Spurning

Mætti fólk yngra en 18 ára vinna ef við göngum í ESB?

Spyrjandi

Kata Magdalena

Svar

Já, einstaklingar yngri en 18 ára mættu vinna ef Ísland gengi í Evrópusambandið. Sem aðili að EES-samningnum hefur Ísland þegar tekið upp í íslenskan rétt afleiddar gerðir Evrópusambandsins á sviði vinnumála, þeirra á meðal tilskipun sambandsins um vinnuvernd ungmenna. Í henni eru gerðar lágmarkskröfur til aðildarríkjanna varðandi vinnuvernd ungmenna undir 18 ára aldri. Aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi því ekki breyta núgildandi íslenskum reglum um vinnufyrirkomulag íslenskra ungmenna.

***

Með tilskipun Evrópusambandsins um vinnuvernd ungmenna (94/33/EB) voru lög og reglur aðildarríkja sambandsins varðandi vinnu barna og unglinga undir 18 ára aldri samræmdar. Meirihluti aðildarríkja Evrópusambandsins hafði þegar fullgilt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (nr. 138) um lágmarksaldur við vinnu og var hún höfð til hliðsjónar við gerð tilskipunarinnar. Talið var að markmiðum hennar yrði því auðveldlega náð.


Ungmenni við störf í Vinnuskóla Reykjanesbæjar sumarið 2011. Hefð er fyrir því á Íslandi að ungmenni byrji snemma að afla sér fjár.

Eins og fjallað er um í svörum við spurningunum Hvað breytist varðandi réttindi á vinnumarkaði með inngöngu í ESB? og Hvernig mundi vinnumarkaðurinn á Íslandi breytast ef við göngum í ESB? heyra félags- og atvinnumál undir EES-samninginn og hefur Ísland því að mestu tekið upp regluverk Evrópusambandsins sem snýr að réttindum á vinnumarkaði. Tilskipun ESB um vinnuvernd ungmenna var felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar árið 1996 (nr. 43/96). Ákvæði hennar eru leidd í lög á Íslandi með lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (nr. 46/1980), með síðari breytingum, og með nánari útfærslu í reglugerð um vinnu barna og unglinga (nr. 426/1999).

Samkvæmt tilskipuninni ber öllum aðildarríkjum að tryggja að ungmenni, sem eru enn á skólaskyldualdri samkvæmt landslögum, séu ekki ráðin til vinnu. Skólaskyldualdur er breytilegur eftir ríkjum en hann miðast yfirleitt við 15 eða 16 ára aldur. Tilskipunin gengur því út frá því að börn á skólaskyldualdri eigi ekki að stunda launaða vinnu. Henni fylgja þó undanþágur sem gera börnum kleift að afla sér fjár að ákveðnum skilyrðum uppfylltum en aðildarríkin eiga fyrst og fremst að sjá til þess að fylgst sé náið með vinnu barna á aldrinum 13-14 ára og unglinga á aldrinum 15-17 ára.

Í tilskipuninni eru almennar skyldur vinnuveitenda skilgreindar og þeim gert að vernda og fylgjast með heilsu og öryggi ungmenna í hvívetna. Hún útlistar þær tegundir starfa sem ungmennum er bannað að gegna; einkum störf sem eru sannanlega ofvaxin líkamlegri eða andlegri getu þeirra eða störf sem gætu stofnað heilsu þeirra í hættu. Tilskipunin kveður einnig á um hámarksvinnutíma barna og unglinga, lágmarkshvíldartíma og leggur á bann við næturvinnu.

Ýmsar undanþágur eru veittar börnum yngri en 15 ára, eða börnum sem enn sinna skyldunámi. Hvert og eitt ríki getur til að mynda, með lögum eða stjórnsýslufyrirmælum, ákveðið að bann við vinnu barna gildi ekki um:

  • Börn sem taka þátt í menningar-, íþrótta- eða auglýsingastarfsemi eða listviðburðum og eru ekki líkleg til að hafa skaðleg áhrif á öryggi, heilsu eða þroska barna né þess eðlis að þau komi niður á skólagöngu þeirra. Afla þarf leyfis frá vinnueftirliti viðkomandi ríkis áður en til ráðningar barns kemur. (a) liður 2. mgr. 4. gr.)
  • Börn sem hafa náð 14 ára aldri og stunda vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi. (b) liður 2. mgr. 4. gr.)
  • Börn sem eru 14 ára eða eldri og vinna við störf sem skilgreind eru af léttara tagi og börn sem hafa náð 13 ára aldri og eru ráðin til slíkra starfa í takmarkaðan stundafjölda á viku þegar um ákveðna verkefnaflokka, sem eru tilteknir í landslögum, er að ræða. (c) liður 2. mgr. 4. gr.)

Á Íslandi er rótgróin hefð fyrir því að ungmenni byrji snemma að vinna. Í reglugerð um vinnu barna og unglinga er að finna lista yfir þau störf sem talin eru af léttara tagi sem 13 ára og eldri mega vinna (sjá viðauka 4). Slík störf eru ekki talin hafa skaðleg áhrif á heilsu, þroska og öryggi barna né koma í veg fyrir skólagöngu þeirra. Meðal þeirra er vinna í skólagörðum undir umsjón kennara, létt uppskerustörf án véla, vinna við blóm og grænmeti, létt fiskvinnslustörf án véla, létt störf í sérverslunum og stórmörkuðum en þó ekki vinna við greiðslukassa, létt sendisveina- og skrifstofustörf, og svo framvegis.

Ítarlegri upplýsingar varðandi reglur um vinnu íslenskra ungmenna er hægt að nálgast á heimasíðu Umboðsmanns barna og á heimasíðu Vinnueftirlitsins.

Heimildir og mynd:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela