Spurning

Gæti Ísland gengið í ESB án þess að taka upp evru?

Spyrjandi

Árni Snær Magnússon, Bjarklind Símónardóttir, Dagur Kjartansson, Sindri Freyr Pétursson, Unnur Ósk Burknadóttir, Valþór Freyr Sigtryggsson, Þorkell Helgason

Svar

Aðildarríkjum Evrópusambandsins ber að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil sambandsins, evru, og slíkt hið sama mundi gilda um Ísland ef við gerðumst aðili að sambandinu. Aðildarríkjunum er á hinn bóginn í sjálfsvald sett hvenær þau gerast aðilar að ERM II gengissamstarfinu en tveggja ára þátttaka í því, án gengisfellingar, er eitt svonefndra Maastricht-skilyrða fyrir upptöku evru. Ísland er nokkuð langt frá því að uppfylla Maastricht-skilyrðin eins og nánar má lesa um í svari við spurningunni Uppfyllir Ísland Maastricht-skilyrðin núna?

Þrjú ríki, Bretland, Danmörk og Svíþjóð, hafa kosið að taka ekki fullan þátt í evrusamstarfinu. Bretar og Danir sömdu á sínum tíma um varanlega undanþágu frá upptöku evru og er þess getið í sérstökum bókunum við sáttmála Evrópusambandsins. Svíþjóð er hins vegar formlega séð skuldbundið af ákvæðum sáttmála Evrópusambandsins um upptöku evru en hefur ekki óskað eftir þátttöku í ERM II gengissamstarfinu. Strangt til tekið brýtur Svíþjóð því Maastricht-sáttmálann en ESB hefur ekki beitt neinum refsingum né þrýst sérstaklega á Svía að taka upp evru. Nánari umfjöllun um tilvik Danmerkur og Svíþjóðar er að finna í svari við spurningunni Hvaða Norðurlönd hafa evru sem gjaldmiðil?


Ein evra.
Evruríkin eru sautján talsins en sjö aðildarríki til viðbótar eru mislangt á veg komin með að uppfylla Maastricht-skilyrðin. Þau eru Búlgaría, Lettland, Litháen, Pólland, Rúmenía, Tékkland og Ungverjaland. Tvö þeirra, Lettland og Litháen, taka þátt í gengissamstarfinu (ERM II).

Svarið við því hvort hægt sé að ganga í Evrópusambandið án þess að taka upp evru er því bæði já og nei. Það er ekki hægt að ganga í sambandið öðruvísi en að skuldbinda sig til að taka upp hinn sameiginlega gjaldmiðil. Hins vegar fæst evran ekki sjálfkrafa með aðild heldur aðeins að uppfylltum ströngum skilyrðum. Yfirstandandi efnahagsvandræði á evrusvæðinu eru besta sönnun þess hve mikilvægt er að ríki sem taka upp evru séu vel undir það búin og taki skuldbindingar sínar alvarlega. Það eru ekki eingöngu hagsmunir viðkomandi ríkis heldur evrusvæðisins sem heildar. Að beita aðildarríki sem ekki hefur áhuga á þátttöku í myntsamstarfinu þrýstingi til þess er því varla evrusamstarfinu sjálfu í hag.

Nánar er fjallað um evruna í svörum við spurningunum:

Mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela