Spurning

Félagsmálasjóður Evrópu

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Félagsmálasjóði Evrópu (e. European Social Fund, ESF) var komið á fót árið 1958 en kveðið var á um stofnun hans þegar í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu. Sjóðurinn er einn af uppbyggingarsjóðunum, ásamt Byggðaþróunarsjóði og Samheldnisjóði, sem hafa það hlutverk að framkvæma byggðastefnu Evrópusambandsins.

Í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins segir:

Í því skyni að fjölga atvinnutækifærum launafólks á innri markaðnum og stuðla með þeim hætti að bættum lífskjörum er hér með komið á fót, í samræmi við eftirfarandi ákvæði, Félagsmálasjóði Evrópu; hann skal hafa það hlutverk að greiða launafólki aðgang að störfum og auka hreyfanleika þess á milli staða og starfa innan sambandsins og auðvelda aðlögun þess að breytingum á iðnháttum og framleiðslukerfum, einkum með starfsmenntun og endurmenntun (162. gr.).

Öll aðildarríki Evrópusambandsins fá stuðning úr Félagsmálasjóði. Stuðningurinn miðast við svæði innan aðildarríkjanna og er mismikill eftir hlutfallslegum auði þeirra. Á fjárhagstímabilinu 2007-2013 hefur Félagsmálasjóðurinn yfir að ráða um það bil 76 milljörðum evra (á verðlagi ársins 2008) eða rúmum 20% af heildarfjárframlögum til byggðastefnunnar á tímabilinu. Rúmum 80% af heildarupphæðinni er varið til fátækustu svæða sambandsins, sem falla undir markmiðið um samleitni, en það eru þau svæði þar sem verg landsframleiðsla á mann er undir 75% af ESB-meðaltali. Hin 20% fara til þeirra ríkja sem falla undir markmiðið um samkeppnishæfni svæða og atvinnu. Á myndinni hér að neðan má sjá hve mikið hvert aðildarríki fær úthlutað úr Félagsmálasjóði.


Myndin sýnir hve háa fjárhæð hvert aðildarríki hefur til ráðstöfunar úr Félagsmálasjóði Evrópu á tímabilinu 2007 til 2013, í milljónum evra.

Ein meginregla byggðastefnunnar er sú að peningar úr uppbyggingarsjóðum ESB eigi ekki að koma í staðinn fyrir útgjöld af hálfu aðildarríkjanna til ákveðinna verkefna heldur eiga þeir að vera viðbót við þau. Önnur meginregla, sem leiðir af þeirri fyrri, er að framkvæmdaáætlanir byggðastefnunnar skuli fjármagnaðar sameiginlega af aðildarríkjunum og Evrópusambandinu. Framlög úr Félagsmálasjóði geta numið allt að 85% af heildarkostnaði framkvæmdaáætlunar, á fátækustu svæðunum, en 50% á öðrum svæðum.

Sjóðurinn er hluti áætlunar Evrópusambandsins til að auka atvinnuþátttöku fólks með því að veita atvinnuleitendum og þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu þjálfun og stuðning til þess að geta orðið virkir þátttakendur á vinnumarkaði.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur23.11.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Félagsmálasjóður Evrópu“. Evrópuvefurinn 23.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63789. (Skoðað 20.4.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela