Spurning

Hvernig er gjaldmiðli í ESB-ríki skipt út fyrir evru?

Spyrjandi

Barði Freyr Þorsteinsson

Svar

Að skipta út gjaldmiðli fyrir evru er stórt verkefni sem krefst mikils undirbúnings og tæknilegra aðgerða. Til að mynda þarf að tryggja að almenningur sé vel upplýstur um hvernig staðið verði að gjaldmiðilsskiptum í viðkomandi ESB-ríki, bankar og fyrirtæki þurfa að aðlaga tölvukerfi sín og bókhald í samræmi við nýja gjaldmiðilinn, hafa þarf eftirlit með réttri verðmerkingu vara og þjónustu og taka þarf upprunalega gjaldmiðilinn úr umferð eins fljótt og hægt er eftir upptöku evrunnar. Stjórnvöld í viðkomandi ríki semja áætlanagerð um hvernig það hyggst standa að gjaldmiðilsskiptunum og skipar sérstaka stýrinefnd sem hefur eftirlit með framkvæmd á upptöku evrunnar í heimalandi sínu og innköllun eldra reiðufjár.

***

Aðildarríkjum Evrópusambandsins ber að taka upp evru að uppfylltum svokölluðum Maastricht-skilyrðum. Þegar tiltekið ESB-ríki hefur uppfyllt öll skilyrðin tilkynnir ráð ESB með formlegum hætti að ríkið sé tilbúið til að gerast aðili að evrusvæðinu. Gengi gjaldmiðils viðkomandi ríkis er þá endanlega fest við evru og tæknilegur undirbúningur fyrir gjaldmiðilsskiptin hefst. Það er á ábyrgð stjórnvalda tilvonandi evruríkis að ákveða hversu langan tíma þau telja ríkið þurfa til að leggja niður fyrrum gjaldmiðil og notast einungis við evru. Upptökuferli evrunnar er því breytilegt eftir ríkjum en það þarf að vera í samræmi við þann viðmiðunarramma sem Evrópusambandið hefur sett.


Í dag eru tvær leiðir færar fyrir ESB-ríki til að taka upp evru:

  1. Miklahvellsleiðin (e. the big bang scenario). Þá er ekkert umbreytingartímabil; það er að segja dreifing evruseðla og -myntar hefst sama dag og evran er opinberlega gerð að nýjum gjaldmiðli. Gamli gjaldmiðillinn er þó yfirleitt í umferð samhliða evru í almennum viðskiptum í ákveðinn tíma.
  2. Miklahvellsleiðin í áföngum (e. the big bang scenario with phasing-out). Þá er aðlögunartímabil í allt að eitt ár; samningar og aðrir lagalegir gerningar vísa áfram í gamla gjaldmiðilinn þó svo að evran hafi þegar verið tekin upp og sé komin í almenna umferð. Þessi leið veitir ákveðið svigrúm þar sem eldri gjaldmiðillinn er tekinn úr umferð í áföngum og getur reynst gagnleg þegar breyta þarf flóknum tölvukerfum. Hún er þó einkum ætluð sem bráðabirgðaleið ef erfitt þykir að fara hefðbundna miklahvellsleið.

Um leið og ráð ESB hefur veitt tilteknu ESB-ríki leyfi til að taka upp evru þarf að framleiða nægilega mikið magn af evruseðlum og -mynt þannig að gjaldmiðilsskiptin geti átt sér stað með skilvirkum hætti þar í landi. Seðlabanki viðkomandi ríkis fær þá fyrirfram ákveðið magn af evruseðlum að láni frá evrukerfinu, það er Seðlabanka Evrópu og seðlabönkum þeirra aðildarríkja ESB sem hafa evru sem gjaldmiðil, með því skilyrði að ríkið greiði lánið að fullu til baka með eigin evruseðlum þegar gjaldmiðilsskiptunum er lokið. Myntslátta fer aftur á móti fram í seðlabanka tilvonandi evruríkis.

Þegar framleiðslu evruseðla og -myntar er lokið þarf innlendi seðlabankinn að dreifa reiðufénu fyrirfram til innlendra viðskiptabanka (e. frontloading). Þeir selja það síðan gegn eldri mynt á fyrrnefndu gengi eða lána það til söluaðila og annarra fyrirtækja (e. sub-frontloading) þannig að þau geti gefið viðskiptavinum sínum til baka í evrum frá og með deginum sem sameiginlegi gjaldmiðillinn er tekinn í notkun og settur í almenna umferð.


Liður í kynningarstarfsemi í aðdraganda upptöku evrunnar í Eistlandi.

Í kjölfar ákvörðunar ráðs ESB um að nýtt ríki sé að fara að verða aðili að evrusvæðinu fer af stað kynningarstarf í viðkomandi ríki til að upplýsa almenning um hvað sé í vændum. Kynningarbæklingar um sameiginlegu myntina eru sendir á öll heimili viðkomandi ríkis og verslanir og fyrirtæki byrja að umreikna verð sín yfir í evrur og tvöföld verðlagning hefst. Fyrirtæki og bankar byrja að aðlaga tölvukerfi sín og bókhald og þegar nær dregur er hver einasti sjálfsali og hraðbanki í viðkomandi ríki forritaður upp á nýtt.


Dæmi um tvöfalda verðlagningu.
Þegar evran hefur formlega verið tekin upp getur almenningur notað gamla gjaldmiðilinn fyrstu vikurnar en fær hins vegar aðeins gefið til baka í evrum. Þannig er gamla gjaldmiðlinum smám saman komið úr umferð. Hraðbankarnir eru þá aðallega fylltir með 5, 10 eða 20 evruseðlum til að gera kaupsýslumönnum auðveldara fyrir að gefa til baka í evrum. Þegar tímabil tvöfaldrar umferðar gjaldeyris lýkur mega söluaðilar síðan einungis taka á móti evrum. Einstaklingar sem sitja enn á gamalli mynt eða seðlum eftir það geta skipt þeim í almennum viðskiptabönkum án endurgjalds innan ákveðins tíma. Seðlabanki ríkisins skuldbindur sig hins vegar til að taka við gamla gjaldmiðlinum mun lengur.

ESB-ríki sem gerist aðili að evrusvæðinu í dag þarf ekki jafn langan aðlögunartíma fyrir upptöku evru og þegar evran kom fyrst við sögu; en þá fengu þátttökuríkin þriggja ára aðlögunartímabil áður en dreifing evruseðla og -myntar hófst. Nánar er fjallað um hvernig evran var tekin upp af stofnríkjum evrusvæðisins í svari við spurningunni Hvenær og hvernig var gjaldmiðlum ESB-ríkja skipt út fyrir evru?

Ýmsar ástæður eru fyrir því að ríki sem gerast nú aðilar að evrusvæðinu fá styttri aðlögunartíma. Helsta skýringin er sú að árið 2002 urðu gjaldmiðlaskipti í 12 ríkjum sem var umfangsmeira verkefni og krafðist meiri fyrirhafnar en gjaldmiðilsskipti í nýju evruríkjunum. Reynsla er einnig komin á gjaldmiðilsskipti sem hægt er að miðla til ESB-ríkja sem síðar gerast aðilar að evrusvæðinu. Til að mynda hafa ný evruríki sóst eftir styttri tíma til að taka eldri gjaldmiðil úr umferð og miða núorðið yfirleitt við tvær vikur frá því að evran er formlega tekin upp. Við upprunalegu dreifingu evrunnar var ákveðið að tvöföld umferð gjaldeyris skyldi standa yfir í tvo mánuði en um miðjan janúar 2002 (tveimur vikum eftir að dreifing evruseðla og –myntar hófst) fóru þegar yfir 90% allra viðskipta í handbæru fé á svæðinu fram í evrum.

Af þeim ríkjum sem gengu í ESB við stækkanirnar árin 2004 og 2007 hafa fimm tekið upp evru sem gjaldmiðil. Þau eru Slóvenía (1.1.2007), Kýpur (1.1.2008), Malta (1.1.2008), Slóvakía (1.1.2009) og Eistland (1.1.2011).

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:

Hvernig er skipt um gjaldmiðil í landi, t.d. ef krónunni verður skipt út fyrir evru?
Við þetta svar er engin athugasemd Fela