Spurning

Er fiskurinn ekki okkar mest selda vara til útlanda og þá mikið til Evrópu?

Spyrjandi

Jón Tómas Sigurðsson

Svar

Hlutfall sjávarafurða í vöruútflutningi Íslands hefur lækkað á undanförnum árum á meðan hlutfall iðnaðarvara hefur hækkað. Árið 2011 var fjórða árið í röð þar sem meira var flutt út af iðnaðarvörum en sjávarafurðum. Útflutningsverðmæti sjávarafurða árið 2011 var 251,6 milljarður króna eða 40,6% af heildarverðmæti íslensks vöruútflutnings. 72,6% allra útfluttra sjávarafurða voru seld til EES-ríkjanna það árið. Núgildandi samningar Íslands við Evrópusambandið tryggja að miklu leyti fríverslun með sjávarafurðir en 90% útfluttra sjávarafurða frá Íslandi til ESB-ríkjanna bera enga tolla.

***

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru fluttar út vörur frá Íslandi fyrir 620,1 milljarð króna árið 2011. Útflutningsverðmæti sjávarafurða var 251,6 milljarður króna eða 40,6% af verðmæti heildarvöruútflutnings landsins. Mestur útflutningur var á botnfiski eða 22% af heildarútflutningi sjávarafurða. Útflutningur á þorski var 12,4% alls vöruflutnings en því næst komu makríll, síld, karfi og loðna. 14,4% aukning varð í útflutningi sjávarafurða milli áranna 2010 og 2011, hana má rekja til aukins útflutnings á uppsjávarfiski, einkum makríl.


Ferskur fiskur.

Þrátt fyrir þessa hækkun milli ára hefur hlutfall sjávarafurða í heildarvöruútflutningi Íslands lækkað á undanförnum árum á meðan hlutfall iðnaðarvara hefur hækkað. Árið 2011 voru iðnaðarvörur 54,1% af öllum vöruútflutningi Íslands og var þetta fjórða árið í röð sem hlutdeild iðnaðarvara var hærri en sjávarafurða. Munar þar mestu um ál og álafurðir sem voru 37,6% af heildarútflutningi árið 2011.

Evrópska efnahagssvæðið er stærsta markaðssvæðið sem Íslendingar hafa aðgang að og er Evrópusambandið einn stærsti markaðurinn fyrir sjávarfang í heiminum. Fiskneysla er mikil í Evrópu eða að meðaltali 24,5 kg á mann á ári. Árið 2011 fóru 82,7% af öllum vöruútflutningi Íslands til aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins, einkum Hollands, Þýskalands og Bretlands. Þá flutti Ísland sjávarafurðir að andvirði 181,4 milljónum króna til EES-ríkjanna, sem nemur 72,6% allra útfluttra sjávarafurða árið 2011.

Um það bil 90% af útfluttum sjávarafurðum frá Íslandi til ESB-ríkjanna bera enga tolla samkvæmt þeim skilyrðum sem samið var um í EES-samningnum. Bókun 9 við samninginn tryggir enn fremur að Ísland njóti 70% lægri tolla en fullur tollur kveður á um á ýmsar tilgreindar vörur. Bókunin er í eðli sínu tvíþætt en hún felur annars vegar í sér ákvæði um afnám tolla af innflutningi mikilvægustu afurða Íslands til ESB og hins vegar tollalækkanir sem ná til flestra annarra sjávarafurða sem fluttar eru út frá Íslandi. Sökum þessa bera aðeins um 2% af þeim íslensku sjávarafurðum sem fluttar eru til Evrópusambandsins fulla tolla. Ítarlegri umfjöllun um fríverslun með sjávarafurðir milli Íslands og ESB er að finna í svari við spurningunni Hvaða áhrif mundi innganga Íslands í ESB hafa á frelsi í viðskiptum með íslenskar sjávarafurðir?

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur25.1.2013

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Er fiskurinn ekki okkar mest selda vara til útlanda og þá mikið til Evrópu?“. Evrópuvefurinn 25.1.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63808. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela