Spurning

Yrði ódýrara að fljúga til útlanda ef Ísland gengi í ESB?

Spyrjandi

Kjartan Oliver Róbertsson

Svar

Nei, samkvæmt því sem Evrópuvefurinn kemst næst þá mundi aðild Íslands að Evrópusambandinu væntanlega hafa lítil sem engin áhrif á verðlag flugfargjalda til útlanda. Helstu breytingar sem fylgt gætu aðild yrðu á sviði loftferðasamninga en Ísland fengi sjálfkrafa aðild að þeim samningum sem framkvæmdastjórn ESB hefur gert fyrir hönd sambandsins. Samningarnir gætu leitt til aukinnar samkeppnisgetu íslenskra flugrekenda en þó er erfitt að spá fyrir um hvort það mundi skila sér í hagstæðara verði fyrir íslenska neytendur. - Hátt verðlag flugfargjalda á Íslandi má rekja til fákeppni á markaði og hækkunar undanfarinna ára á olíuverði. Þá má ætla að frekari hækkanir verði á næstu árum sökum skuldbindinga Íslands á alþjóðavettvangi, um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda í flugi. Áhrifin eru þó umtalsvert minni en áhrif verðhækkana á olíu á undanförnum árum.

***

Aðild Íslands að Evrópusambandinu mun væntanlega hafa lítil sem engin áhrif á verðlag flugfargjalda til útlanda. Ástæðan er sú að Ísland hefur nú þegar að mestu leyti innleitt löggjöf ESB á sviði flugmála en flestar þær reglugerðir sem sambandið gefur út á þessum vettvangi eru teknar upp í EES-samninginn. Markmið löggjafar ESB á sviði flugmála er að samræma reglur á Evrópska efnahagssvæðinu er varða flugrekstrarleyfi flugfélaga, fargjöld og farmagjöld, auka aðgang flugrekenda að markaðssvæðum EES-svæðisins og auka neytendavernd flugfarþega, svo eitthvað sé nefnt.

Ef til aðildar Íslands að ESB kæmi yrðu helstu breytingarnar í flugmálum þær að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins færi að hluta með umboð Íslands við gerð loftferðasamninga við þriðju ríki á sama hátt og gildir um önnur aðildarríki. Þá fengi Ísland sjálfkrafa aðild að þeim loftferðasamningum sem framkvæmdastjórnin hefur þegar gert fyrir hönd sambandsins við þriðju ríki, þar á meðal við lönd sem Ísland hefur ekki gert samninga við. Ísland hefur ekki átt aðild að loftferðasamningum ESB þar sem allir alþjóðlegir samningar við þriðju ríki, líkt og loftferðasamningar, flokkast sem utanríkismál sem eru undanskilin EES-samningnum.


Boeing 757 flugvél Icelandair.

Í greinargerð samgönguráðuneytisins um stöðu loftferðasamninga og í rýniskýrslu samninganefndar Íslands um flutningamál (kafli 14) kemur fram að eftirsóknavert sé fyrir Ísland að gerast aðili að þessum samningum þar sem framkvæmdastjórnin nái að jafnaði betri samningum við þriðju ríki, í krafti stærðar sinnar. Hingað til hafa íslensk stjórnvöld samið beint við viðkomandi ríki en slíkt krefst samningsvilja beggja aðila, sem oft er minni í viðræðum við minni ríki. Íslenskir flugrekendur mundu standa jafnfætis öðrum flugrekendum í Evrópu og því er um að ræða töluvert hagsmunamál fyrir þá. Loftferðasamningar ESB gætu því leitt til aukinnar samkeppnisgetu íslenskra flugrekenda, en erfitt er að spá fyrir um það hvort það mundi skila sér í hagstæðara verði fyrir íslenska neytendur.

Þeir tvíhliða samningar um flugsamgöngur sem Ísland hefur nú þegar gert mundu halda gildi sínu. Sömuleiðis mundi aðild ekki koma í veg fyrir að Ísland gæti gert samninga sjálft við þriðju ríki, eins og það hefur getað gert hingað til. Eina breytingin sem þar yrði á, væri að einnig þyrfti að bjóða framkvæmdastjórninni sæti við samningaborðið. Hægt er að nálgast lista yfir þau ríki sem Ísland hefur gert loftferðasamninga við á heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Mótun verðlags á fargjöldum vegna flugþjónustu eru frjáls á EES-svæðinu. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2008 kemur fram að hátt verðlag flugfargjalda á Íslandi megi rekja til fákeppni á markaði. Löggjöf Evrópusambandsins (nr. 1008/2008) tryggir öllum flugrekendum rétt til að stunda flugrekstur hvar sem er á EES-svæðinu en þrátt fyrir það ríkir lítil samkeppni í flugsamgöngum á Íslandi. Í skýrslunni er bent á að mögulega gætu íslensk stjórnvöld aukið samkeppni með því að lækka skatta og gjöld á Keflavíkurflugvelli til að auðvelda aðgengi lággjaldaflugfélaga að íslenskum markaði. Umræddir skattar og gjöld á Keflavíkurflugvelli eru þó sambærilegir því sem almennt tíðkast hjá alþjóðlegum flugvöllum.

Hækkanir á olíuverði á síðustu árum hafa einnig leitt til þess að flugrekendur hafa hækkað fargjöld til að svara kostnaði. Þá hefur sú álagning sem sérstaklega er lögð á flugvélabensín í Evrópu, í þeim tilgangi að beina neytendum í átt að vistvænni ferðamátum, komið niður á íslenskum neytendum sem njóta ekki sömu möguleika og íbúar annars staðar í Evrópu til að ferðast á milli landa. Lega landsins hefur einnig í för með sér að eldsneytiseyðsla í millilandaflugi er töluverð og það skilar sér í hærra verðlagi.

Ef litið er til framtíðar má áætla að skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi, um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda, muni enn fremur stuðla að hærra verðlagi á flugfargjöldum. Í ársbyrjun 2012 var sú breyting gerð á tilskipun ESB (nr. 2003/87), sem tekin var upp í gegnum EES-samninginn árið 2007, um viðskipti með losunarheimildir á gróðurhúsalofttegundum að öll flugstarfsemi félli einnig undir þetta viðskiptakerfi. Þetta þýðir að öllu flugi til og frá Evrópu og innan álfunnar er úthlutað svonefndum útstreymisheimildum, í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ef flugrekendur þurfa auknar heimildir ber þeim að kaupa þær á markaði. Þær tekjur sem ríkin afla með þessu eiga að renna til verkefna sem stuðla að vistvænni samgöngum, líkt og lesta og hópferðabíla.

Í skýrslu innanríkisráðuneytisins er gert ráð fyrir því að heildarkostnaður íslenskra flugrekenda vegna kaupa á losunarheimildum gæti orðið á bilinu 36 til 71 milljarður króna á tímabilinu 2012-2020. Endanleg tala mun ráðast af verði á hverju tonni af útstreymisheimildum. Líklegt er að viðskiptavinir íslensku flugfélaganna, flugfarþegar og þeir sem kaupa flutning á vörum með flugi, þurfi að bera hluta þessa kostnaðar. Miðað við þær forsendur sem gefnar eru í skýrslunni gætu fargjöld hækkað um allt að 5%. Áhrif þessarar auknu skattheimtu eru þó umtalsvert minni en áhrif verðhækkana á olíu á undanförnum árum.

Heimildir og myndir:

Við þetta svar er engin athugasemd Fela