Spurning

Er mikið vesen að komast í ESB?

Spyrjandi

Kara Líf Halldórsdóttir, f. 2000

Svar

Þessi spurning barst Evrópuvefnum frá nemanda í Háskóla unga fólksins sem skildi ekki allt þetta umstang í kringum Evrópusambandið.

Það er einfalt að svara spurningunni. Það er alveg heilmikið vesen að komast í Evrópusambandið! Áður en ríki getur gerst aðili að ESB þarf að fara í gegnum ferli sem getur tekið rosalega langan tíma og er mjög flókið. Það fyrsta sem gerist er að ríki ákveður að sækja um að ganga í Evrópusambandið. Þegar Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 var það gert þannig að tillaga um að sækja um aðild að ESB var lögð fyrir Alþingi. Alþingismenn greiddu atkvæði um hvort þeir væru með eða á móti tillögunni og í þessu tilfelli var tillagan samþykkt.


Eiffelturninn í París skreyttur Evrópusambandsfánanum.
Það næsta sem gerist er að aðildarumsókn er send til ráðs ESB. Þá er aðildarferlið formlega hafið. Ráðið lætur síðan framkvæmdastjórn ESB gefa álit sitt á umsókninni. Framkvæmdastjórnin skoðar umsóknina og ákveður hvort viðkomandi ríki uppfylli svonefnd Kaupmannahafnarviðmið en umsóknarríki verða að uppfylla þau. Ef ríki uppfyllir skilyrðin tekur leiðtogaráðið á endanum ákvörðun um það hvort aðildarviðræður eigi að hefjast.

Viðræðurnar sjálfar fara fram milli ríkjanna sem eru nú þegar í ESB og umsóknarríkisins. Þetta er gert á sérstökum fundum. Viðræðunum er skipt upp í 33 kafla og er samið um hvern og einn kafla fyrir sig, skref fyrir skref. Þegar búið er að semja um efni tiltekins kafla er sagt að honum hafi verið lokað. Síðan þarf einróma samþykki allra ESB-ríkjanna til að loka hverjum kafla. Þetta ferli getur eðlilega tekið langan tíma og verið heilmikið vesen. Margir taka þátt í viðræðunum og stundum þarf ríkið sem er að sækja um aðild að uppfylla ákveðin skilyrði svo hægt sé að ljúka viðræðum um einhvern kafla, til dæmis breyta lögum í landinu svo þau séu í samræmi við lög ESB.

Þegar samningaviðræðum um alla kaflana er lokið þarf að búa til skjal sem heitir aðildarsamningur. Þennan samning þarf ráðherraráðið að samþykkja og líka Evrópuþingið. Auk þess þurfa öll aðildarríki ESB að fullgilda hann. Fullgilding þýðir að þau þurfa að greiða atkvæði um það hvort þau samþykki samninginn. Þetta ferli getur líka tekið langan tíma, að minnsta kosti eitt ár.


Kort af Evrópu.

Þegar þetta er allt saman búið er ríkið loksins komið í ESB. Hjá sumum ríkjum hefur það tekið mjög langan tíma að komast í ESB. Tyrkland hefur til dæmis átt í aðildarviðræðum síðan árið 2005 en er ekki ennþá komið í ESB og viðræðurnar við Króatíu stóðu yfir í 68 mánuði!

Að lokum má segja að það getur líka verið mikið vesen að tilheyra engu samstarfi eins og til dæmis ESB. Ef Ísland mundi segja upp EES-samningnum, sem er samstarfssamningur Íslands og ESB, og vera í engu öðru samstarfi mundi margt breytast á Íslandi. Til dæmis væri meira vesen fyrir okkur að fara í nám og vinna í útlöndum, og það væri líka erfiðara fyrir útlendinga að vinna og fara í skóla á Íslandi. Hins vegar yrði Ísland þá ekki bundið af alls konar reglum sem ESB setur án þess að hafa nokkuð um þær að segja. Lesa má meira um hugsanleg áhrif þess að segja upp EES-samningnum í svari við spurningunni Hvað mundi tapast og hvað ávinnast með því að segja upp EES-samningnum?

Heimildir og myndir:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela