Spurning

Er spilling landlæg í Brussel?

Spyrjandi

Marteinn Unnar Heiðarsson

Svar

Ekki er hægt að gefa neitt einhlítt svar við því hvort spilling sé landlæg í Brussel. Spilling er hvarvetna til og á sér stað á landsvísu í Belgíu sem og í helstu stofnunum Evrópusambandsins, sem staðsettar eru í höfuðborg hennar. Niðurstöður kannana á viðhorfum almennings í Evrópu leiða í ljós að meirihluti svarenda telur að spilling viðgangist í stofnunum Evrópusambandsins. Skrifstofum hefur verið komið á fót til að uppræta spillingu í sambandinu og stofnanir ESB hafa gripið til sérstakra aðgerða til að vinna gegn henni. Engar tæmandi tölfræðilegar upplýsingar er þó að finna um umfang spillingar innan stofnana Evrópusambandsins né um árangur aðgerða gegn henni.

***

Samkvæmt matslista yfir spillingu í heiminum, sem gerður er árlega af Transparency International, var Belgía í 16. sæti af þeim 176 ríkjum sem lagt var mat á árið 2012. Til samanburðar var Ísland í 11. sæti. Belgía hefur færst upp listann síðustu árin en árið 2009 var Belgía í 21. sæti, árið 2010 í 22. sæti og árið 2011 í 19. sæti. Sex ESB-ríki fengu betri einkunn árið 2012. Danmörk og Finnland voru í 1. sæti, Svíþjóð í 4. sæti, Holland í 9. sæti, Lúxemborg í 12. sæti og Þýskaland í því 13. Tuttugu ESB-ríki voru neðar á listanum, meðal annars Bretland í 17. sæti, Frakkland í 22. sæti, Austurríki og Írland í 25. sæti og Grikkland, sem var neðsta ESB-ríkið á listanum, í 94. sæti. Belgía er því meðal þeirra ESB-ríkja þar sem spilling mælist hvað minnst.


Mútur eru ein tegund spillingar.

Ef litið er til niðurstaðna könnunar frá árinu 2012 á viðhorfum almennings í Evrópu til spillingar kemur í ljós að 73% svarenda telja að spilling viðgangist í stofnunum Evrópusambandsins. Í öllum aðildarríkjum ESB trúir meirihluti svarenda því að spilling eigi sér stað innan stofnana ESB, flestir í Austurríki (87%) en fæstir í Póllandi (52%). Niðurstöðurnar eru aðeins jákvæðari en frá árinu 2009, en þá töldu 76% svarenda að spilling ætti sér stað innan ESB-stofnana.

Helstu stofnanir ESB eru flestar staðsettar í Brussel og um 15 þúsund lobbíistar starfa í nágrenni við þær. Helsta hlutverk lobbíista er að veita tilteknu starfsfólki ESB sérfræðiráðgjöf þannig að upplýstar ákvarðanir séu teknar innan sambandsins. Nánar er fjallað um lobbíisma í svari við spurningunni Hvað þýðir orðið lobbíismi sem stjórnmálamenn nota? Hagsmunaárekstrar hafa hins vegar komið upp og hafa starfsmenn á vegum Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnarinnar verið sakaðir um að þiggja greiðslur frá fulltrúum sérhagsmunasamtaka fyrir að flytja mál þeirra á vettvangi Evrópusambandsins.

Transparency International rekur sérstaka skrifstofu í Brussel sem fylgist með Evrópusambandinu með tilliti til spillingar og aðgerða gegn henni. Auk þess starfar sérstök Evrópuskrifstofa um aðgerðir gegn svikum á vegum framkvæmdastjórnar ESB en henni var komið á fót árið 1999 eftir að framkvæmdastjórnin, undir forsæti Jacques Santer, sagði af sér vegna ásakana um spillingu. Skrifstofan rannsakar meðal annars spillingu af hálfu starfsmanna Evrópusambandsins. Evrópusambandið hefur einnig mótað stefnu sem hefur það hlutverk að koma í veg fyrir og taka á spillingu í stofnunum sambandsins og í aðildarríkjum þess. Sambandið tekur enn fremur þátt í svonefndum ríkjahópi gegn spillingu, sem hefur það hlutverk að auka getu þátttakenda til þess að berjast gegn spillingu og starfar á vegum Evrópuráðsins, en ESB stefnir að fullri aðild að hópnum í nánustu framtíð.

Fjölmiðlar hafa gegnt veigamiklu hlutverki við að fletta ofan af brotlegum athöfnum embættismanna ESB og dregið spillingarmál fram í dagsljósið. Breska blaðið The Sunday Times hefur oftar en einu sinni ljóstrað upp um spillingu meðal embættismanna ESB. Árið 2008 var Fritz Harald Wenig, fyrrum sviðsstjóri viðskiptasviðs framkvæmdastjórnarinnar, til að mynda blekktur af fréttamönnum blaðsins og þáði fé fyrir að beita áhrifum sínum í þágu sérhagsmuna. Eitt stærsta hneykslismálið til þessa var svo árið 2011 þegar þrír Evrópuþingmenn voru sakaðir um að þiggja greiðslur fyrir að hafa áhrif á löggjöf sambandsins. Ernst Strasser fyrrum Evrópuþingmaður frá Austurríki var meðal þeirra en hann var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrr á árinu. Myndbandsupptaka af fundi Ernst og blaðamannanna fór eins og eldur um sinu á sínum tíma og var meðal gagna málsins. Myndbandið af atvikinu er aðgengilegt á heimasíðu YouTube.

Óraunhæft er að halda því fram að hægt sé að uppræta spillingu í eitt skipti fyrir öll. Með sameiginlegu átaki stjórnvalda aðildarríkja sambandsins, áframhaldandi aðgerðum alþjóðasamtaka og uppljóstrunum fjölmiðla er þó hægt að sporna betur gegn henni.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur21.6.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Er spilling landlæg í Brussel?“. Evrópuvefurinn 21.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65433. (Skoðað 20.7.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela