Spurning

Vestur-Evrópusambandið

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Vestur-Evrópusambandið (VES; Western European Union, WEU) var stofnað árið 1954 sem varnarbandalag Evrópuríkja en það var leyst upp 30. júní 2011. Bandalagið byggðist á svonefndum Brussel-samningi (e. Brussels Treaty) um sameiginlegar varnir og samstarf í efnahags-, félags- og menningarmálum (e. Treaty on Economic, Social and Cultural Collaboration and Collective Self-Defence) frá árinu 1948. Markmið bandalagsins var að stuðla að efnahagslegri endurreisn Evrópu eftir síðari heimsstyrjöldina, auka samvinnu og sameiningu innan Evrópu og að aðildarríkin kæmu til aðstoðar ef á eitt þeirra væri ráðist.

Stofnríki bandalagsins voru Belgía, Frakkland, Lúxemborg, Holland og Bretland en því var komið á fót sem alþjóðlegri stofnun með Parísar-samkomulaginu (e. Paris Agreement) árið 1954. Við það tækifæri var Þýskalandi og Ítalíu einnig veitt aðild, ekki síst vegna þess að Frakkar töldu nauðsynlegt að Þýskaland yrði hluti af samstarfi Evrópuríkja í öryggismálum. Ísland gerðist aukaaðili að sambandinu árið 1992 en sú aðild var þó ekki formlega staðfest fyrr en árið 1995.

Höfuðstöðvar VES voru í Brussel en helsti samráðsvettvangur aðildarríkja sambandsins í öryggismálum var Vestur-Evrópusambandsþingið (e. the Assembly of the WEU), sem staðsett var í París. Hlutverk þingsins var að vera ráðherraráði VES (e. Council of the WEU) innan handar og ráðgefandi. Á þinginu sátu 370 fulltrúar í hlutfalli við íbúafjölda aðildarríkjanna. Ísland átti þrjá fulltrúa á þinginu sem aukaaðildarríki. Aðild Íslands tryggði Íslandi tillögurétt, fullt málfrelsi á þingfundum og rétt til að taka þátt í kosningu framkvæmdastjórnar. Innan þingsins störfuðu sex málefnanefndir auk forsætisnefndar og stjórnarnefndar en aukaaðild Íslands tryggði einnig atkvæðis- og tillögurétt í nefndarstarfi í flestum tilvikum.

Við lok kalda stríðsins fór verkefnum bandalagsins fækkandi og upp úr síðustu aldamótum voru verkefni og stofnanir VES smátt og smátt færð yfir til Evrópusambandsins. Í kjölfar gildistöku Lissabon-breytinganna á sáttmálum ESB var tekin ákvörðun um að leggja Vestur-Evrópusambandið niður. Með innleiðingu ákvæðisins um gagnkvæmar varnir í sáttmálann um ESB töldu aðildarríki VES að bandalagið hefði lokið sögulegu hlutverki sínu. Þeirri vinnu lauk opinberlega árið 2011.
Við þetta svar er engin athugasemd Fela