Hvað þýðir orðið lobbíismi sem stjórnmálamenn nota?
Spyrjandi
Sigursveinn Ingibergsson
Svar
Lobbíismi eða hagsmunagæsla er iðja sem lobbíistar eða hagsmunaverðir stunda. Finna má orðið lobbíisti í íslenskri orðabók:(niðrandi) maður sem starfar við að greiða hag fyrirtækis, samtaka o.s.frv. við stjórnvöld og stjórnmálamenn.Orðið virðist hafa fremur neikvæðan blæ í íslensku enda er opinber hagsmunagæsla ekki jafnalgeng í íslenskum stjórnmálum og til dæmis í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Ýmislegt annað getur haft áhrif á ákvarðanatöku. Til dæmis hafa fjölmargir stjórnmálamenn setið í stjórnum fyrirtækja. Þrátt fyrir að einhver tími sé liðinn frá stjórnarsetu getur slíkt skapað tortryggni meðal almennings, sérstaklega hvað varðar mál er tengjast þessum sömu fyrirtækjum. Hagsmunaárekstrar sem þessir tengjast svokallaðri snúningshurð (e. revolving door), þar sem menn tengjast bæði einkageiranum og hinum opinbera. Eins og með margt annað er leyndin oft vandamál. Hugsanlega er lítið vitað um starfsferil þess sem reynir að hafa áhrif á ýmis málefni og þar af leiðandi vandasamt að sjá fyrir hvaða hagsmunir eru í húfi. Hvort að einstaklingur sé knúinn áfram af málefninu sem slíku og með hagsmuni almennings að leiðarljósi eða hvort peningar ríði baggamuninn og hagsmunir almennings sitji á hakanum. Leiðin fram hjá þessu vandamáli gæti ef til vill tengst frekara gagnsæi. Því mætti ef til vill ná með að skylda hagsmunaverði til að segja fyrir hverja þeir hafa unnið og að hvaða málefnum. Enn mikilvægara gæti verið að setja skýrar reglur um skilin á milli opinbera geirans og einkageirans. Menn hafa reynt að hafa áhrif á ákvarðanir annarra allt frá fyrstu tíð og ekki er að sjá að það muni breytast í náinni framtíð. Hins vegar er nauðsynlegt að mál séu skoðuð frá öllum sjónarhornum og þar koma hagsmunaverðir vissulega við sögu. Mikilvægt er að menn greini á milli þess hvenær þeir taki upplýsta ákvörðun með hag almennings að leiðarljósi og hvenær þeir gangi að kröfum hagsmunavarða. Heimildir:
- Wikipedia.com - Lobbying
- Wikipedia.com - Revolving door
- Skýrsla nefndar á vegum neðri deildar breska þingsins.
- Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa aukin og endurbætt. Mörður Árnason ritstjóri. Edda, Reykjavík 2002.
- Wikipedia.com - breska þingið. Sótt 18.6.2010.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur12.10.2010
Flokkun:
Efnisorð
lobbíismi lobbíisti hagsmunir hagsmunaverðir hagsmunagæsla ákvarðanir lýðræði peningar málefni einkageirinn opinberi geirinn
Tilvísun
Ívar Daði Þorvaldsson. „Hvað þýðir orðið lobbíismi sem stjórnmálamenn nota?“. Evrópuvefurinn 12.10.2010. http://evropuvefur.is/svar.php?id=15658. (Skoðað 14.9.2024).
Höfundur
Ívar Daði ÞorvaldssonM.Sc. í hugbúnaðarverkfræði og fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins