Spurning

Getur fríverslunarsamningur milli Íslands og ESB komið í stað EES-samningsins?

Spyrjandi

Róbert Trausti Árnason

Svar

Viðskiptatengsl Íslands og Evrópusambandsins grundvallast á fríverslunarsamningi, sem gerður var milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu árið 1972, og EES-samningnum frá árinu 1994. Ef Ísland segði upp EES-samningnum mundi fríverslunarsamningurinn frá 1972 að öllum líkindum gilda áfram. Hann gæti þó ekki komið í stað EES-samningsins þar sem sá síðarnefndi gengur mun lengra en hefðbundnir fríverslunarsamningar eins og sá frá árinu 1972.

***

Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var stofnað til fríverslunarsvæðis milli EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Liechtenstein annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar. EES-samningurinn er á margan hátt frábrugðinn öðrum viðskiptasamningum sem Evrópusambandið hefur gert við önnur ríki og má segja að hann gangi mun lengra en hefðbundnir fríverslunarsamningar. Auk frelsis í viðskiptum með vörur og þjónustu kveður hann á um frjálsa för fólks og frjálsa fjármagnsflutninga (sbr. fjórfrelsið). Þar að auki er í samningnum lögð áhersla á sameiginlegar samkeppnisreglur og óbeinar (tæknilegar) viðskiptahindranir hafa verið afnumdar með samræmingu staðla á öllu EES-svæðinu.

EES-samningurinn kveður enn fremur á um verulega lagasamræmingu EES-ríkjanna og útlistar stofnanir sem eiga að tryggja rétta framkvæmd samningsins EFTA megin frá. Hann veitir EFTA/EES-ríkjunum fullan aðgang að innri markaðnum, kveður á um jafna samkeppnisaðstöðu atvinnufyrirtækja í aðildarríkjunum og veitir ríkjunum þar að auki aðgang að margvíslegu vísinda- og menningarstarfi á vegum ESB. Nánari umfjöllun um sérstöðu EES-samningsins er að finna í svari við spurningunni Hvert er eðli EES-samningsins?


Hópmynd af fulltrúum aðildarríkjanna að EES-samningnum við undirritun hans. Á myndinni má sjá þáverandi utanríkisráðherra Íslands, Jón Baldvin Hannibalsson.

EFTA-ríkin, að Íslandi meðtöldu, og Efnahagsbandalag Evrópu (forveri Evrópusambandsins) gerðu með sér samning árið 1972, um fríverslun með iðnaðarvörur. Við samning Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu var gerður sérstakur viðauki, bókun 6, þar sem kveðið er á um tollaívilnanir fyrir íslenskar sjávarafurðir, þó að undanskildum saltfiski. Bókunin tók gildi árið 1976.

Eins og fjallað er um í svari við spurningunni Hvað stendur í bókun 9 við EES-samninginn? er að finna ákvæði í EES-samningnum sem kveða á um að þar sem fyrri samningar gefi samningsaðilum betri viðskiptakjör en gert er í EES-samningnum skuli ákvæði þeirra gilda. Í þessu sambandi gildir bókun 6 við fríverslunarsamninginn frá 1972 framar ákvæðum bókunar 9 við EES-samninginn. Bókun 6 tryggir meðal annars viðskipti með rækjur á meðan bókun 9 gerir það ekki. Segja má að bókun 6 frá árinu 1976 komi því til fyllingar EES-samningnum hvað varðar fríverslun með sjávarafurðir.

Ekki er ástæða til að ætla að fríverslunarsamningurinn frá árinu 1972 félli sjálfkrafa úr gildi þótt EES-samningnum yrði sagt upp. Hann gæti þó ekki komið í stað EES-samningsins þar sem sá samningur er mun umfangsmeiri en sá frá 1972. Ef Ísland segði upp EES-samningnum en mundi vilja tryggja aðgang að innri markaði ESB, gætu íslensk stjórnvöld ef til vill reynt að fara svissnesku leiðina og leitað eftir tvíhliða samningum við Evrópusambandið. Óvíst er þó hvort svissneska leiðin stæði Íslendingum til boða ef Ísland segði EES-samningnum upp einhliða. Nánar er fjallað um sérstöðu EFTA-ríkisins Sviss í samskiptum sínum við ESB í svari við spurningunni Hvað er átt við með svissnesku leiðinni í samskiptum ríkja við ESB?

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela