Spurning

Af hverju gerir Ísland ekki fríverslunarsamning við Bandaríkin?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Tvær ástæður eru fyrir því að Ísland hefur ekki gert fríverslunarsamning við Bandaríkin. Í fyrsta lagi gera skýrar kröfur Bandaríkjamanna um niðurfellingu tolla af landbúnaðarafurðum, það að verkum að erfitt yrði að ná samningum sem samræmdust stefnu íslenskra stjórnvalda í landbúnaðarmálum. Í öðru lagi hafa Bandaríkin ítrekað gefið til kynna í samskiptum við íslensk stjórnvöld, að í ljósi takmarkaðra viðskiptahagsmuna hafi þau ekki áhuga á gerð tvíhliða samnings við Ísland.

***

Á undanförnum árum hefur möguleikinn á fríverslunarsamningi við Bandaríkin verið vandlega kannaður, bæði á vettvangi EFTA og tvíhliða milli Íslands og Bandaríkjanna. Tvær ástæður ráða mestu um það hvers vegna ekki hafa verið hafnar fríverslunarviðræður við Bandaríkin. Í fyrsta lagi hafa bandarísk yfirvöld skýra afstöðu varðandi markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur við gerð fríverslunarsamninga. Fyrirséð er að krafa Bandaríkjamanna um niðurfellingu tolla af landbúnaðarafurðum gerir það að verkum að erfitt yrði að ná samningi sem samræmdist stefnu íslenskra stjórnvalda í landbúnaðarmálum. Þessi afstaða Bandaríkjamanna varðandi markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur hefur einnig valdið því að EFTA-ríkin hafa ekki talið raunhæft að óska eftir formlegum fríverslunarviðræðum við Bandaríkin.


Fríverslunarviðræður Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hefjast á næstu misserum.

Í öðru lagi hafa Bandaríkin ítrekað gefið til kynna í samskiptum sínum við íslensk stjórnvöld, að í ljósi takmarkaðra viðskiptahagsmuna hafi þau ekki áhuga á tvíhliða viðskiptasamningi við Ísland. Bandaríkin líta mjög til umfangs viðskipta við mótun viðskiptasamninga og lítill markaður Íslands setur landið ekki ofarlega á lista þeirra yfir hugsanlega samningsaðila. Um langa hríð hefur það verið stefna Bandaríkjanna að leggja áherslu á að semja um viðskiptakjör við önnur ríki í fjölþjóðlegum samningum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) fremur en með gerð tvíhliða fríverslunarsamninga, líkt og Ísland hefur sóst eftir. Fríverslunarsamningur Norður-Ameríku, milli Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó, er undantekning frá þeirri stefnu en nánar er fjallað um hann í svari við spurningunni Af hverju sækir Ísland ekki um aðild að NAFTA í staðinn fyrir ESB?

Í dag bjóða Bandaríkin Íslandi sömu viðskiptakjör og öðrum aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Á fjölmargar vörur sem Ísland flytur út til Bandaríkjanna eru ekki lagðir neinir tollar. Það á meðal annars við um langflestar sjávarafurðir og nokkrar helstu landbúnaðarafurðir sem Ísland leggur áherslu á í útflutningi, svo sem lifandi hross og drykkjarvatn. Þá eru lágir tollar lagðir á útflutningsvörur líkt og frosið og ferskt lambakjöt, smjör, lýsi, reiðtygi, kaðla og vogir. Í nokkrum afmörkuðum tilvikum er 10–15% tollur lagður á vörur sem Íslendingar flytja til Bandaríkjanna svo sem á skyr, lifur, hrogn og sælgæti.

Gera má ráð fyrir því að fríverslunarsamningur við Bandaríkin, hvort sem hann yrði gerður tvíhliða eða á vettvangi EFTA, mundi leiða til betri aðgangs fyrir íslenskar vörur að Bandaríkjamarkaði en nú er. Féllist Ísland á kröfur Bandaríkjanna um gagnkvæman markaðsaðgang fyrir landbúnaðarafurðir mundi það sjálfsagt skila sér í lægra vöruverði og auknu vöruúrvali fyrir neytendur en jafnframt í aukinni samkeppni fyrir innlenda framleiðendur, sem í mörgum tilvikum yrðu ekki samkeppnishæfir. Ólíkar reglur varðandi erfðabreytt matvæli má nefna til viðbótar, sem dæmi um eitt af mörgum krefjandi úrlausnarefnum við gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin.

Vangaveltur um möguleikann á fríverslunarsamningi Íslands við Bandaríkin skjóta reglulega upp kollinum, nú síðast vegna frétta af fyrirhuguðum fríverslunarviðræðum milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, tveggja stærstu hagkerfa heims. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að munnlegt samkomulag hafi náðst á fundi Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra og Karel De Gucht, framkvæmdastjóra ESB á sviði viðskipta, um að náið samráð yrði haft við Ísland í tengslum við viðræðurnar við Bandaríkin. Samkomulagið byggist á stöðu Íslands sem umsóknarríkis. Umrætt samráð mundi að öllum líkindum fara fram á vettvangi reglulegra samskipta háttsettra embættismanna um viðskiptamál, sem komið var á fót í tengslum við aðildarviðræður Íslands við ESB. Karel De Gucht tók þó sérstaklega fram að fríverslunarsamningurinn yrði einungis á milli þessara tveggja aðila, Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Ísland mundi því ekki njóta góðs af samningnum nema sem aðildarríki Evrópusambandsins.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur12.4.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Af hverju gerir Ísland ekki fríverslunarsamning við Bandaríkin?“. Evrópuvefurinn 12.4.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=65084. (Skoðað 22.5.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela