Spurning

Hvernig er samskiptum ESB og NATO háttað?

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Samningar milli Norður-Atlantshafsbandalagsins (NATO) og Evrópusambandsins (ESB) um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála voru gerðir undir lok ársins 2002 og í upphafi 2003. Þeir mynda hinn eiginlega ramma Berlín-Plús-fyrirkomulagsins sem veitir Evrópusambandinu aðgang að tækjum og búnaði bandalagsins þegar NATO er ekki þátttakandi í viðkomandi aðgerð. Á grundvelli þessa fyrirkomulags og reynslu af samstarfi stofnananna tveggja á Balkanskaga var stefnt að því að efla og þróa samstarfið frekar. Síðustu tíu ár hafa samskiptin þó staðið í stað og jafnvel dofnað. Tvær meginástæður eru fyrir því; aðild Kýpur að Evrópusambandinu árið 2004, sem á í deilum við NATO-ríkið Tyrkland, og þróun sameiginlegrar stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum og vilji sambandsins til að aðhafast frekar á grundvelli hennar.

***

Eftir lok kalda stríðsins og þá einkum í kjölfar stríðsátakanna í fyrrum Júgóslavíu jókst áhuginn fyrir því að efla samstarf milli ESB- og NATO-ríkjanna í öryggis- og varnarmálum. Til að byrja með var ákveðið að endurvekja Vestur-Evrópusambandið og efla starfsemi þess sem samráðsvettvang í öryggismálum milli aðildarríkja ESB og NATO. Á ráðherrafundi NATO-ríkjanna í Berlín árið 1996 var svo samþykkt að veita Vestur-Evrópusambandinu aðgang að hugbúnaði NATO við hættustjórnunaraðgerðir á vegum þess ef til þess kæmi. Þar með voru fyrstu skrefin að samvinnu milli Evrópusambandsins og NATO tekin.


Á myndinni sjást Catherine Ashton, æðsti fulltrúi sameiginlegu stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum (til vinstri) og Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO (til hægri). Þau hittast reglulega til að ræða aukna samvinnu ESB og NATO.

Sameiginlegri stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum hafði verið komið á fót með Maastricht-sáttmálanum árið 1993. Í fyrstu lá engin heildræn stefnumörkun fyrir og einkenndist hin sameiginlega stefna fyrst og fremst af viðbrögðum við einstökum utanríkismálum. Um aldamótin mótaði Evrópusambandið svo eigin stefnu í öryggis- og varnarmálum og tók smám saman við verkefnum Vestur-Evrópusambandsins. Nánar er fjallað um stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum í svari við spurningunni Er Evrópusambandið með einhvers konar Evrópuher og eru aðildarríkin skyldug til að taka þátt í honum? Evrópusambandið lét því í auknum mæli til sín taka í öryggismálum.

Í kjölfar innri átaka ESB um innrásina í Írak árið 2003 var svo orðið ljóst að sambandið þyrfti að móta skýrari ramma utan um verkefni sín á sviði utanríkismála og var Evrópska öryggismálastefnan (e. European Security Strategy, ESS) samþykkt af leiðtogaráðinu sama ár. Stefnan var lögð fram af þáverandi talsmanni ESB í utanríkis- og öryggismálum, Javier Solana, en hann hafði áður gegnt embætti framkvæmdastjóra NATO á árunum 1995-1999. Solana lagði mikið upp úr aukinni samvinnu milli ESB og NATO og segja má að helstu samstarfsverkefni stofnananna hafi átt sér stað á hans embættistíð.

Yfirlýsing Evrópusambandsins og NATO um evrópsku stefnuna í öryggis- og varnarmálum (e. European Union-NATO Declaration on the European Security and Defence Policy, ESDP) sem var undirrituð 16. desember 2002 og Berlín-Plús-fyrirkomulagið (e. Berlin Plus agreement) sem var samþykkt 17. mars 2003 áttu að tryggja skipulegt samstarf milli ESB og NATO. Berlín-Plús-fyrirkomulagið dregur nafn sitt af áðurnefndum ráðherrafundi NATO-ríkjanna í Berlín þegar ákveðið var að veita Vestur-Evrópusambandinu aðgang að tækjum og búnaði NATO við vissar aðstæður. Með Berlín-Plús var Evrópusambandinu nú veittur þessi aðgangur og á grundvelli fyrirkomulagsins tók Evrópusambandið við hlutverki NATO í Makedóníu árið 2003 (sbr. Concordia-aðgerðin) og í Bosníu og Hersegóvínu undir lok árs 2004 (sbr. Althea-aðgerðin). Sameiginleg æfing ESB- og NATO-teyma í hættustjórnunaraðgerðum var einnig haldin í lok árs 2003. Formlegt samstarf var komið á milli stofnananna. Aðild Kýpur að Evrópusambandinu árið 2004 mundi þó setja strik í reikninginn í samstarfinu.

Kýpur er eina ESB-ríkið sem hefur ekki aðgang að Berlín-Plús-fyrirkomulaginu vegna neitunarvalds Tyrklands, en ríkin hafa átt í deilum um skiptingu eyjunnar allt frá árinu 1974 þegar Tyrkir gerðu innrás í norðurhluta Kýpur. Bæði Kýpur og Tyrkland hafa beitt sér til að hindra samstarf ESB og NATO. Kýpur má ekki sitja neina fundi milli sendiherra stjórnmála- og öryggisnefndar ESB og Norður-Atlantshafsráðsins og á slíkum fundum er einungis Althea-aðgerðin rædd, sem enn er í gangi í Bosníu og Hersegóvínu. Engar viðræður eru leyfðar varðandi aðrar aðgerðir sem gerir það að verkum að í dag er lítil samvinna í reynd milli stofnananna, jafnvel á svæðum þar sem bæði ESB og NATO hafa teymi við störf; í Kósóvó (KFOR-aðgerð NATO og EULEX-aðgerð ESB), í Afganistan (ISAF-aðgerð NATO og EUPOL-aðgerð ESB) og við strendur Sómalíu (Ocean Shield-aðgerð NATO og ATALANTA-aðgerð ESB).

Frá árinu 2003 hefur Evrópusambandið komið á fót yfir 20 aðgerðum af borgaralegum og hernaðarlegum toga. Einungis tvær þeirra grundvallast á Berlín-Plús-fyrirkomulaginu. Evrópusambandið hefur frekar kosið að aðhafast sem fyrst á grundvelli sameiginlegrar stefnu sinnar í öryggis- og varnarmálum heldur en nýta tæki og búnað NATO.

Framkvæmdastjóri NATO og æðsti fulltrúi sameiginlegu stefnu ESB í utanríkis- og öryggismálum hittast með reglulegu millibili og fjöldi yfirlýsinga bæði frá ESB og NATO leggja áherslu á aukið samstarf milli stofnananna. Samskipti þeirra á milli hafa þó í reynd ekki eflst síðastliðin tíu ár og óljóst hvort þau muni gera það í náinni framtíð.

Heimildir og mynd;

Við þetta svar er engin athugasemd Fela