Svar
	Evrópusambandið (ESB) er samstarfsvettvangur 28 ríkja sem hafa komið á fót sameiginlegum markaði, þar sem gilda samræmdar reglur, og samræmt stefnur sínar á fjölmörgum sviðum (allt frá sameiginlegri tollskrá til sameiginlegrar umhverfisstefnu). Evrópska efnahagssvæðið (EES) varð til með samningi milli Evrópusambandsins og þriggja aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu. EES-samningurinn er fyrst og fremst fríverslunarsamningur. Hann veitir EFTA/EES-ríkjunum aðgang að innri markaðinum en er að öllu öðru leyti mun takmarkaðri en sáttmálarnir um Evrópusambandið.
***
Evrópusambandið er milliríkjastofnun en þó óhefðbundin sem slík. Ólíkt flestum alþjóðlegum eða svæðisbundnum stofnunum, sem leggja grunninn að milliríkjasamstarfi á tilteknum sviðum, er Evrópusambandið það sem kallað er 
yfirþjóðleg stofnun. Í samræmi við sáttmála sambandsins hafa aðildarríkin framselt 
stofnunum ESB hluta ríkisvalds síns. Nánar er fjallað um hvað Evrópusambandið er í svörum við spurningunum 
Er Evrópusambandið ríkjasamband, stofnun eða eitthvað annað, hvað? og 
Hvert er eðli ESB-sáttmálanna?
|  Á myndinni sést hvaða lönd taka þátt í hvaða milliríkjasamstarfi Evrópuríkja. Smellið til að stækka.
 | 
Í upphafi takmarkaðist samstarf aðildarríkja Evrópusambandsins, eða forvera þess, við sameiginlegan markað fyrir viðskipti með kol og stál. Frá stofnun 
Kola- og stálbandalagsins, árið 1952, til dagsins í dag má segja að sambandið hafi stökkbreyst. Ekki aðeins hefur aðildarríkjunum 
fjölgað úr sex í 28 heldur hefur samvinna ríkjanna færst á sífellt fleiri svið með reglulegum 
breytingum á stofnsáttmálum sambandsins. Þannig hefur orðið til umfangsmikill 
sameiginlegur markaður, byggður á 
fjórfrelsisreglunum um frjálst flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns, 
tollabandalag, 
sameiginlegur gjaldmiðill, 
sameiginlegt landamæraeftirlit og margvíslegt frekara samstarf jafnt í innanríkis- og utanríkis- og öryggismálum. Nánar er fjallað um þróun sambandsins í svari við spurningunni 
Hvernig hefur Evrópusambandið breyst frá stofnun?
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er 
fríverslunarsamningur milli Evrópusambandsins annars vegar og þriggja aðildarríkja 
Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) hins vegar. 
Evrópska efnahagssvæðið nær því samtals til 30 ríkja, það er allra 28 aðildarríkja Evrópusambandsins og 
EFTA/EES-ríkjanna Íslands, Liechtensteins og Noregs. Um muninn á EFTA og EES er fjallað í svari við spurningunni 
Hver er munurinn á EFTA og ESB?
Með EES-samningnum fengu EFTA/EES-ríkin aðgang að innri markaðinum gegn því að skuldbinda sig til að innleiða í landslög þær grundvallarreglur sem markaðurinn byggist á sem og þær afleiddu reglur sem settar í þeim tilgangi að mynda einsleitt efnahagssvæði. Sjá nánar í svari við spurningunni 
Hvert er eðli EES-samningsins? Efnislegt gildissvið EES-samningsins er hins vegar mun takmarkaðra en samstarf aðildarríkja Evrópusambandsins. Þannig falla stefnur sambandsins á sviði 
sjávarútvegs-, 
landbúnaðar- og 
byggðamála utan EES-samningsins sem og samstarf ESB-ríkjanna í utanríkis-, öryggis- og gjaldmiðilsmálum. Nánar er fjallað um þetta í svari við spurningunni 
Hvað er undanskilið í EES-samningnum?
Stofnanaleg samskipti EFTA/EES-ríkjanna og ESB gegna mikilvægu hlutverki við að ná markmiðum EES-samningsins og tryggja samráð um þróun sameiginlegra reglna. Um stofnanauppbyggingu EES-samstarfsins er fjallað í svari við spurningunni 
Hvað er tveggja stoða kerfi EES-samningsins?
Mynd: