Spurning

Helstu stofnanir ESB

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Leiðtogaráðið (European Council) er skipað leiðtogum aðildarríkjanna, yfirleitt forsætisráðherrum en til dæmis er Frakklandsforseti fulltrúi Frakka í ráðinu. Einnig situr í ráðinu sérstakur forseti sem undirbýr fundi þess, stýrir þeim og kemur fram í nafni ráðsins. Leiðtogaráðið heldur fundi allt að fjórum sinnum á ári ásamt forseta framkvæmdastjórnarinnar. Það mótar stefnu sambandsins og tekur ákvarðanir í stærstu málum. Leiðtogaráðið hefur verið að eflast að undanförnu, meðal annars til móts við umræðuna um lýðræðishalla.

Ráðið (Council of the European Union, áður kallað ráðherraráðið eða Council of Ministers) er stofnun þar sem fagráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins koma saman, einn frá hverju ríki. Ráðið getur komið saman í tólf ólíkum samsetningum eftir viðfangsefnum. Ráðið fer með löggjafarvald Evrópusambandsins ásamt Evrópuþinginu.

Evrópuþingið (European Parliament, EP) er eina stofnunin í ESB sem er kosin í beinni kosningu. Þingið fer í vaxandi mæli með löggjafarvald og deilir því með ráðinu.

Framkvæmdastjórn ESB (European Commission) er ein helsta stofnun bandalagsins. Hún gætir hagsmuna sambandsins sem heildar, á frumkvæði að nýrri löggjöf, stýrir daglegri framkvæmd á stefnu sambandsins og ráðstöfun á fjármunum. Í henni sitja 28 framkvæmdastjórar, einn frá hverju aðildarríki, og hefur hver þeirra sitt verksvið svipað og ráðherrar í ríkisstjórnum. Starfsmenn framkvæmdastjórnarinnar eru embættismenn.

Dómstóll Evrópusambandsins (Court of Justice of the European Union, CJEU, áður kallaður European Court of Justice, ECJ) er æðsta dómsvald ESB og hefur aðsetur í Lúxemborg. Dómstóllinn hefur oft kveðið upp úrskurði um grundvallaratriði í starfi sambandsins og þannig haft mikil áhrif á þróun þess. 28 dómarar eiga sæti í dómstólnum, einn frá hverju aðildarríki.

Seðlabanki Evrópu (European Central Bank, ECB) var stofnaður með Maastricht-sáttmálanum árið 1998. Hlutverk seðlabankans er að hafa umsjón með stjórn peningamála í þeim 17 aðildarríkjum ESB sem nota evruna. Núverandi bankastjóri er Mario Draghi og er bankinn með höfuðstöðvar í Frankfurt í Þýskalandi.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela