Spurning

Ef Ísland gengur í ESB og tekur upp evru verða þá verð á fatnaði nákvæmlega þau sömu hér og í öðrum evruríkjum?

Spyrjandi

Sigurður Örn Pétursson, Elísa Líf Ingvarsdóttir

Svar

Stutta svarið er varla. Þótt ekki sé útilokað að verð á fatnaði yrðu í einhverjum tilfellum þau sömu hér og á meginlandi Evrópu, ef Ísland gengi í Evrópusambandið og tæki upp evru, yrði það frekar undantekning en regla. Aðild að Evrópusambandinu og myntbandalagi Evrópu gæti haft margvísleg áhrif á efnahag landsins. Hún mundi þó hvorki breyta því að Ísland er eyja í tæplega 2000 kílómetra fjarlægð frá meginlandi Evrópu né þeim sérstöku markaðsaðstæðum sem fámennið á Íslandi veldur, svo aðeins tveir þeirra mörgu þátta sem hafa áhrif á verðlagningu vara í smásölu séu nefndir.

***

Verðmyndun vara á smásölumarkaði ræðst af margvíslegum staðbundnum þáttum svo sem launastigi, stærð markaðar, samkeppnisaðstæðum, hagstjórn og löggjöf. Fyrir framleiðslukostnað vara geta þættir eins og aðgangur að náttúruauðlindum einnig haft áhrif en fyrir verðmyndum innfluttra vara skiptir flutningskostnaður, svo sem verð á olíu, sköpum.

Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru hefur ekki áhrif á nema brot af þessum þáttum. Þar ber helst að nefna tollalöggjöfina en aðild að ESB þýðir einnig aðild að tollabandalagi Evrópusambandsins, sem felur í sér niðurfellingu tolla milli aðildarríkjanna og upptöku sameiginlegra tolla gagnvart þriðju ríkjum. Í tilviki Íslands hefði aðild að tollabandalagi ESB ekki jafn víðtæk áhrif og ætla mætti því tollar hafa þegar verið afnumdir að mestu í viðskiptum við aðildarríki ESB með EES-samningnum. Sú niðurfelling nær þó aðeins til vara sem upprunnar eru í aðildarríkjum sambandsins en ekki vara sem framleiddar eru í þriðju ríkjum en keyptar til Íslands í gegnum Evrópu, eins og oft er raunin með fatnað. Tollar af slíkum vörum mundu falla niður með aðild að Evrópusambandinu og gætu þær lækkað í verði sem því nemur.

Flestir aðrir áhrifaþættir verðmyndunar eru hins vegar ólíkir milli ríkja jafnvel þótt þau noti sama gjaldmiðilinn. Flutningskostnaður, launastig og virðisaukaskattur eru þrjú augljós dæmi í þessu samhengi.


Samanburður á verðum í nokkrum evruríkjum. Vörur og lönd voru valin af handahófi. Verð eru gefin upp í evrum. Rauðar tölur eru hæstu verð og grænar tölur lægstu verð. Smellið á töfluna til að sjá hana alla.

Í töflunni hér að ofan má sjá samanburð á verði nokkurra vara í ólíkum evrulöndum en bæði vörur og lönd voru valin af handahófi. Niðurstöðurnar eru forvitnilegar. Í fyrsta lagi sýna þær að það er misjafnt eftir verslunum hvort munur sé á verði eftir löndum. Þannig var til dæmis enginn verðmunur milli landa á vörum sænsku fataverslunarinnar H&M. Í öðru lagi sýnir taflan að ekki er skýr regla á því í hvaða löndum verðin eru hæst og lægst, fyrir utan að verð eru tiltölulega oft hæst í Finnlandi.

Þessi handahófskenndi samanburður sýnir að því fer fjarri að sameiginlegur gjaldmiðill þýði að verð í evrulöndunum séu alltaf nákvæmlega þau sömu, þótt það sé raunin hjá H&M. Þar sem ekki er til neitt samræmt "evruverð" milli landa yrði það ekki heldur raunin á Íslandi við aðild að ESB og evrunni.

Eins og áður sagði er ekki útilokað að aðild að tollabandalagi sambandsins gæti leitt til einhverra verðlækkana á fatnaði, sem upprunninn er í þriðju ríkjum en fluttur inn til Íslands í gegnum eitthvert aðildarríki ESB. Í því samhengi er þó rétt að hafa í huga að tollar reiknast af innflutningsverði vöru en ekki smásöluverði.

Heimildir:
  • Upplýsingar um verð eru fengin í vefverslunum viðkomandi verslana í löndunum sjö.

Upprunalegar spurningar:

Oft þegar ég er að skoða föt í fatabúðum, eins og Gallerí 17 eða Jack and Jones, sé ég á verðmiðunum marga mismunandi fána og verðið í evrum sem er nánast undantekningarlaust það sama. Ef Ísland tekur upp evru í framtíðinni myndi þetta verð vera nákvæmlega það sama og í öllum hinum löndunum þrátt fyrir innflutningskostnað?

Mun verða ódýrara fyrir mig að versla föt ef við göngum í ESB?
Við þetta svar er engin athugasemd Fela