Spurning

Alþjóðavinnumálastofnunin

Spyrjandi

Evrópuvefur

Svar

Alþjóðavinnumálastofnunin (e. International Labour Organization, ILO) var stofnuð árið 1919 á grundvelli Versalasamningsins sem batt enda á fyrri heimsstyrjöldina. Stofnuninni var komið á fót til að vinna að auknu félagslegu réttlæti og standa vörð um grundvallarréttindi launafólks um heim allan. Frá árinu 1945 hefur Alþjóðavinnumálastofnunin verið ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Það ár gerðist Ísland einnig aðili að stofnuninni en í dag eru aðildarríki hennar 185 talsins.

Helstu markmið Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eru að efla réttindi á vinnustað, hvetja til sæmandi atvinnutækifæra, auka félagslega vernd og vera vettvangur umræðu um vinnumál. Stofnunin beinir samþykktum og tilmælum til aðildarríkjanna um að virða alþjóðleg viðmið um grundvallarréttindi við vinnu, til að mynda réttinn til að gera kjarasamninga, afnám nauðungarvinnu, takmörkun barnavinnu svo eitthvað sé nefnt.

Átta samþykktir hafa verið skilgreindar sem grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þær eru:

Alþjóðavinnumálastofnunin leggur höfuðáherslu á að gætt sé að hinu þríhliða samráði, það er að fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks aðildarríkjanna leggi sitt af mörkum og beiti sér til að hafa stefnumótandi áhrif á ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi stofnunarinnar.

Stofnunin samanstendur af Alþjóðavinnumálaþingi, stjórnarnefnd og skrifstofu:

Alþjóðavinnumálaþingið kemur saman einu sinni á ári í Genf í Sviss. Það hefur það hlutverk að gera stefnumótunaráætlanir, samþykkja fjárhagsáætlun og kjósa í stjórnarnefnd stofnunarinnar. Þingið afgreiðir samþykktir og tilmæli sem ber að kynna í aðildarríkjunum og fjallar um framkvæmd aðildarríkjanna á samþykktum og tilmælum sem þegar hafa öðlast gildi. Aðildarríkin senda til þingsins sendinefnd fjögurra fulltrúa hið minnsta: tvo fulltrúa á vegum hlutaðeigandi ríkisstjórnar, einn fulltrúa frá samtökum atvinnurekenda og einn fulltrúa frá samtökum launafólks.

Stjórnarnefndin kemur saman þrisvar á ári í Genf. Hún leggur drög að stefnu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ákveður dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins, samþykkir drög að fjárhagsáætlun stofnunarinnar og kýs forstjóra hennar til fimm ára í senn. Stjórnarnefndin samanstendur af 56 fulltrúum, þar af eru 28 ríkisstjórnarfulltrúar, 14 fulltrúar launafólks og 14 fulltrúar atvinnurekenda. 10 ríkisstjórnarfulltrúanna eru tilnefndir af ríkisstjórnum helstu iðnríkja heims - það er Bandaríkjanna, Brasilíu, Bretlands, Frakklands, Indlands, Ítalíu, Japan, Kína, Rússlands og Þýskalands. Hinir 18 eru kjörnir af fulltrúum ríkisstjórna aðildarríkjanna þegar Alþjóðavinnumálaþingið kemur saman.

Skrifstofan heldur utan um alla starfsemi stofnunarinnar. Hún starfar í þágu stjórnarnefndarinnar og lýtur stjórn forstjórans. Núverandi forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er Guy Ryder frá Englandi. Um það bil 2.700 einstaklingar starfa fyrir skrifstofuna. Meirihluti þeirra starfar í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Genf en auk þess starfar hluti þeirra hjá svæðisbundnum skrifstofum sem staðsettar eru víðsvegar um heiminn.

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur19.3.2013

Tilvísun

Evrópuvefur. „Alþjóðavinnumálastofnunin“. Evrópuvefurinn 19.3.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64749. (Skoðað 6.10.2024).

Höfundur

Evrópuvefur

Við þetta svar er engin athugasemd Fela