Spurning

Hagkvæmt myntsvæði

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Hugtakið hagkvæmt myntsvæði (e. optimum currency area, OCA) er notað í kenningum hagfræðinga um það hvenær myntsamstarf ríkja borgar sig og hvenær ekki. Það á rætur að rekja til Roberts Mundell (1961), nóbelsverðlaunahafa í hagfræði.

Hagkvæmt myntsvæði er svæði þar sem það hámarkar efnahagslega hagkvæmni svæðisins í heild að hafa sameiginlegan gjaldmiðil og samræmda peningamálastefnu. Samkvæmt kenningunni er meginskilyrði þess, að það sé hagkvæmt fyrir ríki með sjálfstæðan gjaldmiðil að ganga til myntsamstarfs við önnur ríki, að það sé ekki líklegt til að verða fyrir svonefndum ósamhverfum, eða landsbundnum, efnahagslegum áföllum (e. asymmetric schock), eins og þegar afli minnkar eða aðgangur að lánsfé skerðist. Að öðrum kosti mun sameiginleg peningamálastefna myntsvæðisins ekki koma viðkomandi ríki að notum og því væri það betur statt með sjálfstæða mynt, fljótandi gengi og sína eigin peningamálastefnu.

Á meðal annarra þátta sem oftast eru nefndir sem forsendur þess að myntsvæði séu hagkvæm er:
  • Hreyfanleiki vinnuafls og fjármagns. Fólk þarf að geta ferðast frjálst um svæðið og leitað sér að vinnu þar sem hana er að fá. Því sé nauðsynlegt að þættir eins og reglur um sjúkratryggingar og dvalarleyfi sem og tungumálakunnátta skapi ekki hindranir á vegi fólks.
  • Sveigjanleiki verðs og launa. Það þarf að vera hægt að bregðast við samdrætti án þess að valda miklu atvinnuleysi.
  • Millifærslukerfi í ríkisfjármálum sem flytur fjármagn á milli landa til þess að mæta áföllum.

Algengt viðfangsefni hagfræðinga sem beita kenningunni um hagkvæmt myntsvæði er hvort og hvernig evrusvæðið uppfyllir skilyrði þess að myntsvæði sé hagkvæmt en niðurstöðum þeirra ber þó ekki saman (sjá meðal annars Rose, 2008 og Paudyn, 2007). Ennfremur hefur margvísleg gagnrýni komið fram á kenningar um hagkvæm myntsvæði. Ein sú veigamesta er sú að kenningin taki ekki tillit til þeirra breytinga á hagsveiflum sem innganga í myntsamstarfi veldur í hagkerfi inngönguríkisins (sjá yfirlit hjá Francesco Paolo Mongelli, 2002).

Heimildir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur10.2.2012

Tilvísun

Evrópuvefur. „Hagkvæmt myntsvæði“. Evrópuvefurinn 10.2.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61918. (Skoðað 9.11.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela