Spurning

Mun áfengisverð lækka ef við göngum í ESB?

Spyrjandi

Þórgnýr

Svar

Það er fátt sem bendir til þess. Núgildandi íslenskar reglur um álögur á áfengi eru í samræmi við reglur Evrópusambandsins og mundi áfengisverð því ekki lækka af þeim sökum. Þá eru allar líkur taldar á því að Ísland gæti samið um að viðhalda ríkiseinkasölu á áfengi, á grundvelli fordæma sem gefin voru í aðildarviðræðum Finnlands og Svíþjóðar. Lítil ástæða er því til að ætla annað en að núverandi umhverfi verðlagningar áfengis héldist svo til óbreytt þótt Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu.

***

Fátt bendir til þess að verð á áfengi mundi lækka við hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Álagning á áfengi er frjáls í aðildarríkjum Evrópusambandsins að undanskildum lágmarksviðmiðum sem mælt er fyrir um í tilskipun sambandsins (nr. 92/84) um samræmingu vörugjalda á alkóhól og áfenga drykki. Áfengisgjöld á Íslandi eru hærri en í flestum ef ekki öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins og er það því vandalaust fyrir Ísland að uppfylla lágmarkskröfur ESB um upphæð vörugjalda á áfengi.


Íslenskur bjór.

Engir tollar eru lagðir á áfengi sem flutt er til Íslands frá EES-ríkjunum og aðeins í örfáum tilfellum eru innheimtir tollar af innfluttu áfengi frá þriðju ríkjum. Samkvæmt lögum (nr. 96/1995) um gjöld af áfengi og tóbaki skal leggja áfengisgjald á áfengi sem flutt er inn til landsins og eða framleitt innanlands. Á áfengi sem selt er á Íslandi eru jafnframt lagðar aðrar álögur, svo sem virðisaukaskattur, skilagjald og úrvinnslugjald. Þar eð íslensk löggjöf um álögur á áfenga drykki er í samræmi við reglur Evrópusambandsins mundi sá hluti áfengisverðsins ekki lækka við aðild.

Á Íslandi er ríkiseinkasala á öllu áfengi. Íslenska ríkið rekur fyrirtækið Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) sem sinnir smásölu áfengis á Íslandi til annarra en þeirra sem hafa vínveitingarleyfi, svo sem veitingastaða og kráa. Í opinberri samningsafstöðu Íslands í kafla 8 um samkeppnismál er lögð áhersla á að núverandi fyrirkomulag áfengissölu verði áfram við lýði eftir aðild. Fyrir slíkri undanþágu frá lögum Evrópusambandsins er fordæmi því bæði í Finnlandi og Svíþjóð, sem gengu í Evrópusambandið árið 1995, er áfengi í ríkiseinkasölu. Ríkin tvö gerðu kröfu um að fá að viðhalda einkasölu ríkisins á áfengi í aðildarviðræðum við Evrópusambandið á sínum tíma og fengu hana samþykkta. Á grundvelli þessara fordæma er líklegt að Ísland gæti einnig samið um leyfi til að viðhalda ríkiseinkasölu áfengis. Það er því lítil ástæða til að ætla annað en að núverandi umhverfi verðlagningar áfengis, það er ríkiseinkasala án samkeppni, mundi haldast óbreytt þótt til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kæmi.

Á tvennt má þó benda, varðandi verslun með áfengi, sem aðild að Evrópusambandinu kæmi til með að hafa áhrif á. Annars vegar heimila reglur Evrópusambandsins talsvert meiri innflutning á áfengi og tóbaki til persónulegra neyslu milli aðildarríkja en núgildandi íslenskar reglur. Möguleikar ferðamanna, íslenskra og erlendra, til að flytja áfengi og tóbak hingað til lands til persónulegra nota frá ríkjum Evrópusambandsins, án greiðslu vörugjalda, mundu því aukast til muna við aðild og skerða þar með tekjur ríkissjóðs af þessum skattstofni umtalsvert. Í aðildarviðræðunum fer Ísland því fram á fimm ára aðlögunartímabil til að innleiða í smáum skrefum þær magnheimildir sem gilda í Evrópusambandinu.

Hins vegar brýtur það gegn reglum Evrópusambandsins að lægri vörugjöld séu innheimt af áfengi og tóbaki í komufríhöfn Keflavíkurflugvallar. Litlar líkur eru taldar á því að undanþága fáist frá þessari reglu en Ísland heldur því fram í samningsafstöðunni í kaflanum um skattamál að „vegna félagslegra og svæðisbundinna ástæðna [sé] þörf á að fjalla um álitaefni varðandi gjaldfrjálsar verslanir á íslenskum flugvöllum, bæði við komu og brottför“ (sjá bls. 8).

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.3.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Mun áfengisverð lækka ef við göngum í ESB?“. Evrópuvefurinn 28.3.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64916. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela