Spurning

Hvernig mun verð á nýjum bílum breytast ef Ísland verður hluti af Evrópusambandinu?

Spyrjandi

Haraldur Ólafsson

Svar

Ef Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu mun verð á bílum líklega hækka um nálægt 5% að meðaltali. Stórir bílar, jeppar og pallbílar, sem notið hafa vinsælda á Íslandi, eru einkum fluttir inn frá Asíu og Bandaríkjunum og mundu því bera 10% toll eftir aðild. Flestir litlir bílar eru hins vegar fluttir inn frá aðildarríkjum Evrópusambandsins en á viðskipti þeirra á milli eru ekki lagðir neinir tollar. Ekki er óhugsandi að evrópskir bílar gætu hækkað í verði á Íslandi frá því sem nú er í skjóli tollverndar Evrópusambandsins. Á móti því mælir hins vegar gott umhverfi til verðsamkeppni meðal evrópskra bílaframleiðenda og möguleiki neytenda til að flytja sjálfir inn bíla þaðan sem þeir eru ódýrastir.

***

Engir innflutningstollar eru á bílum sem fluttir eru hingað til lands. Há vörugjöld eru lögð á bíla á Íslandi, óháð því hvaðan þeir eru fluttir inn og hvar þeir eru framleiddir, en Evrópusambandsaðild breytir engu um þau. Evrópusambandið leggur hins vegar 10% innflutningsgjald á bifreiðir sem framleiddar eru utan þess. Á þessu eru undantekningar, til dæmis hefur sambandið gert samning við Suður-Kóreu um niðurfellingu tolla á árunum 2014-2016. Ef Ísland gengur í Evrópusambandið mundu bílar frá Japan og Bandaríkjunum hins vegar væntanlega hækka í verði um 10% hér á landi eða um sem nemur innflutningsgjaldi á bifreiðir samkvæmt tollskrá Evrópusambandsins. Hér verður að vísu að athuga að framleiðendur bíla frá Asíu hafa sett upp verksmiðjur í Austur-Evrópu og framleiða þar smábíla, sem eru vinsælir þar. Þannig spara þeir bæði flutningskostnað og tolla. Þessa bíla yrði hægt að flytja tollfrjálst til Íslands. Japanskir jeppar, pallbílar og aðrir stórir bílar, sem notið hafa hvað mestra vinsælda hér á landi, eru hins vegar ekki framleiddir í þessum verksmiðjum. Verð þeirra mundi því hækka um 10%. Það sama gildir um bíla frá Ameríku.


Við aðild að ESB þyrftu Íslendingar áfram enga tolla að greiða af bílum framleiddum innan sambandsins en 10% tollur yrði lagður á bíla framleidda utan þess. Myndin er úr verksmiðju Volkswagen í Wolfsburg í Þýsklandi.

Tollverndin gerir það að verkum að bílar sem eru framleiddir í Evrópusambandinu eru ekki eins berskjaldaðir fyrir samkeppni að utan og ella væri, enda er það tilgangur verndarinnar. Því virðist ekki fráleitt að þeir mundu hækka í verði á Íslandi, miðað við það sem nú er, ef landið gengi í Evrópusambandið. Bílar sem búnir eru til í ríkjum sambandsins væru með öðrum orðum dýrari innan þess en í þeim löndum utan þess sem ekki leggja tolla á bíla þaðan.

Tvennt vinnur þó á móti þessu. Í fyrsta lagi búa margir til bíla í Evrópusambandinu. Ódýrt er að flytja bíla og því ættu að vera góðar aðstæður fyrir verðsamkeppni milli bílaframleiðenda innan sambandsins. Þess má geta að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birtir á hverju ári skýrslu um verð á bílum í ríkjum þess. Í öðru lagi geta allir flutt bíla til Evrópusambandslanda, bílaumboð jafnt sem aðrir. Ef bera færi á því að bílar framleiddir í Evrópusambandsríkjunum væru dýrari innan sambandsins en utan þess, í skjóli tollverndarinnar, væri tiltölulega einfalt mál að flytja þá inn aftur frá löndum þar sem þeir eru ódýrari. Við slíkan innflutning þyrfti ekki að greiða tolla af bílunum, enda um að ræða evrópska upprunavöru.

Evrópusambandsríki eiga mikla hlutdeild í bílaframleiðslu í heiminum. Undanfarin ár hefur tæpur helmingur innfluttra bíla hér á landi verið framleiddur í Evrópusambandinu. Flestir litlir bílar sem fluttir eru hingað eru úr ríkjum sambandsins en stórir bílar, jeppar og pallbílar, koma einkum frá Asíu og Bandaríkjunum. Verð á litlum bílum breytist því sennilega lítið að meðaltali ef Ísland gengur í Evrópusambandið, en meðalverð á stórum bílum hækkar. Evrópusambandstollurinn yrði væntanlega til þess að meira yrði selt af bílum sem framleiddir eru í Evrópusambandinu en áður. Erfitt er að segja til um hvað salan breytist mikið. Tryggð manna við einstakar bílategundir er töluverð. Hugsanlegt er að íslensk stjórnvöld lækki vörugjöld til þess að draga úr áhrifum Evrópusambandstollsins á verð á bílum. Ef þau gera það ekki mundi verðið sennilega hækka um nálægt 5% að meðaltali hér á landi.

Upprunaleg spurning var sem hér segir:
Hvernig mun verð á nýjum bílum breytast ef Ísland verður hluti af Evrópusambandinu? - Annars vegar verð á bílum sem koma utan ESB og verða tollaðir, og hins vegar verð á bílum frá evrópskum framleiðendum sem munu njóta tollverndar og eiga auðveldara með að hækka verðið af því að þeir njóta tollverndar

Heimildir og mynd:
Við þetta svar eru 3 athugasemdir Fela athugasemdir

Erna Bjarnadóttir 25.1.2013

Fróðlegt svar, gildir ekki þá svipað um varahluti? Kveðja Erna

Erna Bjarnadóttir 25.1.2013

"Hugsanlegt er að íslensk stjórnvöld lækki vörugjöld til þess að draga úr áhrifum Evrópusambandstollsins á verð á bílum. "

Á þetta erindi í svarið, hér er um að ræða vangaveltur höfundar sem eiga ekkert skylt við efnislegar reglur um tolla og sameiginlegan markað. Vörugjöld eru bara ein leið til tekjuöflunar.

Sigurður Jóhannesson 1.2.2013

Tollar á bílavarahlutum virðast vera misháir í Evrópusambandinu, allt niður í 3%, en 12% tollur er á bílaútvörpum. Vissulega eru það vangaveltur hvort vörugjöld verði lækkuð á móti Evróputollinum, en þær eru ekki út í hött þegar það er skoðað að vörugjöldin voru á sínum tíma tekin upp í stað tolla.