Spurning

Transparency International

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Transparency International eru alþjóðleg samtök sem stofnuð voru árið 1993 og berjast gegn spillingu um allan heim. Aðalstöðvar samtakanna eru í Berlín í Þýskalandi en sérstakar landsdeildir starfa á vegum þeirra í um það bil 100 löndum.

Markmið samtakanna er að ná langtímaárangri í baráttunni gegn spillingu en samtökin einbeita sér fyrst og fremst að gegnsæi í opinberum fjármálum ríkja, vitundarvakningu, eftirlitsstarfi, forvörnum, auk þess sem þau leggja áherslu á þróun nauðsynlegrar löggjafar. Árlega birta samtökin lista (e. Corruption perception list) yfir spillingarstig einstakra landa en þær upplýsingar eru byggðar á skýrslum landsdeilda samtakanna og viðtölum við embættismenn, fulltrúa frjálsra félagasamtaka og við fólk úr viðskiptalífinu.

Spillingarlisti samtakanna hefur verið gagnrýndur fyrir sumpart þrönga skilgreiningu á spillingu þar sem einungis er litið á spillingu sem vísvitandi misnotkun á umboðsvaldi ríkisins. Þá sé ekki litið til þátta er lúta að svikum eða mútum á fjármálamarkaði, í viðskiptalífinu og í borgaralegum stofnunum sem eiga að þjóna almannahag.

Samkvæmt spillingarlista stofnunarinnar var Ísland meðal minnst spilltu þjóða í heimi frá árinu 1999-2008. Í kjölfar efnahagskreppunnar hefur staða Íslands hins vegar versnað í samanburði við önnur lönd en Ísland var í ellefta sæti á listanum yfir minnst spilltu ríki heims árið 2012.

Samtökin leggja mikla áherslu á aðgengi að upplýsingum og halda úti öflugri heimasíðu þar sem nálgast má nánast allt útgefið efni samtakanna frá upphafi.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 7.6.2013

Tilvísun

Evrópuvefur. „Transparency International“. Evrópuvefurinn 7.6.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65415. (Skoðað 18.4.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela