http://evropuvefur.is/svar.php?id=60005">tollabandalagi
árið 1968. Litið er svo á innan sambandsins að fríverslun aðildarríkjanna sín á milli hafi verið ein af undirstöðum velsældar í álfunni undanfarin 50 ár. Þegar vara er flutt inn á ESB-svæðið eru greiddir af henni tollar í því landi sem hún er flutt inn í en eftir það er hægt er að flytja vöruna á milli landa innan svæðisins án þess að greidd séu frekari gjöld. Öll aðildarríki ættu því að njóta sömu kjara á innfluttum vörum. Auk þessa er litið svo á að það auki á samkeppnishæfni í Evrópu að stunda viðskipti út fyrir svæði sambandsins. Kostir fríverslunar þykja meðal annars vera að neytendur hafi úr fleiri vörum að velja og að samkeppni á milli innfluttra vara og staðbundinnar framleiðslu leiði til lægra verðs og meiri gæða.

***

Framkvæmdastjórn ESB vill tryggja að stefna sambandsins á öllum sviðum taki mið af þörfum viðskiptalífsins. Til þessa teljast einnig áhrif utanríkisstefnu sambandsins á samkeppnishæfni en reynt er að viðhalda jafnvægi á milli stefnumiða í utanríkismálum og hagsmuna evrópskra fyrirtækja. Til að ná þessu fram tekur ESB bæði þátt í marghliða viðskiptaviðræðum, eins og á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), og í tvíhliða viðræðum sem eru þá fyrst og fremst fríverslunarsamningar við eitt ríki í senn. Auk þess er fylgst með innleiðingu þeirra samninga sem þegar hafa verið gerðir.Innan ESB er litið svo á að það auki á samkeppnishæfni í Evrópu að stunda viðskipti út fyrir svæði sambandsins.

Viðskiptaviðræður snúast meðal annars um tolla með það að markmiði að veita útflytjendum tollfrjálsan aðgang að mörkuðum viðkomandi ríkis. Auk þess er samið um fleiri atriði sem hafa áhrif á aðgengi að mörkuðum og snerta beint hagsmuni evrópsks iðnaðar, til að mynda um aðgang að hráefni og mismunandi verðlagningu á sömu vöru eftir svæðum. Samningarnir ná einnig til samkeppnisreglna, hugverkaréttar og ríkisstyrkja. Þá eru oft í þeim ákvæði um þróun samskipta á öðrum sviðum, svo sem í þjónustuviðskiptum og opinberum innkaupum. Samningarnir snúast einnig um að samræma að einhverju leyti reglur um tæknileg atriði eins og staðla og matskerfi á samræmingu.

Þar til nýlega einblíndi ESB á að lækka tolla í fríverslunarsamningum sínum við þriðjuríki en nú er í auknum mæli litið til þess að minnka þau höft sem hvert land setur viðskiptum. Höftin einkennast einkum af reglugerðum sem hamla viðskiptum með erlendar vörur eða setja staðbundnar kröfur um staðla. Framkvæmdastjórnin leggur áherslu á að fríverslunarsamningar ESB byggi á markmiðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og séu til þess fallnir að auka frjálsræði í viðskiptum. Það felur í sér aukið gagnsæi í viðskiptum á milli landa og viðleitni til að verja aðila að samningum fyrir óheiðarlegum eða ósanngjörnum viðskiptaháttum. Auk þess er gert ráð fyrir leiðum til að jafna ágreining komi hann upp.

Við gerð tvíhliða viðskiptasamninga leitast ESB við að ná fram markmiðum sem enn eru of framsækin eða flókin í framkvæmd fyrir marghliða og fjölþjóðlegt viðskiptasamstarf. Þannig snúast samningar oft um fleira en fríverslun, og er viðskiptastefna ESB til að mynda nátengd stefnu sambandsins í þróunarmálum. Sambandið er meðal annars að opna markaði sína fyrir flestum útflutningsvörum þróunarríkja þrátt fyrir að þau geti ekki gert slíkt hið sama fyrir aðildarríki sambandsins á sínum mörkuðum. Þannig geta 49 fátækustu ríki heims flutt allar vörur tollfrjálst inn á ESB-svæðið, að undanskildum vopnum. Ólíkt til dæmis Bandaríkjunum vinnur Evrópusambandið ekki út frá einni fyrirmynd eða líkani af samningi í viðræðum um fríverslun.Ef Ísland gengur í ESB þarf að segja upp þeim samningum sem landið hefur gert við erlend ríki eða breyta þeim svo þeir samrýmist regluverki ESB.

Í þeim tilvikum þar sem Evrópusambandið hefur fullar valdheimildir samkvæmt sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins (SSE – Treaty on the Functioning of the European Union) fer það með fyrirsvar í samningum og gerir þá. Á þetta einnig við um fríverslunarsamninga og aðra viðskiptasamninga sem gerðir eru við ríki utan sambandsins. Aðildarríki njóta þeirra réttinda sem ávinnast með samningunum en þeim er einnig gert að lúta þeim reglum sem samningarnir kveða á um, til dæmis reglum um samkeppnismál, hugverkarétt og ríkisstyrki. Einnig eru til svokallaðir blandaðir samningar en þá gera ESB og aðildarríki þess samninga sameiginlega og fara sameiginlega með valdheimildir. Slíkir samningar eru til dæmis oft gerðir á sviði umhverfis- og samgöngumála. Auk þessa geta ESB og aðildarríkin gert blandaða samninga þegar um er að ræða málaflokka þar sem valdheimildir ESB og aðildarríkja þess skarast. Ákvæði samninga sem aðildarríki gera hvert um sig eru víkjandi ef samningurinn stangast á við regluverk ESB, til að mynda ef breytingar hafa verið gerðar á regluverkinu eftir að samningurinn var gerður eða ef viðkomandi ríki gerði samninginn áður en það gekk í ESB. Þetta gildir þrátt fyrir að regluverk ESB hafi ekki bein áhrif á réttindi og skyldur sem eiga stoð í milliríkjasamningum sem umsóknarríki hafa gert fyrir aðild.

Ef Ísland gengur í ESB þarf að segja upp þeim samningum sem landið hefur gert við erlend ríki eða breyta þeim svo þeir samrýmist regluverki ESB. Auk þess þyrfti Ísland að gerast aðili að eða fullgilda þá samninga sem Evrópusambandið eða ESB og aðildarríki þess hafa gert við erlend ríki eða ríkjahópa. Samningahópur Íslands um utanríkisviðskipti, utanríkis- og öryggismál í viðræðum Íslands við Evrópusambandið vinnur um þessar mundir að því að kortleggja þessa samninga. Samkvæmt skýrslu hópsins um utanríkistengsl ESB ná fríverslunarsamninganet Íslands annars vegar og ESB hins vegar yfirleitt til sömu ríkja og veita sambærilegan markaðsaðgang fyrir helstu útflutningsafurðir Íslands. Það sé þó ekki algilt og ef til aðildar kæmi mundi í einhverjum tilvikum verða breyting á markaðsaðgangi fyrir íslensk fyrirtæki, það er að einhver markaðsaðgangur ávinnist inn á markaði utan sambandsins og tapist á öðrum. Evrópuvefurinn vinnur nú að svari um heildaráhrifin af breyttum markaðsaðgangi Íslands inn á markaði utan ESB ef að aðild yrði. Á

http://www.utanrikisraduneyti.is/nyr-starfssvid/vidskiptasvid/vidskiptasamningar/">heimasíðu utanríkisráðuneytisins
er að finna heildarskrá yfir þá samninga sem Ísland hefur gert við erlend ríki.

Heimildir og mynd:

Þetta svar nær yfir eftirfarandi spurningar:
  • Af hverju semur ESB sameiginlega við þriðju ríki um viðskiptasamninga, leiðir það til betri eða verri samninga?
  • Er umhverfi utanríkisviðskipta (það er við lönd utan ESB) gott innan ESB?
  • Er það stefna ESB að gera viðskipta- og fríverslunarsamninga við öll ríki heimsins?
  • Er það stefna ESB að hvetja til meiri eða minni heimsviðskipta utan ESB?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur22.8.2011

Tilvísun

Gyða Einarsdóttir. „Hver er stefna ESB þegar kemur að viðskipta- og fríverslunarsamningum? “. Evrópuvefurinn 22.8.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60264. (Skoðað 19.6.2024).

Höfundur

Gyða Einarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela