Spurning

Hvaða áhrif hefur endurkjör Barack Obama Bandaríkjaforseta á Evrópusambandið?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Það fór varla framhjá neinum að Barack Obama, frambjóðandi demókrataflokksins, var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna síðastliðinn þriðjudag, 6. nóvember. Í aðdraganda kosninganna hafði alþjóðleg könnun leitt í ljós að á heimsvísu hefði Obama hlotið yfirburðakosningu, eða 81% atkvæða gegn 19% atkvæða til stuðnings Mitt Romney, frambjóðanda repúblikanaflokksins. Mestur stuðningur við Obama mældist í Evrópulöndunum Íslandi (98%), Hollandi, Portúgal og Þýskalandi (97%). Í sex öðrum Evrópulöndum til viðbótar hefði Obama verið kjörinn forseti Bandaríkjanna með yfir 90% atkvæða.


Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, og Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, á ráðstefnu ESB og Bandaríkjanna í Lissabon árið 2010.

Forystumenn innan Evrópusambandsins líkt og Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðsins og José Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnarinnar lýstu yfir ánægju með niðurstöður kosninganna og ítrekuðu áhuga sambandsins á áframhaldandi og nánara samstarfi við Bandaríkin í efnahagsmálum. Samkvæmt því sem fram kemur í frétt Independent sér Evrópusambandið nú fram á að geta hafið viðræður um nýja viðskiptasamninga við Bandaríkin í byrjun næsta árs. Viðskipti milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna eru nú þegar mikil eða því sem nemur nærri þriðjung allra viðskipta í heiminum. Markmið samninganna verður að auka þessi viðskipti enn frekar meðal annars með því að afnema viðskiptahindranir. Áætlað er að nýir viðskiptasamningar gætu skilað Evrópusambandinu 122 milljörðum evra á ári hverju, náist samningar.

Um áhrif endurkjörs Obama á Evrópu var rætt í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í viðtali við Eirík Bergmann, forstöðumann Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst. Í viðtalinu er farið yfir jákvæð viðbrögð leiðtoga Evrópusambandsríkjanna við endurkjöri Obama, ólíkt gildismat bandarísku demókrata- og repúblikanaflokkanna og hagsmunatengsl Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.

Fram kemur að samskipti Evrópusambandsins og Bandaríkjanna einkennast einna helst af viðskiptum en hagsmunatengsl þeirra eru þó mun víðfeðmari. Sagan hafi meðal annars sýnt að á sviði utanríkis- og öryggismála samræmist viðhorf demókrata mun betur viðhorfum Evrópusambandsins sem leggur áherslu á alþjóðlega samvinnu og diplómatískar lausnir í samskiptum við þriðju ríki.

Hægt er að nálgast viðtalið í heild sinni á heimasíðu RÚV.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 9.11.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir og Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hvaða áhrif hefur endurkjör Barack Obama Bandaríkjaforseta á Evrópusambandið?“. Evrópuvefurinn 9.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63618. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundar

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á EvrópuvefnumÞorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela