Spurning
Hver er staða Evrópusambandsins á norðurslóðum?
Spyrjandi
Ritstjórn
Svar
Ríki Evrópusambandsins eiga ekki land að Norður-Íshafinu eða öðrum norðurhöfum. Aðildarlöndin Svíþjóð og Finnland eiga hins vegar talsvert land fyrir norðan heimskautsbaug en ná þó ekki til sjávar í norðri. Evrópusambandið hefur þannig tengst norðurslóðum í menningu, sögu og efnahagslífi og hefur látið sig þær varða, myndað sér stefnu og tekið þátt í starfi innan þeirra stofnana sem þar starfa. Þar má nefna Norðurskautsráðið (Arctic Council), Barentsráðið (Barents Euro-Arctic Council) og Norðlægu víddina (Northern Dimension).Frá 1999 hefur Evrópusambandið, ásamt Íslandi, Noregi og Rússlandi verið aðili að Norðlægu víddinni (Northern Dimension). Markmið þess samstarfs er að skapa vettvang þar sem aðilar geta rætt saman á jafnræðisgrunni með það fyrir augum að stuðla að samstarfi, stöðugleika, efnahagslegri samþættingu, samkeppni og sjálfbærri þróun í Norður-Evrópu. Þau aðildarríki Norðurskautsráðsins sem jafnframt eru Evrópusambandsríki, Danmörk, Finnland og Svíþjóð, eru öll hlynnt aukinni aðkomu Evrópusambandsins að ráðinu og hafa lýst stuðningi í Norðurslóðastefnu sinni við umsókn sambandsins um að fá fullgilda áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Af þessum þremur ríkjum hefur Finnland tekið hvað sterkasta afstöðu með aukinni aðkomu ESB og ber stefna Finnlands frá árinu 2010 þess skýr merki. Í Norðurskautsstefnu Rússlands er talað um mikilvægi þess að virkja samstarfið við Evrópusambandið. Í norsku Norðurslóðastefnunni er ekki mikil áhersla á Evrópusambandið, en þó er fjallað um að efla samstarf norska þingsins í þessum málum við Evrópuþingið, Evrópusambandið í heild sinni (sérstaklega í umhverfismálum) og einstök Evrópusambandsríki. Hvorki Kanada né Bandaríkin fjalla sérstaklega um Evrópusambandið í stefnuskjölum sínum. Í skýrslunni „Ísland á Norðurslóðum“ sem utanríkisráðuneytið gaf út árið 2009 er auknum áhuga alþjóðastofnana á svæðinu (þar á meðal Evrópusambandsins) fagnað þar sem hann er talinn líklegur til að auka skilning á málefnum svæðisins. Í þingsályktun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða sem samþykkt var á Alþingi í mars 2011 er samstarf við Evrópusambandið litið jákvæðum augum og þá sérstaklega á sviði rannsókna, en tekið er fram að hvetja mætti ESB til að styðja íslenskar Norðurslóðarannsóknir. Hvorki í skýrslunni frá 2009 né þingsályktuninni frá 2011 er tekin bein afstaða til umsóknar Evrópusambandsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Evrópusambandið hefur á síðustu árum sýnt málefnum Norðurskautssvæðisins aukinn áhuga. Í mars 2008 var lögð fyrir Evrópuþingið skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á svæðinu. Þar var meðal annars lagt til að Evrópusambandið myndaði sér stefnu í Norðurskautsmálum þar sem til að mynda væri tekið tillit til aukins aðgangs að náttúruauðlindum og nýrra siglingaleiða. Í október sama ár samþykkti Evrópuþingið ályktun þar sem fjallað var um mögulegar afleiðingar af loftslagsbreytingum í umhverfismálum, stjórnmálum og félagsmálum á svæðinu og mikilvægi þess að þær breytingar yrðu grunnurinn í stefnu sambandsins. Í nóvember 2008 gaf framkvæmdastjórnin út skýrsluna „Evrópusambandið og Norðurskautið“ (The European Union and the Arctic Region) sem fyrsta vísi að stefnu. Í skýrslunni eru tilgreind helstu áhersluatriði sambandsins og tillögur til aðgerða. Í desember 2008 sótti svo framkvæmdastjórnin, með samþykki leiðtogaráðsins, um varanlega áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Ári síðar, í desember 2009, innleiddi leiðtogaráðið samþykkt um málefni Norðurskautsins, þar sem fjallað er um hagsmuni Evrópusambandsins á svæðinu sem og ábyrgð þess gagnvart Norðurskautinu. Jafnframt er þar að finna viðurkenningu á hagsmunum og réttindum aðildarríkja sambandsins þegar kemur að málefnum Norðurslóða. Í janúar 2011 samþykkti Evrópuþingið ályktun um mikilvægi þess að stefna Evrópusambandisns verði vel samhæfð og leggi áherslu á sjálfbærni. Þar að auki er mælst til þess að sambandið geri grein fyrir hagsmunum sínum og áskorunum á svæðinu. Heimildir og mynd:
- "> Norðurskautsráðið, aðildarríki
- Norðurskautsráðið, áheyrnaraðilar
- Andrew Willis: EU gets cold shoulder in the Arctic
- Evrópusambandið, ytri samskipti (external action). Norðlæga víddin
- 0024+0+DOC+XML+V0//EN&language=EN "> Heimasíða Barentsráðsins (Barents Euro-Arctic Council)
- "> Evrópuþingið: Ályktun um stefnu ESB í málefnum norðurslóða frá 2011
- "> Samþykkt Leiðtogaráðsins um málefni norðurskautsins frá desember 2009
- "> Samþykkt Leiðtogaráðsins um málefni norðurslóða frá desember 2008
- " target="_blank"> Samskipti Evrópuþingsins, Framkvæmdastjórnar og Leiðtogaráðs, nóvember 2008
- 0474+0+DOC+XML+V0//EN&language=EN " target="_blank"> Evrópuþingið: Ályktun um norðurskautið frá október 2008
- " target="_blank"> Skýrsla Framkvæmdastjórnar ESB um loftslagsbreytingar og alþjóðlegt öryggi frá mars 2008
- " target="_blank"> Stefna Noregs fyrir norðurslóðir frá 2006
- " target="_blank"> Norðurskautsstefna Svíþjóðar frá 2011
- " target="_blank"> Norðurskautsstefna Danmerkur frá 2008
- " target="_blank"> Norðurskautstefna Finnlands frá 2010
- " target="_blank"> Norðurskautsstefna Rússlands frá 2008
- Stefna Kanada í málefnum norðurslóða frá 2009
- Norðurskautsstefna Bandaríkjanna frá 2009
- " target="_blank"> Utanríkisráðuneytið: Þingsályktun um stefnu Íslands í málefnum Norðurslóða
- Utanríkisráðuneytið: Ísland á norðurslóðum
- Mynd sótt 14.7.11 af heimasíðu Center for Research on Globalization
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur14.7.2011
Flokkun:
Efnisorð
Tilvísun
Margrét Cela. „Hver er staða Evrópusambandsins á norðurslóðum?“. Evrópuvefurinn 14.7.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60246. (Skoðað 3.11.2024).
Höfundur
Margrét Celaalþjóðastjórnmálafræðingur og doktorsnemi við háskólann í Lapplandi
Prenta
Senda
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela