Spurning

Hvað er Hoyvíkursamningurinn og á hvaða hátt er hann frábrugðinn öðrum fríverslunarsamningum Íslands?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Hoyvíkursamningurinn er fríverslunarsamningur á milli Íslands og Færeyja. Að EES-samningnum undanskildum er hann víðtækasti fríverslunarsamningur sem Ísland hefur gert. Hoyvíkursamningurinn er sérstakur fyrir þær sakir að vera eini fríverslunarsamningur Íslands sem afnemur alla tolla á landbúnaðarafurðum, en almennt er það stefna Íslands að veita ekki öðrum ríkjum markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur hérlendis. Á undanförnum árum hafa fulltrúar Færeyja þó ítrekað bent á að vegna túlkunar Íslendinga á upprunareglum samningsins sé markaðsaðgangurinn skertur.

***

Hoyvíkursamningurinn er fríverslunarsamningur á milli Íslands og Færeyja. Hann tók gildi árið 2006 og kom í stað eldri fríverslunarsamnings sem hafði gilt um vöruviðskipti landanna frá árinu 1993. Samningurinn gildir á milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og Heimastjórnar Færeyja hins vegar. Samningurinn dregur nafn sitt af Hoyvík í Færeyjum þar sem hann var undirritaður.


Össur Skarphéðinsson og Kaj Leo Johannesen lögmaður Færeyja á árlegum fundi Hoyvíkurráðsins árið 2012.

Markmið samningsins er að mynda eitt efnahagssvæði á yfirráðasvæðum Íslands og Færeyja og renna enn sterkari stoðum undir náin samskipti landanna. Að EES-samningnum frátöldum er Hoyvíkursamningurinn víðtækasti fríverslunarsamningur sem Ísland hefur gert en hann tekur til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsra fólksflutninga og búseturéttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, staðfesturéttar, samkeppnismála, ríkiseinkasölu, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa. Þar að auki skapar samningurinn ramma utan um aukið samstarf á milli þjóðanna á öðrum sviðum, eins og í menntunar- og menningarmálum, orkumálum, umhverfismálum, heilbrigðismálum, rannsóknum og þróun, auðlindastjórnun, fjarskiptamálum, ferðaþjónustu og flutningum.

Með samningnum var komið á fót sameiginlegri nefnd, Hoyvíkurnefndinni, en hlutverk hennar er að tryggja skilvirka framkvæmd samningsins og vera vettvangur skoðana- og upplýsingaskipta á milli fulltrúa landanna. Einnig var komið á fót svokölluðu Hoyvíkurráði, á vettvangi þess funda utanríkisráðherrar landanna árlega.

Það sem gerir samninginn einstakan í hópi fríverslunarsamninga Íslands er að hann kveður á um niðurfellingu tolla á öllum varningi, einnig landbúnaðarafurðum. Við gerð fríverslunarsamninga hefur stefna íslenskra stjórnvalda iðulega verið að veita ekki öðrum ríkjum markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur. Þetta er því eini fríverslunarsamningur Íslands sem afnemur alla tolla á landbúnaðarafurðum á gagnkvæmnisgrundvelli.

Í skýrslu utanríkisráðuneytisins frá árinu 2012 kemur þó fram að á undanförnum árum hafi fulltrúar Færeyja ítrekað kvartað undan túlkun Íslendinga á upprunareglum samningsins. Vilja þeir meina að íslensk yfirvöld veiti Færeyjum takmarkaðri aðgang fyrir landbúnaðarafurðir sínar en mælt er fyrir um í samningnum. Þetta á einkum við afurðir sem upprunnar eru í Færeyjum sem og evrópskar landbúnaðarvörur sem unnar hafa verið í Færeyjum. Þessi vandamál hafa verið til umræðu á vettvangi Hoyvíkur-nefndarinnar og -ráðsins á undanförnum árum, án þess þó að viðunandi lausnir hafi fundist.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela