Spurning

Ættu Íslendingar að taka upp evruna?

Spyrjandi

Ragnar Daði Sigurðsson

Svar

Þessari spurningu verður hver og einn að svara fyrir sig. Ástæðan er sú að valið milli þess að taka upp evru eða halda í krónuna veltur að miklu leyti á áhættufælni einstaklinga á þeim tíma sem þeir spyrja sjálfa sig hvort vænlegra sé að taka upp evru eða halda krónunni. Hagfræðin mun ekki gefa afgerandi svar við því hvor gjaldmiðillinn sé „betri“.

***

Evrusvæðið byggist á fræðunum um hagkvæm myntsvæði. Í mjög stuttu máli gengur sú kenning út á að séu hagkerfi ríkja nægilega lík, til að mynda með tilliti til menningar, tungumáls og eðlis hagsveiflunnar í þeim, og viðskipti milli þeirra mikil þá sé það hagstætt fyrir löndin að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil, einkum til að draga úr viðskiptakostnaði milli landanna.

Ábatinn sem er í því fólginn að draga úr viðskiptakostnaði milli landanna á að vega upp á móti þeirri staðreynd að þegar erlendur gjaldmiðill er tekinn upp er sjálfstæðri peningastefnu samtímis fórnað. Raunar er það stundum tilgangurinn með upptöku nýs gjaldmiðils að losna við sjálfstæða peningastefnu, það er að segja ef sú peningastefna sem hefur verið við lýði er svo illa framkvæmd að hún geri hagkerfinu illt. Upptaka erlends gjaldmiðils á þannig ekki aðeins að minnka viðskiptakostnað milli landa heldur einnig að auka trúverðugleika þeirrar peningastefnu sem er við lýði og þar með farsæld hagkerfisins.


Að reka hagkerfi með sjálfstæðri peningastefnu má líkja við það að aka um á kaskótryggðum bíl.

Það er hér sem áhættufælni einstaklinga hefur áhrif. Höfundur hefur stundum líkt spurningunni um hvort sjálfstæð peningastefna með krónu (sem ekki er bundin fastgengi við annan gjaldmiðil) sé „betri“ en upptaka evru við spurninguna um hvort rétt sé að bíleigendur kaupi sér kaskótryggingu.

Samlíkingin er eftirfarandi: kaskótrygging á bíl kostar bíleigandann dágóðan skilding. Lendi eigandinn í slysi, sem hann réði ekkert við, mun hann fá tjón sitt bætt að fullu, að frádreginni sjálfskuldarábyrgð. Eigandi bílsins veit þetta hins vegar og þar með verður til það sem hagfræðingar kalla freistnivanda (e. moral hazard): Vissa eigandans um að fá tjón sitt bætt ef hann lendir í óhappi dregur úr hvatanum til að keyra varlega. Þar með aukast líkurnar á því að lenda í umferðaróhappi ef bíleigendur kjósa að kaupa kaskótryggingu.

Bíleigandi sem kaupir ekki kaskótryggingu, til dæmis vegna kostnaðarins, glímir ekki við freistnivanda. Hann getur þó enn lent í slysi vegna þátta sem hann ræður ekkert við, svo sem ef fugl flýgur á framrúðuna, eða einfaldlega vegna þess að hann keyrir eins og kjáni. Eigandinn fær tjónið hins vegar ekki að fullu bætt og verður því sjálfur að standa straum af kostnaðinum við að láta laga bílinn. Án kaskótryggingar hafa bíleigendur því aukinn hvata til að aka varlega.

Krónan og sjálfstæð peningastefna eru kaskótryggingin í dæminu hér að ofan og upptaka evru ígildi þess að sleppa kaskótryggingunni. Lendi hagkerfið í vandræðum er auðveldara að „stilla það af“ ef sjálfstæð peningastefna er til staðar. Á sama tíma getur sjálfstæð peningastefna einnig valdið því að hagsveiflan (bílslysið) verði ýktari en ella, líkt og færa má rök fyrir að raunin hafi verið í aðdraganda hrunsins árið 2008. Án sjálfstæðrar peningastefnu er ennþá mögulegt að ríki lendi í alvarlegum efnahagsvandræðum, líkt og raunin er í sumum jaðarríkjum evrusvæðisins.

Spurningin um hvor gjaldmiðillinn sé „betri“ snýst því ekki aðeins um það hvort evrusvæðið sé hagkvæmt mynsvæði eða ekki heldur er svarið einnig fólgið í því hversu áhættufælin þjóðin er á þeim tíma sem spurningunni er svarað.

Það má færa rök fyrir því að ekki sé ástæða til að halda fast í peningastefnu sem hefur haft í för með sér að verðgildi krónunnar hefur lækkað um 99,95% gagnvart danskri krónu frá árinu 1939. Verði evran tekin upp í stað krónunnar þá verða Íslendingar hins vegar að taka upp skynsamari hagstjórn en áður. Það á ekki aðeins við um fjármál hins opinbera, líkt og Maastricht-skilyrðin fjalla um, heldur einnig skuldaútþenslu einkaaðila. Þannig skýrast efnahagsvandræði jaðarríkja evrusvæðisins ekki aðeins af því að engin bönd voru á fjármálum hins opinbera, eins og í Grikklandi og Ítalíu, heldur leiddi óhófleg skuldaútþensla einkaaðila til fjárhagsvandræða hins opinbera í ríkjum eins og Portúgal, Spáni og Írlandi.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur20.9.2012

Tilvísun

Ólafur Margeirsson. „Ættu Íslendingar að taka upp evruna?“. Evrópuvefurinn 20.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=30912. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Ólafur Margeirssondoktorsnemi í hagfræði við háskólann í Exeter, Bretlandi

Við þetta svar er engin athugasemd Fela