Spurning
Alþjóðavinnumálastofnunin
Spyrjandi
Evrópuvefur
Svar
Alþjóðavinnumálastofnunin (e. International Labour Organization, ILO) var stofnuð árið 1919 á grundvelli Versalasamningsins sem batt enda á fyrri heimsstyrjöldina. Stofnuninni var komið á fót til að vinna að auknu félagslegu réttlæti og standa vörð um grundvallarréttindi launafólks um heim allan. Frá árinu 1945 hefur Alþjóðavinnumálastofnunin verið ein af sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Það ár gerðist Ísland einnig aðili að stofnuninni en í dag eru aðildarríki hennar 185 talsins. Helstu markmið Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eru að efla réttindi á vinnustað, hvetja til sæmandi atvinnutækifæra, auka félagslega vernd og vera vettvangur umræðu um vinnumál. Stofnunin beinir samþykktum og tilmælum til aðildarríkjanna um að virða alþjóðleg viðmið um grundvallarréttindi við vinnu, til að mynda réttinn til að gera kjarasamninga, afnám nauðungarvinnu, takmörkun barnavinnu svo eitthvað sé nefnt. Átta samþykktir hafa verið skilgreindar sem grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þær eru:- Samþykkt nr. 29 um nauðungarvinnu eða skylduvinnu.
- Samþykkt nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess.
- Samþykkt nr. 98 um beitingu grundvallarreglnanna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega.
- Samþykkt nr. 100 um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf.
- Samþykkt nr. 105 um afnám nauðungarvinnu.
- Samþykkt nr. 111 um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs.
- Samþykkt nr. 138 um lágmarksaldur við vinnu.
- Samþykkt nr. 182 um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur19.3.2013
Flokkun:
Efnisorð
Alþjóðavinnumálastofnunin Genf Sviss Versalasamningurinn Sameinuðu þjóðirnar samþykktir tilmæli Alþjóðavinnumálaþingið stjórnarnefnd skrifstofa atvinnurekendur launafólk Ísland
Tilvísun
Evrópuvefur. „Alþjóðavinnumálastofnunin“. Evrópuvefurinn 19.3.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=64749. (Skoðað 6.10.2024).
Höfundur
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
Við þetta svar er engin athugasemd
Fela