Spurning

Af hverju sækir Ísland ekki um aðild að NAFTA í staðinn fyrir ESB?

Spyrjandi

Ingólfur D. Árnason

Svar

Af tveimur ástæðum er ólíklegt að íslensk stjórnvöld komi til með að sækja um aðild eða einhvers konar aukaaðild að Fríverslunarsamningi Norður-Ameríku. Annars vegar eru það skýrar kröfur Bandaríkjanna um niðurfellingu tolla af landbúnaðarafurðum, sem gera það að verkum að erfitt yrði að ná samningum sem samræmdust stefnu íslenskra stjórnvalda í landbúnaðarmálum. Hins vegar er það vegna þess að Ísland hefur nú þegar gert fríverslunarsamninga við Kanada og Mexíkó og hefur þar með aðgang að mörkuðum tveggja NAFTA-ríkja af þremur. Íslensk stjórnvöld hafa því litið svo á að nærtækari kostur væri að Ísland gerði fríverslunarsamning beint við Bandaríkin, hvort heldur sem væri í formi tvíhliða samnings eða í samfloti við hin EFTA-ríkin.

***

Samkvæmt því sem Evrópuvefurinn kemst næst hefur ekki verið gerð úttekt á því á síðustu árum hvort Ísland gæti tekið upp beina aðild eða einhvers konar aukaaðild að Fríverslunarsamningi Norður-Ameríku (NAFTA). Þessi möguleiki var síðast skoðaður árið 1994 og voru niðurstöður þær að aðild Íslands að fríverslunarsamningnum kæmi vel til greina. Með slíkri aðild fengi Ísland aukið aðgengi að mörkuðum Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó. Aðgengi að Bandaríkjamarkaði var talinn sérstaklega álitlegur kostur. Þó var fyrirséð að krafa Bandaríkjamanna um niðurfellingu tolla af landbúnaðarafurðum, sem þeir leggja áherslu á í öllum sínum fríverslunarviðræðum, mundi valda því að erfitt yrði að ná samningi sem samræmdist stefnu íslenskra stjórnvalda í landbúnaðarmálum.


NAFTA-ríkin og Ísland.

Skömmu fyrir aldamótin hófu EFTA-ríkin fríverslunarviðræður við bæði Kanada og Mexíkó. Þetta gerði það að verkum að ekki var talin ástæða fyrir Ísland til að leita eftir aðild að NAFTA þar sem fríverslunarsamningar við ríkin tvö mundu tryggja Íslandi aðgang að tveimur af þremur mörkuðum NAFTA-ríkjanna. Fríverslunarsamningur EFTA og Mexíkó gekk í gildi árið 2001 en lengri tíma tók að semja við Kanada og tók sá samningur gildi árið 2009. Aðgangur Íslands að Bandaríkjamarkaði er hins vegar enn háður takmörkunum þar sem enginn fríverslunarsamningur er fyrir hendi.

Ísland á í viðskiptum við fjölmörg ríki á grundvelli fríverslunarsamninga sem gerðir hafa verið á vettvangi EFTA-samstarfsins. Möguleikinn á slíkum samningi við Bandaríkin hefur ítrekað verið kannaður hjá EFTA-ríkjunum sem og möguleikinn á tvíhliða samningi af Íslands hálfu. Íslensk stjórnvöld hafa haft það fyrir hefð að hefja ekki tvíhliða viðræður við ríki fyrr en fullreynt hefur verið að hefja fríverslunarviðræður á vettvangi EFTA. Skýr afstaða Bandaríkjamanna varðandi markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur hefur hins vegar valdið því að ekki hefur verið talið raunhæft af hálfu EFTA-ríkjanna, að óska eftir formlegum fríverslunarviðræðum við Bandaríkin. Þá hafa Bandaríkin ítrekað gefið til kynna í samskiptum sínum við íslensk stjórnvöld, að í ljósi takmarkaðra viðskiptahagsmuna hafi þau ekki áhuga á tvíhliða viðskiptasamningi við Ísland.

Afstaða Bandaríkjanna varðandi markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur sem og núgildandi fríverslunarsamningar Íslands við Kanada og Mexíkó gera það að verkum að ólíklegt er að íslensk stjórnvöld komi til með að sækja um aðild að NAFTA. Hugmyndir um fríverslunarsamning við Bandaríkin skjóta hins vegar reglulega upp kolli, nú síðast vegna fyrirhugaðs fríverslunarsamnings milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Enn er þó alls óvíst hvort EFTA-ríkin, Ísland þar með talið, fái einhvers konar aðkomu að viðræðum ESB og Bandaríkjanna.

Heimildir og myndir:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela