Spurning

Hvert er hlutverk Catherine Ashton innan ESB?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Catherine Ashton gegnir hlutverki æðsta fulltrúa Evrópusambandsins í utanríkis- og öryggismálum (e. High Representative of the Union for Foreign Affairs and Security Policy, HR). Hún er þess vegna eins konar utanríkisráðherra Evrópusambandsins. Embættið var fyrst kynnt til sögunnar í Amsterdam-sáttmálanum árið 1997. Javier Solana gegndi því síðan í áratug. Með gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009 var umfang embættisins víkkað út og Ashton tók við keflinu úr hendi Solana. Það er nú samansett úr nokkrum áður sundurliðuðum hlutverkum, og á sameining þeirra að skila samhæfðari og skilvirkari öryggis- og utanríkismálum. Þá er Ashton um leið einn fimm varaforseta framkvæmdastjórnarinnar.


Catherine Ashton.

Catherine Ashton, eða barónessa Ashton frá Upholland, fæddist árið 1956. Hún var áður þingmaður breska verkamannaflokksins og skipuð forseti bresku lávarðadeildarinnar árið 2007. Sem slíkur bar hún ábyrgð á að Lissabon-sáttmálinn, þar sem núverandi hlutverk hennar er skilgreint, færi fyrir efri deildir breska þingsins. Árið 2008 sat hún á stjórnarsviði viðskiptamála hjá framkvæmdastjórninni.

Verkefni Catherine Ashton eru meðal annars:

  • Hefðbundin ríkjasamskipti.
  • Samræming á sviði utanríkismála, svo sem þróunar- og mannúðaraðstoð, viðskipti, og viðbrögð á átakasvæðum.
  • Mánaðarleg fundarhöld með utanríkisráðherrum ESB-ríkjanna.
  • Fundarhöld með leiðtogum ESB-ríkjanna á vettvangi leiðtogaráðsins.
  • Að koma fram fyrir hönd ESB á alþjóðavettvangi, svo sem á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
  • Að fara með formennsku í Varnarmálastofnun Evrópu og stofnun Evrópusambandsins í öryggisfræðum.

Í störfum sínum nýtur Ashton aðstoðar utanríkisþjónustu ESB, þar sem hún er í forsæti. Störf Catherine Ashton innan ESB hafa ekki verið laus við gagnrýni. Fundið hefur verið að starfsmannahaldi og fjármagni utanríkisþjónustunnar. Þá hefur hún verið gagnrýnd fyrir að bregðast seint við aðstæðum sem falla innan verksviðs hennar. Þannig hafi í upphafi arabíska vorsins nokkrum sinnum þurft að biðja hana um að fara til Kaíró í Egyptalandi. Á hinn bóginn hefur verið bent á færni Ashton í samningaviðræðum. Stuðlaði hún til að mynda að samkomulagi sem náðist milli Serbíu og Kósóvó á árinu 2013.

Æðsti fulltrúi ESB í utanríkis- og öryggismálum er tilnefndur af ráðinu og samþykktur af forseta framkvæmdastjórnarinnar til fimm ára í senn. Ashton hefur nú þegar tilkynnt að hún muni ekki gefa kost á sér í önnur fimm ár og mun því láta af störfum árið 2014. Líklegir arftakar hennar eru utanríkisráðherrarnir Radoslaw Sikorski frá Póllandi og Carl Bildt frá Svíþjóð.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela