Spurning

Er það satt sem sagt er að við inngöngu í ESB mundi matvælaverð að líkindum lækka um 18-25%?

Spyrjandi

Berglind Vignisdóttir

Svar

Nei, matvælaverð er ekki líklegt til að lækka svo mikið við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ef litið er til beinna áhrifa af ódýrari innflutningi búvara frá aðildarríkjum ESB, vegna niðurfellingar tolla við aðild, má gróflega áætla að búvörur gætu lækkað um á bilinu 7 til 15%. Það mundi þýða um það bil 3,5 til 6,5% heildarlækkun á matvælaverði. Þetta mat er háð mikilli óvissu eins og nánar er greint frá hér að neðan. Þá mundi innleiðing sameiginlegrar tollskrár Evrópusambandsins leiða til verðhækkunar á sumum matvælum frá þriðju ríkjum.

***

Ef Íslendingar ganga í Evrópusambandið falla niður tollar á landbúnaðarvörum frá öðrum ríkjum sambandsins. Mun ódýrara er að framleiða sumar búvörur á meginlandinu en hér og má búast við að þær lækki verulega í verði ef hægt verður að flytja þær hingað tollfrjálst. Mest lækkar verð á kjúklingum, eggjum og svínakjöti, en verð á kindakjöti og nautakjöti helst sennilega óbreytt. Aðrar matvörur lækka ekki í verði, enda leggja Íslendingar yfirleitt aðeins tolla á matvörur sem eru framleiddar hér á landi.

Miðað er við að Íslendingar gangi nú þegar í sambandið, en annað svar fengist ef það yrði á öðrum tíma. Eftir hrunið 2008 hefur almennt verðlag verið lægra hér á landi en vant er miðað við grannlöndin. Með öðrum orðum er ódýrara að kaupa inn á Íslandi miðað við grannlöndin en í meðalári. Skýringin er sú að gengi krónunnar hefur fallið mikið. Verðlag hefur líka hækkað meira hér á landi en í grannlöndunum, en ekki nóg til að vega upp fall krónunnar (oft er verðlag hér á landi miðað við önnur lönd kallað hlutfallslegt verðlag eða raungengi krónu). Þar sem almennt verðlag er óvenjulágt á Íslandi núna eru áhrif þess að fella niður tolla á búvörum minni en alla jafna. En reynslan sýnir að hlutfallslegt verðlag leitar jafnan aftur í átt að meðaltalinu á löngum tíma. Evrópusambandsaðild hefði því haft meiri áhrif á matvöruverð um aldamót en nú og hún hefur sennilega meiri áhrif eftir áratug eða svo.


Reynsla Finna og Svía af aðild að Evrópusambandinu árið 1995 var að samkeppni jókst bæði í landbúnaði og á matvörumarkaði. Í þeim tölum sem hér fylgja er ekki lagt mat á áhrifin af aukinni samkeppni á matvöruverð, heldur aðeins skoðuð bein áhrif af ódýrari innflutningi. Lauslega er stuðst við útreikninga Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Á árunum 2009 til 2011 var búvöruverð til íslenskra bænda að jafnaði um 30% hærra en í Evrópusambandinu. Gert er ráð fyrir að flutningur frá meginlandi Evrópu kosti um 5% af verði flestra búvara, en nokkru meira kosti að flytja hingað mjólk og mjólkurvörur (Daði Már Kristófersson og Erna Bjarnadóttur, 2011). Búvöruverð til bænda er um það bil 40% af verði til neytenda (Sigurður Jóhannesson og Sveinn Agnarsson, 2004) og ef gert er ráð fyrir að slátrun og dreifing sé álíka dýr hér og annars staðar í Evrópu lækkar búvöruverð til neytenda um nálægt 7% við aðild. Eiginlegar búvörur eru um það bil 45% af matvörum. Allt matvöruverð mundi því lækka um nálægt 3,5% að jafnaði. Ýmislegt bendir til þess að slátrun og dreifing sé líka dýrari á Íslandi en í grannlöndunum. Þetta stafar ekki síst af því hvað lítið er framleitt hér á landi, en stærðarhagkvæmni er mjög mikil í öllu framleiðsluferli á kjúklingum, svínakjöti og eggjum. Ef gert er ráð fyrir að slátrun og dreifing á Íslandi sé jafnóhagkvæm og framleiðslan lækkar búvöruverð um 15% að meðaltali við aðild og matarverð alls um 6,5%. Niðurstaðan er sú að búvörur lækki um 7-15% í verði og matarverð lækki að jafnaði um 3,5-6,5% ef Ísland gengur í Evrópusambandið á næstu misserum.

Verð til bænda Áhrif á útsöluverð Áhrif ef sama munar í slátrun og dreifingu
Mjólk -17% -7% -14%
Nautakjöt 0% 0% 0%
Kindakjöt 0% 0% 0%
Svínakjöt -18% -7% -15%
Kjúklingar -54% -22% -43%
Egg -48% -19% -38%
Annað -30% -12% -24%
Alls búvörur -19% -7% -15%
Matur alls -3,5% -6,5%

Heimildir: Lauslega byggt á tölum OECD, sjá Agricultural Policy Monitoring and Evaluation, 2012, útg. OECD.

Mikla fyrirvara verður að setja við þessa útreikninga. Í fyrsta lagi er ólíklegt að mikið verði flutt inn af nýmjólk og nýjum rjóma til landsins, hvað þá skyri. Af mjólkurvörum verða fyrst og fremst fluttir inn ostar, súrmjólk og jógúrt. Í öðru lagi er hér ekki gert ráð fyrir því að neysla aukist á þeim vörum sem lækka mest í verði, þá einkum kjúklingum og eggjum. Þá bendir reynsla Finna til þess að neytendur vilji greiða meira fyrir innlenda framleiðslu en erlenda, ef til vill um 10% (Daði Már Kristófersson og Erna Bjarnadóttur, 2011). Ekki er ljóst hvort heildaráhrifin af þessu öllu yrðu að verð lækki meira eða minna en hér er gert ráð fyrir.

Sem fyrr segir skiptir meginmáli hvenær gengið er í sambandið, því að almennt hlutfallslegt verðlag er mjög breytilegt. Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri áætlaði árið 2006 áhrif þess á matarverð að fella niður alla tolla af búvörum. Niðurstaða hans var að kjöt og mjólkurvörur mundu lækka um 28% og allt matarverð myndi lækka um 15,6% að jafnaði. Evrópusambandsaðild hefði haft nokkru minni áhrif á verðið en hér segir, því að áfram yrðu lagðir tollar á framleiðslu frá löndum utan sambandsins.

Í því samhengi er rétt að hafa í huga að sumar vörur kunna að hækka í verði við Evrópusambandsaðild og innleiðingu sameiginlegrar tollskrár ESB. Á meginlandi Evrópu eru framleiddar matvörur, sem ekki eru búnar til hér, og teljast ekki búvörur á Íslandi. Þær njóta því tollverndar í Evrópusambandinu. Hár tollur er til dæmis lagður á vínber sem flutt eru til sambandsins á þeim tíma sem þau eru ræktuð þar. Nú er ekki tollur á vínberjum sem flutt eru til Íslands, þannig að verð mundi hækka á vínberjum frá löndum utan sambandsins. Íslendingar leggja ekki tolla á epli, en Evrópusambandið tekur toll af eplum frá löndum utan sambandsins. Tollur er lagður á morgunverðarkorn og frystan ávaxtasafa frá löndum utan sambandsins, en Íslendingar leggja ekki toll á þessar vörur núna. Evrópusambandið leggur tíu prósenta toll á tómatsósu frá Bandaríkjunum og þannig mætti lengi telja. Þá eru margar matvörur hvorki framleiddar á Íslandi né annars staðar í Evrópu. Íslendingar leggja almennt ekki toll á grænmeti og ávexti sem ekki er ræktað hér á landi (meðal undantekninga er korn sem notað er í fóður) en Evrópusambandið leggur almennt 10,4% toll á ávexti og grænmeti sem ekki er ræktað í sambandinu.

Fátt getur komið í veg fyrir að verð lækki mikið á kjúklingum, svínakjöti og eggjum ef Ísland gengur í Evrópusambandið. Íslendingar reyna sennilega að semja um hliðargreiðslur til íslensks landbúnaðar líkt og Finnar gerðu á sínum tíma, en ekki verður séð að hægt sé að fá undanþágu frá sameiginlegum búvörumarkaði. Íslensk stjórnvöld gætu ef til vill reynt að vernda „hefðbundnar búgreinar“ fyrir samkeppni frá kjúklinga- og svínakjötsframleiðslu með því að leggja á hana vörugjöld, en óvíst er hvort reglur sambandsins leyfa það.

Heimildir og mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela