Spurning

Breytast reglur um vaxtabætur og barnabætur ef við göngum í ESB?

Spyrjandi

Inga S. Ingvarsdóttir

Svar

Nei, aðild að Evrópusambandinu hefur engin áhrif á íslenskar reglur um vaxta- og barnabætur. Breytingar á reglum um vaxtabætur og barnabætur yrðu eftir sem áður í höndum stjórnvalda á Íslandi.

***

Vaxtabætur og barnabætur eru bætur greiddar af ríkinu til einstaklinga, sem eru skattskyldir á Íslandi, á grundvelli VI. kafla tekjuskattslaga (nr. 90/2003) um tekjuskattsútreikning, afslætti og barnabætur. Engar núgildandi tilskipanir eða reglugerðir Evrópusambandsins um skattamál hafa áhrif á rétt ESB-ríkja til úthlutunar slíkra bóta; þeim er í sjálfsvald sett hvort og þá hvernig þau standa að slíkri úthlutun. Að sjálfsögðu þurfa stjórnvöld þó að taka tillit til meginreglna sambandsins svo sem um bann við mismunun á grundvelli ríkisfangs.

Forræði í skattamálum er að langmestu leyti hjá aðildarríkjum Evrópusambandsins sjálfum. Nokkur samræming hefur átt sér stað meðal aðildarríkjanna á sviði óbeinna skatta, svo sem virðisaukaskatts, en valdheimildir á sviði beinna skatta, til að mynda tekjuskatts, eru nær alfarið í höndum stjórnvalda í aðildarríkjunum. Undantekningin frá því varðar fyrst og fremst skattlagningu fyrirtækja og reglur um upplýsingaskipti milli stjórnvalda ESB-ríkja á sviði beinna skatta. Nánar er fjallað um skattastefnu Evrópusambandsins í svari við spurningunni Er samræmd stefna í skattamálum innan ESB?


Börn að leik.

Evrópusambandið hefur þar að auki takmarkaðar valdheimildir á sviði félagsmála, og engar á sviði fjölskyldumála, en barnabætur og vaxtabætur eru í raun verkfæri stjórnvalda til að koma félagsmálastefnu sinni í framkvæmd.

Á Íslandi eiga þeir rétt til barnabóta sem eru skattskyldir hér á landi og hafa á sínu framfæri börn sem eru yngri en 18 ára. Bæturnar eru tekjutengdar og ákvarðaðar samkvæmt skattframtali. Þær eru reiknaðar í fyrsta skipti vegna barns í álagningu árið eftir að það fæðist og í síðasta skipti í álagningu á því ári sem það nær 18 ára aldri. Bæturnar skiptast í fjórar greiðslur yfir árið.

Fjárhæð barnabóta skerðist um þær barnabætur eða hliðstæðar bætur sem framfærandi hefur fengið erlendis frá á sama tekjuári vegna barnsins, en barnabætur eru til í einhverri mynd í flestum ef ekki öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins (sjá samanburð á barnabótum ESB-ríkjanna 15 frá árinu 2003).

Þeir sem greiða vaxtagjöld af lánum vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota geta átt rétt á vaxtabótum og sama á við um þá sem keypt hafa búseturétt eða eignarhlut í kaupleiguíbúð. Bæturnar ákvarðast samkvæmt upplýsingum á skattframtali og til að fá vaxtabætur þarf að gera sundurliðaða grein fyrir lánum og vaxtagjöldum. Þær eru hugsaðar til að auðvelda fólki að eignast íbúðarhúsnæði.

Vaxtabætur eru til í einhverjum löndum Evrópusambandsins, að minnsta kosti á Írlandi og í Lúxemborg, en virðast þó ekki jafn algengar í löndum sambandsins og barnabætur.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 1.2.2013

Flokkun:

Evrópumál > ýmislegt

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Breytast reglur um vaxtabætur og barnabætur ef við göngum í ESB?“. Evrópuvefurinn 1.2.2013. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63941. (Skoðað 14.9.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela