Spurning

Hefur matvælaverð alltaf lækkað þegar ríki hafa gengið í Evrópusambandið?

Spyrjandi

Berglind Vignisdóttir

Svar

Áhrif Evrópusambandsaðildar á matvælaverð eru ólík eftir löndum, því að lönd eru misvel fallin til búvöruframleiðslu. Helst mætti búast við að matvælaverð lækkaði þegar norræn lönd gengju í sambandið þar eð aðstæður til búskapar eru erfiðari þar en víðast hvar sunnar í álfunni.


Myndin sýnir hlut landbúnaðar í efnahag einstakra ríkja eftir svæðum. Á dökkgrænu svæðunum er hlutur landbúnaðarins stærstur en minnstur á ljósgrænu svæðunum.

Svíar gengu í Evrópusambandið árið 1995, en matarverð breyttist ekki mikið í landinu við það. Finnar gengu í sambandið um leið og Svíar, en í Finnlandi lækkaði matarverð til neytenda um nálægt 10%. Gjaldmiðlar beggja þjóðanna höfðu hrunið nokkrum árum áður og almennt verðlag var því mjög lágt þegar þær gengu í sambandið. Árið 1990 var matarverð í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi að jafnaði nálægt 60% hærra en að jafnaði í Evrópusambandinu. Í lok aldarinnar var matur hins vegar aðeins 10-20% dýrari í Svíþjóð og Finnlandi en í meðaltali Evrópusambandslanda (viðmiðið er bæði árin þau 15 lönd sem voru aðilar frá 1995). Í Noregi, sem var utan sambandsins allan tímann, var matur um 50% dýrari um aldamótin en að jafnaði í aðildarríkjunum.

Þetta segir að vísu ekki alla söguna. Ýmislegt fleira breyttist í Finnlandi og Svíþjóð á tíunda áratug 20. aldar en það að löndin gengu í Evrópusambandið. Skattlagning, hlutur lágvöruverðsverslana og sérkjör landbúnaðar höfðu líka áhrif á matarverð. Þó er freistandi að álykta að Evrópusambandsaðild hafi átt þátt í að matvöruverð hélst lágt í þessum löndum.

Nánar er fjallað um áhrif mögulegrar Evrópusambandsaðildar Íslands á matvöruverð í svari við spurningunni Er það satt sem sagt er að við inngöngu í ESB mundi matvælaverð að líkindum lækka um 18-25%?

Mynd:
Við þetta svar er engin athugasemd Fela