Hvernig munu gjöld á innfluttar bifreiðar breytast ef Ísland gengur í ESB?
Spyrjandi
Ingimar Róbertsson
Svar
Ef Ísland gengur í Evrópusambandið verður lagður 10% tollur á bíla framleidda í þriðju ríkum, eins og Japan og Bandaríkjunum, í samræmi við tollskrá Evrópusambandsins. Eftir sem áður yrðu hins vegar engir tollar lagðir á bíla sem framleiddir eru í aðildarríkjum sambandsins. Vörugjöld og virðisaukaskatt þyrfti áfram að greiða í ríkissjóð af öllum innfluttum bifreiðum.Vörugjöld og virðisaukaskattur eru greidd við skráningu ökutækja. Einstaklingar þyrftu því eftir sem áður að greiða þessi gjöld í ríkissjóð Íslands af innfluttum bifreiðum alls staðar frá. Í greinargerð um tollamál frá samningahópi um fjárhagsmálefni í samningaviðræðum Íslands við ESB kemur fram að innflutningur bifreiða til Íslands skiptist í tvo nokkuð jafna hluta milli ríkja innan og utan ESB. Stærstur hluti smærri bifreiða hefur til þessa komið frá ESB en stærri bifreiðar, eins og jeppar og pallbílar, hafa komið frá Asíu og Bandaríkjunum. Líklegt er að í kjölfar inngöngu Íslands í ESB mundu innkaup á bifreiðum frá ESB-ríkjum aukast. Við þetta má bæta að margir framleiðendur asískra smábíla hafa hafið framleiðslu í Austur-Evrópu í þeim tilgangi að losna við tolla á Evrópumarkaði. Japanskir jeppar og pallbílar, sem notið hafa vinsælda á Íslandi, eru hins vegar ekki framleiddir í þessum verksmiðjum. Heimildir og mynd:
- Greinargerð samningahóps um fjárhagsmálefni um tollamál.
- Tollskrá 2011.
- Mynd fengin af heimasíðu Viðskiptablaðsins, 30.9.11.
Um þessa spurningu
Dagsetning
Útgáfudagur30.9.2011
Flokkun:
Efnisorð
ESB aðild tollar vörugjöld gjöld innflutningur bifreiðar Evrópa Bandaríkin Japan
Tilvísun
Þórhildur Hagalín. „Hvernig munu gjöld á innfluttar bifreiðar breytast ef Ísland gengur í ESB?“. Evrópuvefurinn 30.9.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60568. (Skoðað 18.9.2024).
Höfundur
Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins
Prenta
Senda
Frekara lesefni á Evrópuvefnum:
- Er ekki rétt skilið að tollar á vörum milli ESB-ríkja falla niður við inngöngu í ESB, til dæmis þegar vara er pöntuð á Netinu?
- Hversu hár er tollur ESB á vörur frá Bandaríkjunum og hve mikið mundu þær hækka hlutfallslega í verði ef Ísland gengi í ESB?
- Hvað mundi breytast við aðild að Evrópusambandinu varðandi póstverslun?
- Hvernig mun verð á nýjum bílum breytast ef Ísland verður hluti af Evrópusambandinu?
En eru vörugjöld ekki í raun það sama og tollar?
Tollar og vörugjöld eru ekki einn og sami hluturinn heldur mynda þau tvo megintekjustofna tollkerfisins.
Tollur (e. customs duty) er gjald sem innheimt er af vöru samkvæmt tollskrá við innflutning en vörugjald (e. excise duty) er gjald sem leggst á vörur við innflutning eða innanlandsframleiðslu og mismunar vörum því ekki eftir uppruna. Samkvæmt lögum um vörugjald er gjaldstofn vörugjalds af innfluttum vörum tollverð þeirra að viðbættum tollum og áætlaðri heildsöluálagningu. Á sömu vöruna getur því lagst bæði tollur og vörugjald.