Spurning

Hvernig mundu atvinnulausir græða á ESB-aðild?

Spyrjandi

Hafþór Haukur Heiðarsson

Svar

Reglur Evrópusambandsins um samræmingu réttinda atvinnulausra í aðildarríkjunum hafa þegar verið innleiddar í íslensk lög á grundvelli EES-samningsins. Réttarstaða atvinnulausra mundi því ekki breytast við aðild Íslands að Evrópusambandinu.

***

Réttur einstaklinga til frjálsrar farar, það er til að dvelja og starfa í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er styrktur í sessi með eins konar kerfi sem samræmir almannatryggingakerfi EES-ríkjanna (sbr. 28. og 29. grein EES-samningsins). Kerfið byggist á sameiginlegum reglum sem kveða á um það hvaða lög skuli gilda í hvaða tilvikum til að koma í veg fyrir að farandlaunþegar séu annaðhvort tvítryggðir eða ótryggðir (reglugerð nr. 1408/71/EBE með síðari breytingum). Kerfið nær til veikinda, meðgöngu og fæðinga, vinnuslysa, vinnutengdra sjúkdóma, örorkubóta, lífeyris, eftirlifendabóta, styrkja vegna andláts, atvinnuleysisbóta og fjölskyldubóta.


"Ráðið mig" hefur einn útskriftarneminn skrifað á húfuna sína.

Samkvæmt evrópsku almannatryggingareglunum verða lög EES-ríkis (gistiríkis) um almannatryggingar einnig að ná til ríkisborgara annarra EES-ríkja sem hafa fasta búsetu í viðkomandi ríki. Einstaklingur sem flytur frá einu EES-ríki til annars á því ekki að lenda í verri stöðu en einstaklingur sem alltaf hefur búið og starfað í sama EES-ríkinu.

Hugmyndin sem býr að baki þessum reglum er að skapa ákjósanleg skilyrði fyrir einstaklinga til að nýta sér rétt sinn til að starfa á erlendri grundu, einkum þegar offramboð er af vinnuafli í einu ríki en skortur í öðru. Reyndin er þó sú, og það vita þeir sem hafa látið á það reyna, að ýmislegt vantar enn upp á að þetta kerfi virki sem skyldi. Þannig veltur það iðulega á því hversu vel einstaklingar eru sjálfir upplýstir um réttindi sín hve vel þeim gengur að ná þeim fram í gistiríkinu.

Atvinnulausum eru tryggð eftirfarandi réttindi með evrópsku almannatryggingareglunum:
  • Ríkisborgari EES-ríkis sem verður atvinnulaus í öðru EES-ríki á rétt á atvinnuleysisbótum í því landi þar sem hann starfaði síðast (sjá ólíkar reglur um atvinnuleysisbætur eftir löndum), sérstakar reglur gilda um þá sem hafa starfað í öðru landi en þar sem þeir hafa fasta búsetu.
  • Þegar atvinnuleysisbætur eru reiknaðar út skal tekið tillit til tímabila sem ríkisborgari EES-ríkis hefur starfað og verið atvinnuleysistryggður í öðru EES-ríki, ef það er nauðsynlegt til að viðkomandi uppfylli reglur um bótarétt.
  • Ríkisborgara EES-ríkis sem þiggur atvinnuleysisbætur í einu EES-ríki er, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, heimilt að flytja til annars EES-ríkis í þeim tilgangi að leita að vinnu og þiggja bætur þaðan í allt að þrjá mánuði (mögulegt er að lengja tímann í sex mánuði). Nánari upplýsingar um þennan möguleika má finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Reglugerð Evrópusambandsins (nr. 1408/71/EBE) um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildarríkja, sem ofannefndar reglur byggjast á, hefur þegar verið innleidd í íslensk lög á grundvelli EES-samningsins. Í Evrópusambandinu hefur reglugerðin verið leyst af hólmi með nýrri reglugerð (nr. 883/2004/EC) um samhæfingu almannatryggingakerfa. Helsta breytingin sem nýja reglugerðin felur í sér er rýmkun á persónulegu gildissviði, því hún tekur einnig til einstaklinga sem eru tryggðir í aðildarríki en hafa ekki verið á vinnumarkaði. Unnið er að innleiðingu nýju reglugerðarinnar í íslensk lög á grundvelli EES-samningsins og er hún óháð hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Um aðgang Íslendinga að vinnumarkaði Evrópusambandsríkja við aðild að ESB er fjallað í svari við spurningunni Hvernig breytist aðgangur að vinnumarkaði og skólum ef Ísland gengur í Evrópusambandið? og almennt um réttindi á vinnumarkaði í svari við spurningunni Hvað breytist varðandi réttindi á vinnumarkaði með inngöngu í ESB?

Mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela