Spurning

Dyflinnarsamstarfið

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Dyflinnarsamstarfið er einn liður í Schengen-samstarfinu og snýr að málsmeðferð í málefnum hælisleitenda. Því er ætlað að koma í veg fyrir að ríkisborgari þriðja ríkis ferðist á milli Schengen-landanna og sæki um hæli í hverju ríki. Dyflinnarsamstarfið byggir á Dyflinnarsamningnum (e. Dublin Convention) frá árinu 1990 sem var leystur af hólmi með Dyflinnarreglugerð (e. Dublin Regulation) frá árinu 2003 (nr. 343/2003). Sú reglugerð féll úr gildi árið 2013 þegar ný reglugerð um Dyflinnarsamstarfið (nr. 604/2013) var samþykkt af Evrópuþinginu og ráðinu.

Dyflinnarreglugerðin, með síðari breytingum, felur í sér viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða Schengen-ríki beri ábyrgð á meðferð hælisumsóknar sem einstaklingur leggur fram í einu aðildarríkja Schengen-svæðisins. Þannig er stjórnvöldum heimilað að senda viðkomandi hælisleitanda aftur til þess Schengen-ríkis sem hann kom fyrst til. Í nýjustu Dyflinnarreglugerðinni er þó kveðið á um að ekki megi senda hælisleitanda aftur til ríkis þar sem hætta er á að hann sæti ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð og bann hefur verið lagt við flutningum hælisleitenda til Grikklands næstkomandi tvö ár. Hægt er að áfrýja öllum ákvörðunum um flutning og á meðan beðið er eftir niðurstöðu í slíkum áfrýjunarmálum hefur hælisleitandi rétt á að vera áfram í því ríki sem hann er staddur þá stundina.

Á Íslandi annast Útlendingastofnun afgreiðslu umsókna hælisleitenda en ákvarðanir hennar er hægt að kæra til innanríkisráðuneytisins. Frá því þátttaka Íslands í Dyflinnarsamstarfinu hófst hafa íslensk stjórnvöld vísað stærstum hluta hælisumsækjenda til baka til annarra aðildarríkja og talið þau frekar eiga að fjalla um umsóknir þeirra. Þegar þetta er skrifað í lok nóvember 2013 hafa 93,5% hælisleitenda verið synjað um hæli á Íslandi það sem af er ári.

Við þetta svar er engin athugasemd Fela