Spurning

Er það vegna reglugerðar frá ESB eða landbúnaðarráðuneytinu á Íslandi sem ekki má lengur versla með hefðbundið amerískt Cocoa Puffs?

Spyrjandi

Stefán Vignir Skarphéðinsson

Svar

Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst á ákvörðunin um að flytja inn nýja tegund Cocoa Puffs á íslenskan markað rætur sínar að rekja til ákvæða um rekjanleika og merkingar erfðabreyttra matvæla í nýlegri íslenskri reglugerð. Í Bandaríkjunum þar sem Cocoa Puffs-morgunkornið, sem Íslendingar þekkja best, er framleitt eru ekki gerðar sömu kröfur um rekjanleika og merkingar á erfðabreyttum matvælum. Framleiðendur Cocoa Puffs í Bandaríkjunum uppfylla ekki skilyrði íslenskra laga um rekjanleika á innihaldsefnum vara og því er söluaðilum gert erfitt um vik að merkja morgunkornið sem erfðabreytta vöru, sem er skilyrði fyrir sölu þess hér á landi. Hið nýja Cocoa Puffs sem nú er hægt að kaupa á Íslandi er framleitt í Frakklandi.

***

Hinn 1. september 2011 tók gildi hér á landi fyrsta íslenska reglugerðin (nr. 1038/2010) um merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs en matvælahluti reglugerðarinnar tók gildi 1. janúar 2012. Reglugerðin, sem sett var af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerir framleiðendum og söluaðilum skylt að merkja vörur sínar sérstaklega þegar þær innihalda erfðabreytt efni og greina frá innihaldi þeirra. Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst er það vegna þessarar reglugerðar sem sumir dreifingaraðilar Cocoa Puffs á Íslandi hafa tekið ákvörðun um að hætta innflutningi bandarísks Cocoa Puffs og flytja inn franskt Cocoa Puffs í staðinn.

Í 4. og 6. grein reglugerðarinnar er sú krafa gerð til stjórnenda matvælafyrirtækja að ef erfðabreytt innihaldsefni er að finna í vöru þá skuli varan merkt sem erfðabreytt og skriflegar upplýsingar um innihald fylgja vörunni. Allar nauðsynlegar upplýsingar um innihaldsefni skulu sendar áfram til þess rekstraraðila sem tekur við vörunni og setur hana í sölu. Þessar upplýsingar eiga að koma í formi rannsóknavottorða eða annarra upplýsinga sem staðfesta að matvælin séu erfðabreytt eða ekki. Reglurnar banna þannig hvorki framleiðslu, dreifingu né sölu erfðabreyttra matvæla heldur kveða þær á um að vörur séu merktar þannig að neytendur hafi ávallt vissu fyrir því hvort matvæli sem þeir kaupa séu erfðabreytt eða ekki.

Rekjanleika- og merkingarákvæði íslensku reglugerðarinnar eru efnislega þau sömu og í reglugerðum Evrópusambandsins (nr. 1829/2003 og 1830/2003) um erfðabreytt matvæli og fóður. Samkvæmt ákvæðum EES-samningsins er Íslandi gert að innleiða hjá sér réttarreglur ESB á þeim sviðum sem samningurinn nær til. Ofangreindar grunnreglugerðir ESB um rekjanleika og merkingar erfðabreyttra matvæla hafa verið til umfjöllunar á vettvangi EFTA/EES-ríkjanna síðan árið 2004. Til stendur að taka reglugerðirnar upp í EES-samninginn en Noregur hefur frá upphafi sett ríkan fyrirvara við upptökuna svo landið hafi möguleika á að setja víðtækara bann við markaðssetningu erfðabreyttra matvæla og fóðurs en reglur ESB kveða á um. Samkvæmt yfirlitsskýrslu sendiráðs Íslands í Brussel frá árinu 2011 hefur Noregur lagt til breyttan aðlögunartexta sem Liechtenstein hefur samþykkt en beðið er eftir afstöðu Íslands í málinu. Ísland hefur því enn sem komið er ekki innleitt reglur ESB um merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla í íslenska löggjöf heldur mótað eigin reglur að fyrirmynd Evrópusambandsins.


Gamla og nýja tegundin af Cocoa Puffs-morgunkorninu.

Þegar matvæli eru flutt til Íslands frá ríkjum sem hafa aðrar reglur um erfðabreytt matvæli, eða jafnvel engar reglur, þá geta komið upp ýmis vandamál. Í Bandaríkjunum, þar sem Cocoa Puffs morgunkornið sem Íslendingar þekkja best er framleitt, eru ekki gerðar sömu kröfur um rekjanleika og merkingar erfðabreyttra matvæla og gerðar eru hér á landi. Eftir því sem Evrópuvefurinn kemst næst geta framleiðendur Cocoa Puffs í Bandaríkjunum ekki tryggt söluaðilum á Íslandi að maískornið sem notað er í vöruna sé ekki erfðabreytt. Líkurnar á því að í Cocoa Puffsi séu erfðabreytt efni eru töluverðar en um 85% allrar maísuppskeru í Bandaríkjunum eru talin vera erfðabreytt og samtök bandarískra matvælavinnslufyrirtækja (Grocery Manufacturers Association, GMA) áætla að allt að 80% unninna matvæla í Bandaríkjunum innihaldi erfðabreytt efni.

Vandinn sem dreifingar- og söluaðilar Cocoa Puffs á Íslandi standa frammi fyrir er sá að jafnvel þótt miklar líkur séu á að það innihaldi erfðabreytt efni er ekki leyfilegt að merkja vöru sem erfðabreytta án nákvæmra upplýsinga um úr hvaða erfðabreyttu lífverum varan er framleidd. Ef slíkar upplýsingar eru ekki fáanlegar frá framleiðanda vörunnar er ekki hægt að merkja hana sem erfðabreytta og því strangt til tekið ekki leyfilegt að selja hana hér á landi.

Þó svo matvælahluti íslensku reglugerðarinnar um merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs hafi verið í gildi síðan í janúar 2012 hefur eftirfylgni með framkvæmd hennar farið hægt af stað. Þannig er bandarískt Cocoa Puffs enn til sölu hér á landi og hafa sumir söluaðilar merkt vöruna sem erfðabreytta. Hver afdrif bandaríska morgunkornsins á íslenskum markaði verða veltur á því hvernig íslensku reglugerðinni verður framfylgt í framtíðinni sem og væntanlegri upptöku reglugerða ESB um erfðabreytt matvæli og þeim fyrirvara sem Ísland kann að gera við upptöku þeirra.

Hið franska Cocoa Puffs sem Íslendingum stendur nú einnig til boða hefur lengi verið til sölu í Evrópu en það uppfyllir bæði íslenskar og evrópskar reglur um merkingar og rekjanleika innihaldsefna. Þessi nýja tegund inniheldur engin erfðabreytt efni en þar að auki minni sykur, fitu og salt en sú tegund sem Íslendingar hafa þekkt í gegnum tíðina. Þannig er 28% minni sykur, 22% minni fita og 60% minna salt en 26% meiri trefjar.

Evrópuvefurinn hefur enn sem komið er ekki getað aflað áreiðanlegra upplýsinga um hvort bandaríska Cocoa Puffs-morgunkornið sé fáanlegt í Bretlandi eða öðrum aðildarríkjum ESB. Ef lesendur vita dæmi þess að morgunkornið sé til sölu innan ESB þá viljum við gjarnan fá ábendingar um það.

Þetta svar var upphaflega birt í ágúst 2012 en í kjölfar nýrra upplýsinga var svarið uppfært og endurbirt 28. september 2012.

Heimildir og myndir:

Upprunaleg spurning:

Nú veit ég fyrir víst að hægt er að versla með „Amerískt Cocoa Puffs“ án þess að gerast brotlegur við lög í Bretlandi, sem er í Evrópusambandinu. – Þess vegna hefði ég áhuga á að vita hvort það hafi verið reglugerð eða tilskipun frá ESB, frekar en landbúnaðarráðuneytinu á Íslandi sem olli því að breyta þurfti uppskriftinni að Cocoa Puffs sérstaklega og er að valda ansi áhugaverðum deilum. Hvort var það?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.9.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Er það vegna reglugerðar frá ESB eða landbúnaðarráðuneytinu á Íslandi sem ekki má lengur versla með hefðbundið amerískt Cocoa Puffs?“. Evrópuvefurinn 28.9.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62572. (Skoðað 17.6.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela