Spurning

Ef Ísland yrði hluti af ESB yrðu íslensk stjórnvöld þá neydd til að lækka virðisaukaskatt svo að íslensk verslun stæðist samkeppni frá öðrum Evrópuríkjum?

Spyrjandi

Sæmundur E. Þorsteinsson

Svar

Engar reglur eru til í Evrópusambandinu sem kveða á um hámarkshlutfall virðisaukaskatts (VSK). Íslenskum stjórnvöldum yrði því ekki gert að lækka hlutfall innlends virðisaukaskatts við aðild að Evrópusambandinu. Töluverð samræming hefur þó átt sér stað milli aðildarríkja ESB á sviði virðisaukaskatts, meðal annars hafa verið settar reglur um lágmarkshlutfall VSK og skiptingu í þrep. — Að svo miklu leyti sem virðisaukaskattur hefur áhrif á samkeppnishæfni íslenskrar verslunar og þjónustu má ljóst vera að hagsmunaaðilar hefðu hag af lækkun virðisaukaskatts óháð aðild að ESB. Þrýstingur á stjórnvöld, um lækkun virðisaukaskatts af samkeppnisástæðum, er því ekki líklegur til að aukast sérstaklega í tenglsum við hugsanlega aðild Íslans að ESB.

***

Virðisaukaskattur telst til svonefndra óbeinna skatta sem þýðir að kaupendur vöru og þjónustu greiða skattinn ekki beint í ríkissjóð, eins og til dæmis tekjuskatt, heldur óbeint með neyslu sinni - því meira sem verslað er þeim mun hærri virðisaukaskatt greiða kaupendurnir. Seljendur vöru og þjónustu innheimta skattinn og standa skil á honum í ríkissjóð. Hann er einn stærsti tekjustofn ríkisins.

Virðisaukaskattshlutfallið í aðildarríkjum ESB er mishátt, eða á bilinu 15-27%, eins og sjá má í töflunni hér að neðan. Algengur misskilningur er að í Evrópusambandinu séu reglur um 25% hámarkshlutfall virðisaukaskatts en svo er ekki. Tillaga um hámarkshlutfall var á sínum tíma lögð fram af framkvæmdastjórninni en hún fékkst ekki samþykkt. Þannig tilkynntu ungversk stjórnvöld nýverið að þau hyggðust hækka hlutfall almenns virðisaukaskatts úr 25% í 27%, sem hluta af aðgerðaáætlun til að draga úr fjárlagahalla ríkisins. Samtímis var tilkynnt að lagður yrði allt að 35% virðisaukaskattur á munaðarvörur.


Aðildarríki Evrópusambandsins fara sjálf með valdheimildir í skattamálum og því hefur almennt lítil samræming átt sér stað á því sviði innan sambandsins. Nánar má lesa um samræmingu í skattamálum í svari við spurningunni Er samræmd stefna í skattamálum innan ESB? Mest samræming hefur átt sér stað á sviði virðisaukaskatts þar sem mótuð hefur verið sameiginleg rammalöggjöf. Í tilskipun (nr. 112/2006/EC) um sameiginlegt virðisaukaskattskerfi er meðal annars að finna reglur um lágmarkshlutföll virðisaukaskatts, skattskyldusvið, skattaverð, endurgreiðslur, skráningu, innheimtu og eftirlit svo eitthvað sé nefnt.

Í 97. grein tilskipunarinnar er mælt fyrir um að lágmarkshlutfall almenns virðisaukaskatts á vörum og þjónustu skuli vera 15%. Þar að auki er aðildarríkjunum heimilt að hafa eitt eða tvö lægri þrep virðisaukaskatts sem ekki mega vera lægri en 5%. Lægra skatthlutfallið má einungis leggja á tilteknar vörur eða þjónustu sem taldar eru upp í viðauka við tilskipunina.

Íslenska virðisaukaskattskerfið er nokkuð líkt því sem notað er í aðildarríkjum ESB. Almennur virðisaukaskattur á Íslandi er 25,5%, sem er annað hæsta hlutfallið samanborið við ESB-ríkin, og lægra þrep virðisaukaskattsins er 7%. Hvort tveggja samræmist því reglum ESB. Það sem er undanþegið virðisaukaskatti á Íslandi er hins vegar í einhverjum tilvikum annað og fleira en það sem leyfilegt er að undanþiggja virðisaukaskatti samkvæmt reglum ESB. Sem dæmi má nefna fólksflutninga, þjónustu ferðaskrifstofa, íþróttastarfsemi og útfararþjónustu. Hið sama er uppi á teningnum varðandi lægra virðisaukaskattsþrepið (7%). Þær vörur og þjónusta sem skulu vera í almennu þrepi samkvæmt tilskipun ESB en flokkast í lægra skattþrep á Íslandi eru bækur, blöð, tímarit, geisladiskar, húshitunarkostnaður og aðgangur að vegamannvirkjum.

ESB-ríkin og Ísland Virðisaukaskattur
Lúxemborg 15%
Kýpur 17%
Spánn og Malta 18%
Þýskaland og Holland 19%
Frakkland 19,6%
Austurríki, Bretland, Búlgaría, Eistland, Slóvakía, Slóvenía og Tékkland 20%
Belgía, Ítalía, Lettland og Litháhen 21%
Finnland, Grikkaland, Írland, Portúgal og Pólland 23%
Rúmenía 24%
Danmörk og Svíþjóð 25%
Ísland 25,5%
Ungverjaland 27%

Í rýniskýrslu samninganefndar Íslands um skattamál vegna aðildarviðræðna Íslands og ESB kemur fram að sérstaklega muni þurfa að semja um ofangreinda þætti. Fyrir liggur að aðildarríki ESB hafa í gegnum tíðina fengið ýmsar undanþágur frá meginreglum ESB um virðisaukaskatt. Til að mynda er útfararþjónusta undanþegin virðisaukaskatti í Danmörku.

Í skýrslunni kemur einnig fram að ef til aðildar kæmi mundi það hafa veruleg áhrif á íslenska virðisaukaskattkerfið þótt íslensk lög um virðisaukaskatt byggi í stórum dráttum á svipuðum sjónarmiðum og evrópska regluverkið. Bæði þyrfti að breyta lagaumhverfinu að verulegu leyti og ekki síður rafræna umhverfinu, með tilheyrandi uppbyggingu nýrra upplýsingakerfa. Þessar breytingar mundu kalla á undirbúning fyrir íslensk fyrirtæki með óhjákvæmilegum kostnaði. Einnig gætu endurgreiðslur á virðisaukaskatti breyst, meðal annars til sveitarfélaga, en íslenskar reglur þessa efnis virðast vera víðtækari en regluverk ESB.

Kostnaður íslenska ríkisins og fyrirtækja hér á landi vegna breytinga á virðisaukaskattkerfinu gæti mögulega skilað sér til baka með aðgengi að stærra viðskiptasvæði án hindrana og jafnari samkeppnisstöðu gagnvart okkar helstu viðskiptalöndum. Fjárhagsleg áhrif á íslenskt efnahagslíf liggja hins vegar ekki fyrir og því er ekki hægt að fullyrða um endanleg kostnaðaráhrif.

Virðisaukaskatthlutfallið hefur takmörkuð áhrif á samkeppnishæfni íslenskrar verslunar og þjónustu við útlönd. Í ferðaþjónustu má færa rök fyrir að svo sé, það er að segja að hátt hlutfall virðisaukaskatts og áhrif þess á verðlag geti haft áhrif á val erlendra ferðamanna á því landi sem þeir ferðast til. Í dagvörusölu er staðan önnur þar sem íslenskir kaupmenn eru ekki í beinni samkeppni við erlenda kaupmenn, enda eiga neytendur á Íslandi ekki val um það í hvaða landi þeir versla í matinn. Að svo miklu leyti sem virðisaukaskattur hefur áhrif á samkeppnishæfni íslenskrar verslunar og þjónustu er hins vegar ljóst að hagur hagsmunaaðila af lækkun er til staðar nú þegar, án aðildar að ESB. Ekkert bendir til þess að þrýstingur hagsmunaaðila á lækkun virðisaukaskatts mundi breytast við inngöngu í ESB.

Sá möguleiki er því allt eins fyrir hendi að íslensk stjórnvöld mundu hækka virðisaukaskatthlutfallið við aðild að ESB, til að bæta sér upp það tekjutap sem niðurfelling tolla af innfluttum vörum frá ESB fæli í sér. Ljóst er að miðað við núgildandi reglur Evrópusambandsins yrði ákvörðun um hækkun innlends virðisaukaskatthlutfalls áfram í höndum íslenskra stjórnvalda.

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur19.10.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Ef Ísland yrði hluti af ESB yrðu íslensk stjórnvöld þá neydd til að lækka virðisaukaskatt svo að íslensk verslun stæðist samkeppni frá öðrum Evrópuríkjum?“. Evrópuvefurinn 19.10.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63362. (Skoðað 21.5.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Við þetta svar eru 2 athugasemdir Fela athugasemdir

Sæmundur E Þorsteinsson 23.10.2012

Þakka mjög greinargott svar og ítarlegt. Lúxemborg hefur lægsta virðisaukaskattinn í ESB samkvæmt svarinu. Er þá ekki einboðið að póstverslanir ESB hópist þangað? Mér skilst að Amazon.de sé þar.

Þórhildur Hagalín 30.10.2012

Sæll Sæmundur.

Það er rétt að Amazon.de er skráð í Lúxemborg. Það er þó varla vegna þess að virðisaukaskattstigið er lægst þar í landi. Reglur um virðisaukaskattsinnheimtu af póstverslun í Evrópusambandinu er með þeim hætti að þegar heildarsala fjarsöluaðila til allra viðskiptavina tiltekins ríkis fer upp yfir ákveðinn þröskuld (ýmist 35.000 eða 100.000 evrur) þurfa söluaðilar að leggja á virðisaukaskattshlutfall heimalands kaupandans en ekki hlutfall sölulandsins. Nánar er fjallað um þetta í svari við spurningunni Hvað mundi breytast við aðild að Evrópusambandinu varðandi póstverslun?