Spurning

Gætum við tekið upp dönsku krónuna í staðinn fyrir evruna?

Spyrjandi

Sigurður Steinar Valdimarsson

Svar

Já, Ísland gæti tekið upp dönsku krónuna í stað evru. Tenging við eða upptaka dönsku krónunnar yrði þó að vera einhliða af hálfu Íslands, án sérstaks samráðs við dönsk stjórnvöld, sökum þátttöku Danmerkur í evrópska gengissamstarfinu. Þetta er vegna þess að Evrópusambandið leggst gegn því að utanaðkomandi ríki taki upp evru eða tengi gjaldmiðil sinn við hana nema í gegnum hið skilgreinda ferli ESB. Ísland gæti því ekki gert samkomulag við Danmörku um veigamikla þætti líkt og endurnýjun ónýtra seðla, hlutdeild í myntsláttuhagnaði, lausafjárfyrirgreiðslu við bankakerfið og aðild að stjórnun peningamála. Með einhliða tengingu við dönsku krónuna eða með upptöku hennar yrði Ísland þó óbeint aðili að evrusvæðinu.

***

Í skýrslu Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum kemur fram að ef stjórnvöld ákveða á annað borð að tengja íslensku krónuna öðrum gjaldmiðli eða að taka upp nýjan gjaldmiðil þá sé evran augljósasti kosturinn. Yrði evran ekki fyrir valinu koma norrænu gjaldmiðlarnir til greina og þá væri danska krónan vænlegasti kosturinn. Þetta er vegna þess að Danmörk er þátttakandi í gengissamstarfi Evrópu (ERM II) sem þýðir að gengi dönsku krónunnar er haldið föstu gagnvart gengi evru. Danski seðlabankinn stýrir vöxtum í samræmi við Seðlabanka Evrópu og fylgir peningastefnu evrusvæðisins svo gengi dönsku krónunnar haldist stöðugt gagnvart evrunni. Með tengingu við dönsku krónuna eða með upptöku hennar yrði Ísland því óbeint aðili að evrusvæðinu.


Danskar krónur.

Tenging við eða upptaka dönsku krónunnar yrði þó að vera einhliða af hálfu Íslands þar sem þátttaka Danmerkur í gengissamstarfinu, kemur í veg fyrir að dönsk stjórnvöld geti gert tvíhliða samninga við stjórnvöld á Íslandi um gengissamstarf eða notkun dönsku krónunnar. Evrópusambandið leggst nefnilega gegn því að þriðju ríki taki upp evru eða tengi gjaldmiðil sinn við hana nema í gegnum hið skilgreinda ferli ESB, það er að segja með aðild að sambandinu og að uppfylltum Maastricht-skilyrðunum.

Með einhliða upptöku mundi Ísland taka í notkun dönsku krónuna í stað íslensku krónunnar annað hvort með upptöku eða tengingu, án sérstaks samráðs við dönsk stjórnvöld. Helstu kostir þessarar leiðar eru í raun þeir sömu og fylgja þátttöku í Efnahags- og myntbandalaginu eða lægri viðskiptakostnaður og í kjölfarið aukin viðskipti, minni verðbólga, lægri vextir og hugsanlega lægra áhættuálag á innlendar fjárskuldbindingar.

Ýmsir gallar væru þó á einhliða upptöku eða tengingu við dönsku krónuna. Eyða þyrfti gjaldeyrisforða Íslands í að eignast hinn nýja gjaldmiðil. Íslensk stjórnvöld hefðu ekki heimild til að gefa út gjaldmiðilinn og því fengist ekki hlutdeild í myntsláttuhagnaði þar sem hann fellur í skaut þess ríkis eða þeirrar stofnunar sem gefur út gjaldmiðilinn. Þá væri ekki heldur hægt að endurnýja ónýta seðla. Helsti ókosturinn væri þó sá að án eigin seðlabanka mundi bankakerfið á Íslandi skorta tryggan aðgang að lausafjárfyrirgreiðslu seðlabanka eða lánveitanda til þrautavara í þeim gjaldmiðli sem fjármálakerfið starfaði með. Jafnframt færi Ísland ekki lengur með stjórnun eigin peningamála.

Mögulegt væri að draga úr þessum göllum með tvíhliða samkomulagi á milli íslenskra og danskra stjórnvalda en skuldbindingar Danmerkur vegna þátttöku ríkisins í Efnahags- og myntbandalagi Evrópu gerir það að verkum að slíkt samkomulag stendur einfaldlega ekki til boða.

Hvort mögulegur ávinningur af einhliða upptöku dönsku krónunnar væri nægilegur til að vega upp á móti göllunum þarf hver og einn að ákveða fyrir sig. Svo mikið er víst að Ísland væri ekki fyrsta ríkið sem tæki upp á þessu. Alls hafa 18 fullvalda ríki kosið að festa gengi sitt við gjaldmiðil annars ríkis eða ákveðið að taka upp erlendan gjaldmiðil. Flest þeirra hafa valið Bandaríkjadollar eða evru. Ekvador og El Salvador tóku til að mynda upp Bandaríkjadal á meðan Svartfjallaland og Kósóvó tóku einhliða upp evru. Þó er varasamt að draga mikinn lærdóm af reynslu þessara ríkja þar sem þróunarstig og efnahagsuppbygging í þessum löndum er ólík í samanburði við Ísland.

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er ein athugasemd Fela athugasemd

Magnus Bjarnason 14.12.2012

Þetta er ekki athugasemd sem slík, bara viðbótarupplýsingar.

Forsætisráðherra Noregs var spurður í fréttaviðtali rétt eftir efnahagshrunið á Íslandi hvort Ísland ætti e.t.v. að taka upp norska krónu, en hann lagðist gegn hugmyndinni.