Spurning

Af hverju gerði Ísland fríverslunarsamning við Kína og um hvað snýst samningurinn?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Ísland hefur lengi sóst eftir fríverslunarsamningi við Kína til að afnema viðskiptahindranir milli ríkjanna og bæta aðgang íslenskra fyrirtækja að kínverskum markaði. Við gildistöku samningsins falla niður tollar af mikilvægustu útflutningsvörum Íslendinga til Kína og sömuleiðis af öllum innfluttum vörum frá Kína, að undanskildum ákveðnum landbúnaðarafurðum. Alþýðusamband Íslands hefur harðlega mótmælt fríverslunarsamningnum vegna bágrar stöðu mannréttindamála í Kína en íslensk stjórnvöld hafa svarað því að samningurinn tryggi Íslandi og Kína vettvang til að ræða slík málefni.

***

Megintilgangur fríverslunarsamninga er að afnema viðskiptahindranir svo sem tolla og magntakmarkanir á varningi og stuðla þannig að auknum viðskiptum milli ríkja. Ísland hefur lengi lagt áherslu á að gera fríverslunarsamning við Kína sökum stærðar kínverska markaðarins. Landið er fjölmennasta ríki heims og er áætlað að Kínverjar af millistétt séu nú um 300 milljónir sem er meira en íbúafjöldi Bandaríkjanna. Samkvæmt spá Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) mun Kína hafa mestan hagvöxt allra helstu iðnvelda heims fram til ársins 2020 og leysa bandaríska hagkerfið af sem stærsta hagkerfi heims árið 2017. Á heimasíðu utanríkisráðuneytisins kemur fram að mörg lönd hafi því áhuga á viðskiptum við Kína og að Ísland eigi í harðri samkeppni við önnur ríki um útflutning þangað. Gildistaka fríverslunarsamningsins sé liður í því að trygga alþjóðlega samkeppnisstöðu Íslands en Ísland er fyrsta Evrópuríkið til að ljúka gerð fríverslunarsamnings við Kína.


Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Gao Hucheng, utanríkisviðskiptaráðherra Kína.

Samningurinn er í meginatriðum byggður upp að fyrirmynd þeirra fríverslunarsamninga sem Ísland hefur nú þegar gert á vettvangi EFTA-samstarfsins. Hann inniheldur kafla um vöru- og þjónustuviðskipti, upprunareglur, fjárfestingar, hugverkavernd, samkeppnismál, samvinnu á ýmsum sviðum, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Þá er einnig að finna í samningnum ýmis ákvæði um önnur mál líkt og tæknilegar reglur, ráðstafanir um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna, verndarráðstafanir og undirboð svo eitthvað sé nefnt.

Við gildistöku fríverslunarsamningsins falla niður tollar á nokkrum af mikilvægustu útflutningsvörum Íslendinga en tollar á þessum vörum hafa til þessa verið á bilinu 10-17%. Í sumum tilvikum falla tollarnir niður í áföngum á næstu fimm til tíu árum. Sjávarafurðir hafa að jafnaði verið 90% af útflutningi Íslands til Kína, mest karfi og grálúða en einnig hefur þónokkuð verið flutt út af loðnu, rækju, skelfiski og botnfiski. Þá hefur Ísland einnig flutt út iðnvörur eins og rafeindavogir og kísiljárn. Íslenskar landbúnaðarafurðir hafa lítið sem ekkert verið fluttar út á kínverskan markað. Þó hefur á síðustu árum hafist útflutningur á sauðfjárafurðum í litlum mæli.

Samkvæmt samningnum mun Ísland fella niður tolla á öllum innfluttum vörum frá Kína að undanskildum ákveðnum landbúnaðarafurðum, einkum kjötvörum og mjólkurafurðum. Þá falla til dæmis niður tollar á grænmeti og kornvöru. Ísland flytur inn mikið af unnum vörum frá Kína á borð við húsgögn, fatnað og skó, vélar og samgöngutæki til dæmis tölvur, rafeinda- og fjarskiptabúnað. Einnig flytur Ísland inn margvíslegar framleiðsluvörur til dæmis járn og málm ásamt ólífrænum kemískum efnum til efnaiðnaðar. Í vöruviðskiptum Íslands og Kína flytur Ísland töluvert meira af vörum inn til landsins en fluttar eru út.

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur harðlega mótmælt fríverslunarsamningnum vegna þess að kínversk stjórnvöld viðurkenni ekki mannréttindi og hafi áratugum saman hunsað grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Sökum þessa sé launafólki í Kína meinað að stofna frjáls stéttarfélög til að standa vörð um hagsmuni sína og kjör. Þá óttast Alþýðusambandið að samningurinn geti þvingað niður launakjör á Íslandi og mögulega orðið þess valdandi að íslensk fyrirtæki flytji framleiðslu sína til Kína og selji hana síðan bæði hér og annars staðar undir íslenskum merkjum. Íslensk stjórnvöld hafa svarað gagnrýni ASÍ með því að benda á að í tilefni af undirritun fríverslunarsamningsins hafi forsætisráðherrar Íslands og Kína einnig undirritað sérstaka sameiginlega yfirlýsingu um reglubundið pólitískt samráð sem taki meðal annars til mannréttinda. Yfirlýsingin eigi að skapa vettvang til að ræða þau mál sem stjórnvöld ríkjanna telji mikilvæg.

Fríverslunarsamningur Íslands og Kína var undirritaður 15. apríl síðastliðinn en viðræður höfðu staðið yfir með hléum frá árinu 2007. Samningurinn tekur gildi að fengnu samþykki Alþingis en gera má ráð fyrir að tillaga þess efnis verði lögð fyrir nýtt Alþingi á komandi hausti. Samkvæmt ákvæðum fríverslunarsamningsins tekur hann gildi 60 dögum eftir að Ísland og Kína hafa skipst á skriflegum tilkynningum um að allri nauðsynlegri málsmeðferð hafi verið lokið innanlands.

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela