Spurning

Mundi spilling á Íslandi aukast eða minnka með inngöngu í Evrópusambandið?

Spyrjandi

Ragnheiður

Svar

Ekki er hægt að svara því afdráttarlaust hvort spilling á Íslandi mundi aukast eða minnka með aðild að Evrópusambandinu. Það er fyrst og fremst undir Íslendingum sjálfum komið, óháð aðild að Evrópusambandinu, hvernig til tekst að vinna gegn spillingu hér á landi. Stofnun Íslandsdeildar Transparency International-samtakanna mundi eflaust auka eftirlit með spillingu hér á landi. Sérstök skrifstofa á vegum samtakanna fylgist nú þegar með spillingu í Evrópusambandinu.

***

Ekki er til ein alþjóðlega viðurkennd skilgreining á spillingu en hún er mjög oft skilgreind sem misbeiting opinbers valds í þágu einkahagsmuna. Misbeitingin getur þó líka átt sér stað í einkageiranum og því er stundum notuð víðari skilgreining og talað um misbeitingu valds í þágu einkahagsmuna.

Spilling er hvarvetna til en það er misjafnt eftir löndum og aðstæðum hvernig hún birtist og hversu mikil hún er. Transparency International eru án vafa mikilvægustu óháðu alþjóðlegu samtökin sem berjast gegn spillingu um allan heim. Aðalstöðvar samtakanna eru í Berlín í Þýskalandi en landsdeildir á vegum þeirra starfa í um það bil 100 löndum. Frá árinu 1995 hafa samtökin lagt mat á spillingu í flestum ríkjum heims. Ísland var lengi í hópi þeirra ríkja þar sem spilling taldist minnst að mati samtakanna en hefur heldur færst niður listann eftir „hrun“ og var í 11. sæti árið 2012. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að mat Transparency International beinist mikið að annars konar spillingu (til dæmis mútum) en þeirri sem haldið hefur verið fram að sé algengust hér á landi, það er að hygla skyldmennum, vinum eða pólitískum samherjum. Þá er rétt að hafa í huga að á Íslandi starfar ekki sérstök landsdeild á vegum samtakanna og því er eftirlit með spillingu hér líklega síður samanburðarhæft en í nágrannalöndum þar sem landsdeildir starfa.


Áætlað er að spilling kosti Evrópusambandið um 120 milljarða evra á ári.

Transparency International rekur sérstaka skrifstofu í Brussel í Belgíu sem fylgist með Evrópusambandinu með tilliti til spillingar og aðgerða gegn henni. Samtökin hafa verið gagnrýnin á Evrópusambandið og sagt það vera ómarkvisst og kraftlítið í aðgerðum sínum gegn spillingu.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur viðurkennt að spilling sé verulegt vandamál í sambandinu og í aðildarríkjum þess og bent á að fjórir af hverjum fimm þegnum aðildarríkja ESB telji spillingu vera mikið vandamál í heimalandi sínu. Þá hefur verið áætlað að spilling kosti efnahag sambandsríkjanna gríðarlegar fjárhæðir (120 milljarða evra á ári). Árið 2011 ákvað framkvæmdastjórnin að grípa til sérstakra aðgerða til að vinna gegn spillingu í Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess. Liður í þeim aðgerðum er að láta sérfræðinga taka reglulega saman skýrslu um spillingu í Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess, meðal annars til að meta og fylgjast með því hvað einstök aðildarríki gera til að vinna gegn spillingu. Markmiðið með þessu er að styðja aðildarríkin og veita þeim aðhald, stuðla að meiri áhuga og aðkomu stjórnmálamanna að þessum málum og afla gagna og upplýsinga fyrir Evrópusambandið til að styðjast við í stefnumótun og aðgerðum gegn spillingu í framtíðinni. Gert er ráð fyrir að fyrsta úttektarskýrslan af þessu tagi liggi fyrir sumarið 2013.

Transparency International hefur fagnað því að Evrópusambandið skuli viðurkenna hversu skaðleg spilling er og hve mikilvægt er að berjast gegn henni á vettvangi sambandsins. Samtökin hafa lýst ánægju sinni með umræddar aðgerðir og væntanlega úttektarskýrslu en leggja þó áherslu á að eftirfylgnin skipti afar miklu máli.

Það er mjög erfitt að svara því hvort spilling á Íslandi mundi aukast eða minnka við aðild að Evrópusambandinu og raunar allt eins líklegt að hvorugt yrði raunin. Vísbendingar eru um að Evrópusambandið leggi nú meiri áherslu en áður á að vinna gegn spillingu en það á eftir að koma í ljós hversu miklum árangri það mun skila. Ef Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu má ætla að aðhald og eftirlit með spillingu mundi aukast verulega frá því sem nú er, að minnsta kosti á ákveðnum sviðum. Þá kann einnig að vera að aðildinni fylgdu einhver ný viðfangsefni og breyttar aðstæður sem gætu leitt til meiri spillingar á tilteknum sviðum en nú er við að fást hér á landi.

Fyrirfram virðist engin sérstök ástæða til að ætla að spilling mundi aukast eða minnka við inngöngu í Evrópusambandið. Spilling í einstökum löndum sambandsins er ákaflega misjöfn og mismikil eins og lesa má í matsskýrslum Transparency International. Sum löndin búa við meiri spillingu en Ísland, önnur við minni. Menningarleg og efnahagsleg tengsl Íslands við Norðurlöndin, þar sem spilling er með því minnsta sem þekkist, kunna að skapa viðhorf sem draga úr líkum á spillingu.

Það er fyrst og fremst undir Íslendingum sjálfum komið, óháð aðild að Evrópusambandinu, hvernig tekst að vinna gegn spillingu. Alþjóðleg samvinna, þar með talið við Evrópusambandið, getur gefið gagnleg viðmið og aðgang að þekkingu til að styðjast við við eftirlit og mælingar á spillingu. Stofnun sérstakra óháðra áhugasamtaka gegn spillingu, til dæmis Íslandsdeildar Transparency International, gæti einnig hjálpað verulega til í þeirri baráttu. Þrýstingur á stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklinga í áhrifastöðum, kröfur almennings um gagnsæi og óspillt vinnubrögð og ábyrgir og vakandi fjölmiðlar hafa þó mest áhrif.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 7.6.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Árni Múli Jónasson. „Mundi spilling á Íslandi aukast eða minnka með inngöngu í Evrópusambandið?“. Evrópuvefurinn 7.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63361. (Skoðað 9.12.2024).

Höfundur

Árni Múli Jónassonlögfræðingur

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela