Spurning

Hver er munurinn á EFTA, EES og Schengen-samkomulaginu?

Spyrjandi

Ellert Baldursson

Svar

EFTA stendur fyrir European Free Trade Association sem þýðist á íslensku sem Fríverslunarsamtök Evrópu. Fríverslunarsamtökin voru stofnuð árið 1960. Stofnríkin voru sjö: Austurríki, Bretland, Danmörk, Noregur, Portúgal, Sviss og Svíþjóð. Ísland varð aðili að samtökunum árið 1970. Síðan þá hafa samtökin dregist verulega saman en fimm af stofnríkjunum hafa yfirgefið samtökin og gengið í ESB. Nú eru EFTA-ríkin aðeins fjögur talsins: Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss.


Evrópskar alþjóðastofnanir og -samningar og aðildarríki þeirra. Smellið á myndina til að stækka hana.

Aðildarríki EFTA mynda svokallað fríverslunarsvæði. Það merkir að tollar og aðrar verslunarhindranir eru afnumdar í viðskiptum milli aðildarríkjanna með þær vörur sem upprunnar eru í ríkjunum sjálfum. Hvert ríki ákveður hins vegar sjálft hvernig það hagar tollum og öðrum reglum í viðskiptum við ríki utan svæðisins. Nánar er fjallað um Fríverslunarsamtök Evrópu í svari við spurningunni Hver er munurinn á EFTA og ESB?

EES stendur fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Það var stofnað með EES-samningnum milli EFTA/EES-ríkjanna og Evrópusambandsins. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var undirritaður árið 1992 í kjölfar þess að bróðurpartur aðildarríkja EFTA hafði sótt um aðild að ESB. Með samningnum fengu EFTA/EES-ríkin aðild að innri markaði Evrópubandalagsins. Hann byggist á reglunum um fjórfrelsið en þær eru einnig kjarni EES-samningsins.

Markmið samningsins er „að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði“ (1. grein EES-samningsins). Ólíkt tollabandalagi Evrópusambandsins er efnislegt gildissvið hans þó takmarkað, til að mynda falla viðskipti með fiskafurðir að mestu utan EES-samningsins.

Nánar er fjallað um Evrópska efnahagssvæðið í svörum við spurningunum:

Schengen-samstarfið byggist á sáttmála sem tók gildi árið 1995 og er markmið þess tvíþætt. Annars vegar að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna með afnámi vegabréfaskoðunar og hins vegar að styrkja baráttuna gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi með auknu eftirliti á ytri landamærum svæðisins.

Schengen-ríkin eru tuttugu og sex talsins, þau eru öll EFTA-ríkin og ESB-ríkin að undanskildu Bretlandi, Búlgaríu, Írlandi, Kýpur og Rúmeníu. Fjögur síðastnefndu ríkin stefna þó að fullri aðild.

Nánar er fjallað um Schengen-samstarfið í svörum við spurningunum:

Mynd:

Upprunaleg spurning:

Hver er munurinn á EES, EFTA og Schengen samkomulaginu og hver eru tengsl EES og Evrópska efnahagssvæðisins?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 9.11.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hver er munurinn á EFTA, EES og Schengen-samkomulaginu?“. Evrópuvefurinn 9.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=14340. (Skoðað 17.6.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela