Spurning

Hverjir eru möguleikar Íslands á að tengja gengi krónunnar við evru?

Spyrjandi

Bryndís Torfadóttir

Svar

Gengistenging felst í því að gengi innlends gjaldmiðils er tengt öðrum gjaldmiðli eða körfu gjaldmiðla. Hægt væri að tengja gengi krónunnar við evru án þess að Ísland gengi í Evrópusambandið. Ef Ísland mundi tengja gengi krónunnar við evru yrði ákveðið verð krónu skilgreint gagnvart evru sem Seðlabanki Íslands mundi reyna að viðhalda með vaxtastefnu sinni og inngripum á gjaldeyrismarkaði. Einkum tveir valkostir gætu komið til greina: hefðbundin einhliða gengistenging (mjúkt gengismarkmið) eða myntráð (hart gengismarkmið). Þátttaka Íslands í gengissamstarfi Evrópu (ERM-II) er ekki valmöguleiki þar sem hún er háð aðild að Evrópusambandinu.

***

Ísland hefur þann valkost að tengja gengi krónunnar við evru án þess að til aðildar að Evrópusambandinu komi. Í skýrslu Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum er fjallað um möguleika Íslands á að tengjast erlendum gjaldmiðli. Nánar tiltekið fjallar 18. kafli skýrslunnar um tengingu gengis krónunnar við evru.


Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, við kynningu á skýrslu Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum.

Einkum tveir valkostir stæðu Íslandi til boða ef ákvörðun yrði tekin um að gengistengja krónuna við evru. Annars vegar væri hægt að taka upp mjúkt gengismarkmið með hefðbundinni einhliða gengistengingu og hins vegar hart gengisfyrirkomulag, eins og myntráð. Ýmsir kostir og gallar fylgja báðum þessum valmöguleikum.

Með mjúku gengismarkmiði mundu íslensk stjórnvöld taka einhliða ákvörðun um vikmörk sem gengi krónunnar mætti sveiflast um gagnvart kjölfestugjaldmiðlinum evrunni. Hefðbundin einhliða gengistenging hefði kosti í för með sér eins og að draga úr gengissveiflum og þar með minnka óvissu um framtíðarvirði íslensku krónunnar en slíkt gæti auðveldað langtíma áætlanagerðir og aukið utanríkisviðskipti. Aðhald og trúverðugleiki íslenskrar hagstjórnar gætu jafnframt aukist ef peningastefna seðlabanka kjölfesturíkjanna er trúverðug og verðbólga lítil og stöðug á myntsvæðinu. Mjúkt gengismarkmið getur því hentað ríkjum vel þar sem áhrif gengissveiflna á verðbólgu eru mikil.

Með því að taka upp mjúkt gengismarkmið við evru mundi sveigjanlegt hagstjórnartæki þó tapast þar sem Seðlabanki Íslands mundi ekki lengur reka sjálfstæða peningastefnu. Þá yrði ekki lengur hægt að lækka innlenda vexti og leyfa genginu að veikjast til að milda samdráttaráhrif við sértækum efnahagsskellum til dæmis. Að taka upp slíkt gengismarkmið gæti einnig haft í för með sér aðra galla, einkum ef gengistenginguna skortir trúverðugleika sem mundi auka hættuna á spákaupmennskuárásum.

Mjúk tenging við gengisvísitölu var við lýði á Íslandi fram til ársins 2001 þegar verðbólgumarkmið og flotgengi var tekið upp. Að mati höfunda áðurnefndrar skýrslu Seðlabankans er ólíklegt að mjúkt gengismarkmið nyti nægilegs trúverðugleika yrði það tekið upp á ný og benda þeir jafnframt á að oft hafi „skort á þann aga í stjórn opinberra fjármála hér á landi sem nauðsynlegur er til að tryggja framgang slíks gengismarkmiðs“ (bls. 458). Gengismarkmið gæti hentað betur en fljótandi gengi ef tryggja á meiri verðstöðugleika á Íslandi:

Hins vegar má velta því fyrir sér hvort einhliða gengistenging sé heppilegasta form gengismarkmiðs til að ná fram þessum áhrifum þar sem slíkt fyrirkomulag skortir yfirleitt trúverðugleika og því gæti verið eðlilegra að ganga lengra í gengistengingunni. [...] Sé vandinn skortur á trúverðugleika markmiðsins er harðari gengistenging heppilegri en mýkri. (Bls. 458-459).


Ein evra.

Með hörðu gengismarkmiði, eins og í tilfelli myntráðs, yrði gengi íslensku krónunnar fest með afgerandi hætti við evru. Íslensk stjórnvöld mundu skuldbinda sig til að skipta innlendum gjaldmiðli út fyrir kjölfestugjaldmiðilinn evru á fyrirfram ákveðnu gengi og gengismarkmiðið yrði jafnframt fest í lög til að auka trúverðugleika þess. Seðlabanki Íslands þyrfti þá að búa yfir nægilega miklum gjaldeyrisforða til að geta tryggt innleysanleika íslensku krónunnar og eiga fyrir skuldbindingum íslenska ríkisins.

Myntráð hefði ýmsa kosti í för með sér. Það gæti stuðlað að auknum þjóðhagslegum aga þar sem Seðlabanka Íslands yrði óheimilt að eiga innlend verðbréf og gæti því síður fjármagnað hallarekstur hins opinbera. Íslensk stjórnvöld yrðu þá neydd til að reka ríkissjóð hallalaust ef engin lán fengjust hjá innlendum einkaaðilum eða á erlendum mörkuðum. Hörð gengistenging af þessu tagi mundi einnig auðvelda aðlögun þjóðarbúskapar í greiðsluvanda þar sem hún mundi fela í sér ákveðna sjálfvirka aðlögun greiðslujafnaðar. Þessir kostir teknir saman ættu svo að stuðla að auknum trúverðugleika myntráðsfyrirkomulagsins. Hættan á spákaupmennskuárásum ætti því að vera minni og þar með auka lífslíkur myntráðsins.

Eins og með önnur gengismarkmið mundi Seðlabanki Íslands ekki lengur fara með sjálfstæða peningastefnu ef myntráð yrði tekið upp. Það yrði jafnframt mjög erfitt og kostnaðarsamt ef hverfa þyrfti frá myntráðsfyrirkomulaginu. Fjármálalegur stöðugleiki og trúverðugleiki Íslands í efnahagsmálum mundi þá að öllum líkindum tapast til lengri tíma. Myntráð gæti einnig takmarkað myntsláttuhagnað Seðlabanka Íslands þar sem hann þyrfti að verja íslensku krónuna með erlendum eignum fremur en innlendum. Með öðrum orðum þyrfti bankinn að nota myntsláttuhagnað sinn við útgáfu krónunnar, að minnsta kosti að hluta, til þess að auka við gjaldeyrisforðann. Myntráðsfyrirkomulagið mundi að lokum takmarka möguleika Seðlabanka Íslands til að vera lánveitandi til þrautavara og koma innlendum fjármálastofnunum til aðstoðar væru þær í lausafjárvanda. Nauðsyn mikils gjaldeyrisforða við myntráðsfyrirkomulag er einnig í öllu falli mjög kostnaðarsöm ráðstöfun.

Báðir þessir valkostir gætu komið til greina fyrir Ísland en íslensk stjórnvöld þyrftu að vega og meta kosti og galla þeirra með vel ígrunduðum hætti. Ef ákvörðun yrði tekin um að tengja íslensku krónuna við evru þyrfti í öllu falli víðtækan pólitískan stuðning til að geta staðið straum af þeim kostnaði sem mundi fylgja þeirri gengistengingu sem yrði fyrir valinu.

Með aðild að gengissamstarfi Evrópu (ERM-II) er gengi gjaldmiðla þátttökuríkjanna haldið stöðugu gagnvart evru innan settra vikmarka og er fastgengið varið af bæði seðlabanka viðkomandi þátttökuríkis og Seðlabanka Evrópu. Slík gengistenging er því byggð á alþjóðlegu samstarfi þar sem Seðlabanki Evrópu og seðlabankar þátttökuríkjanna skuldbinda sig til að tryggja stöðugleika gengismarkmiðsins en ekki bara seðlabankar heimalandanna. Samkvæmt gildandi löggjöf um gengissamstarf Evrópu getur Ísland ekki tekið þátt í ERM-II án þess að gerast fyrst aðili að Evrópusambandinu.

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:

Hverjir eru möguleikar Íslands á að tengja gengi krónunnar við evru?

Mér skilst að Ísland muni seint uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrir upptöku evru án þess að ganga í ESB og fá þá að taka þátt í myntsamstarfinu ERM-2. Gætum við tekið þátt í þessu myntsamstarfi án þess að vera meðlimir í ESB eða væri hægt að tengja gengi krónunnar við evru með öðrum hætti, án inngöngu í ESB?
Við þetta svar er engin athugasemd Fela