Spurning

Hvernig mundi vinnumarkaðurinn á Íslandi breytast ef við göngum í ESB?

Spyrjandi

Ragna Sólveig

Svar

Kaflinn um félags- og atvinnumál heyrir undir EES-samninginn og því hefur Ísland að mestu tekið upp þá löggjöf Evrópusambandsins sem varðar vinnumarkaðinn. Möguleg aðild Íslands að sambandinu hefði því ekki í för með sér miklar breytingar á íslenskum vinnumarkaði. Helstu breytingar yrðu þær að íslensk stjórnvöld fengju aukið aðgengi að ákvarðanatökuferli sambandsins, auk aðildar að stofnunum og sjóðum þess. Samninganefnd Íslands fer ekki fram á neinar sérlausnir eða undanþágur í kaflanum. Þó er bent á að huga þurfi sérstaklega að einni tilskipun sem varðar réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja gagnvart starfsmönnum sínum á meðan þeir starfa tímabundið í öðrum ríkjum, en Ísland hefur átt í erfiðleikum með að sinna því eftirliti sem tilskipunin mælir fyrir um.

***

Litlar breytingar yrðu á þeim lagaramma sem gildir um íslenskan vinnumarkað kæmi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Þetta er vegna þess að löggjöf sambandsins á sviði félags- og vinnumála (19. kafli) hefur að mestu leyti verið tekin upp í íslenska löggjöf á vettvangi EES-samningsins. Reglur sambandsins um vinnutíma, vinnuskilyrði, upplýsingar og samráð, aðbúnað, hollustuhætti og vinnustaðaöryggi á landi, lofti og sjó hafa verið innleiddar og afar litlar breytingar yrðu á réttindum launþega á vinnumarkaði, líkt og fjallað er um í svari við spurningunni Hvað breytist varðandi réttindi á vinnumarkaði með inngöngu í ESB? Hið sama gildir um aðgengi íslenskra ríkisborgara að vinnumarkaði aðildarríkja Evrópusambandsins, eins og sagt er frá í svari við spurningunni Hvernig breytist aðgangur að vinnumarkaði og skólum ef Ísland gengur í Evrópusambandið? Dæmi um reglur sem ekki hafa verið innleiddar í íslenskan rétt er tilskipun ESB (nr. 2005/47) um járnbrautir og umferð lesta yfir landamæri. Hún gildir ekki um Ísland þar sem engar járnbrautir eru hér á landi.


Fólk á vinnumarkaði.

Helstu breytingarnar sem yrðu við aðild væru þær að íslensk stjórnvöld hefðu aukna aðkomu að ákvarðanatökuferli Evrópusambandsins á sviði vinnumála, en þau hafa til langs tíma þurft að treysta á aðkomu íslenskra hagsmunasamtaka að ferlinu, sem þó er einnig háð vissum takmörkunum. Með aðild fengi Ísland atkvæði á fundum ráðsins um félags- og atvinnumál, en um það er fjallað í svari við spurningunni Hver er aðkoma Íslands að mótun vinnumarkaðslöggjöfar ESB og hvernig mundi hún breytast við aðild? Þar að auki fengi Ísland aðild að eftirfarandi sjóðum og stofnunum sambandsins:
  • Félagsmálasjóði Evrópu,
  • Evrópusjóði um aðlögun vegna alþjóðavæðingar,
  • Evrópustofnun um bætt starfsskilyrði og lífskjör,
  • Vinnuverndarstofnun Evrópusambandsins,
  • Evrópumiðstöð um þróun starfsþjálfunar,
  • Evrópustofnun um jafnrétti kynjanna og
  • Evrópsku örlánamiðstöðinni.

Samninganefnd Íslands í aðildarviðræðunum fer ekki fram á neinar sérlausnir eða undanþágur í kaflanum um félags- og atvinnumál. Í rýniskýrslu nefndarinnar kemur þó fram að huga þurfi sérstaklega að tilskipun um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu (nr. 96/71/EC). Sú tilskipun hefur verið lögleidd á Íslandi með lögum (nr. 45/2007) sem kveða á um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra. Á Íslandi hafa komið upp mál þar sem réttindi starfsmanna frá erlendum starfsmannaleigum hafa ekki verið virt en íslensk stjórnvöld hafa átt í erfiðleikum með að sinna því eftirliti sem tilskipunin mælir fyrir um og tryggja þau lágmarkskjör sem leigustarfsmenn njóta á meðan þeir eru við störf hér á landi. Í kjölfar úrskurðar EFTA-dómstólsins (Eftirlitsstofnun EFTA gegn Íslandi, mál nr. E-12/10), þar sem niðurstaðan var sú að Ísland hefði brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt tilskipuninni, stendur nú yfir endurskoðun á íslensku lögunum. Þá hafa aðildarríki Evrópusambandsins átt í svipuðum erfiðleikum og er efni tilskipunarinnar því til umræðu á vettvangi sambandsins.

Viðræður um kaflann hófust á ríkjaráðstefnu þann 22. júlí 2012 og er hann enn opinn.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela