Spurning

Hver er niðurstaða skýrslu Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldeyrismálum?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Skýrsla Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum er afar umfangsmikil. Ritið telur rúmar 600 blaðsíður og skiptist í 25 kafla. Niðurstöður skýrslunnar eru því eins og gefur að skilja margvíslegar og verður hér aðeins stiklað á stóru.

Fjallað er ítarlega um ólíka valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum svo sem upptöku evru með aðild að Evrópusambandinu og inngöngu í efnahags- og myntbandalag Evrópu, mismunandi möguleika á tengingu krónunnar við annan gjaldmiðil og upptöku á öðrum gjaldmiðli án formlegrar aðildar að myntsvæðinu. Niðurstaða samanburðar á kostum og göllum þessara valkosta er sú að ef á annað borð verði ákveðið að tengja gengi krónunnar öðrum gjaldmiðli eða taka upp annan gjaldmiðil sé tenging við eða upptaka evru augljósasti kosturinn (20. kafli).


Mynd af peningastefnunefnd, eins og hún var skipuð fram í mars 2012. Talið frá vinstri: Þórarinn G. Pétursson, ritstjóri skýrslunnar, Anne Sibert (Katrín Ólafsdóttir tók sæti hennar í byrjun mars 2012), Már Guðmundsson, Arnór Sighvatsson og Gylfi Zoega.

Rökstuðningurinn fyrir þessari niðurstöðu er sá að evrusvæðið vegi langþyngst í utanríkisviðskiptum og erlendum skuldum íslensku þjóðarinnar og evran sé einnig algengasta uppgjörsmyntin í erlendum viðskiptum á Íslandi, ásamt Bandaríkjadal. Evrusvæðið er jafnframt næststærsta myntsvæði heimsins á eftir því bandaríska. Tengingu við evruna mundi því fylgja viðbótarábati, sökum þess að fjöldi annarra ríkja reynir að draga úr sveiflum gagnvart henni. Takmörkuð tengsl eru fundin milli innlendrar hagsveiflu og hagsveiflu evrusvæðisins en niðurstöður rannsókna benda þó til þess að slík tengsl aukist jafnan við aðild að myntbandalagi og þurfi því ekki endilega að vera til staðar í upphafi.

Ekki er kveðið upp úr með það í skýrslunni hvaða leið sé best fyrir Íslendinga að fara: að taka upp eða tengja krónuna við evru eða halda krónunni. Þrátt fyrir traustar hagfræðilegar úttektir er engin hagfræðileg forskrift til að því hvernig vega eigi kosti og galla ólíkra leiða saman til að fá skýra niðurstöðu. Þar að auki ríkir óvissa um hvernig þessir kostir og gallar þróast í framtíðinni (1. kafli)

Þannig er bent á það í kaflanum um evrusamstarfið og fjármálastöðugleika að ótímabært sé að kveða upp endanlegan dóm um það hvort fjármálastöðugleiki á Íslandi sé betur tryggður utan eða innan stærra myntbandalags. Reynsla evruríkjanna sýni að aðild að myntbandalagi geti verið vörn gegn lausafjárkreppu en um leið geti hún torveldað aðlögun í kjölfar alvarlegra áfalla á fjármálakerfið. Aðild að myntbandalagi geti þannig haft áhrif á bæði dýpt samdráttar og lengd aðlögunar í kjölfar fjármálaáfalls. Í því sambandi er bent er á að efnahagsbatinn eftir kreppuna hafi reynst kröftugri hér á landi en meðal margra evruríkja og að líklegt sé að sveigjanlegt gengi krónunnar hafi átt nokkurn þátt í því. Enn sé þó of snemmt að fullyrða um hlutfallslegan árangur ríkja innan og utan evrusvæðisins enda skuldakreppan á evrusvæðinu enn óleyst og fjármagnshöftin enn vandamál á Íslandi (16. kafli).

Hvort sem er innan eða utan evrusvæðisins er það verkefni framtíðarinnar að tryggja fjármálastöðugleika á Íslandi, án þess að draga úr vaxtargetu þjóðarbúsins.
„Takist evruríkjunum og Evrópusambandinu að leysa úr núverandi vanda með viðunandi hætti er ef til vill auðveldara að ná því markmiði innan evrusvæðisins, vegna þess að ýmis áhætta tengd gjaldmiðlinum minnkar. Ávinningurinn er hins vegar háður því að innlend efnahagsstefna einkennist af fullnægjandi aðhaldssemi, að opinberum skuldum verði haldið í skefjum, aðilar á vinnumarkaði hafi getu til að aðlagast ytri áföllum, eftirlit með fjármálakerfinu sé nægilegt og að þjóðhagsvarúðartækjum verði beitt til þess að draga úr þeirri tilhneigingu fjármálakerfisins að ýta undir sveiflur í þjóðarbúskapnum, án þess þó að skaða eðlilega framþróun efnahagslífisins“ (bls. 423).

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er ein athugasemd Fela athugasemd

Guðmundur Ásgeirsson 5.10.2012

Helsti gallinn við skýrsluna er að titill hennar er rangnefni með því að vera í fleirtölu. Annað sem á eftir kemur er samkvæmt því.

Þeir meginvalkostir sem fjallað er um í skýrslunni eru nefnilega þessir: 1. Að taka upp evru. 2. Að taka ekki upp evru. En augljóslega er þetta aðeins einn valkostur, og umfjöllunin snýr að því hvort hann skuli taka eða ekki.

Titill skýrslunnar ætti því til að byrja með að vera í eintölu.

Þessi eini valkostur sem um er rætt er þar að auki ekki valkostur nema Ísland yrði fyrst aðili að Evrópusambandinu og myndi síðan uppfylla Maastricht-skilyrðin. Það kemur reyndar fram í skýrslunni svo hún er ekki alvond.