Spurning

Hvaða reglur gilda um verðtryggingu lána í ESB?

Spyrjandi

Ritstjórn

Svar

Í neytendalögum Evrópusambandsins felst öflug neytendavernd og eru meðal annars lagðar ákveðnar kvaðir á banka og fjármálastofnanir sem veita neytendum lán. Almennir skilmálar neytendalána í aðildarríkjunum hafa verið samræmdir í löggjöf ESB, þar á meðal eru helstu upplýsingar sem neytendur ættu að búa yfir við lántöku svo og skyldur þeirra. Til slíkra upplýsinga telst hin árlega hlutfallstala lánskostnaðar eða, að öðrum kosti, heildarupphæð lánskostnaðar neytenda. Evrópsk löggjöf gildir nú þegar um ákveðnar tegundir verðtryggðra lána (lán að upphæð á milli 200 og 75.000 evrur sem ekki eru tryggð með veðláni eða sambærilegri tryggingu). Vegna EES-samningsins gilda evrópsku neytendalögin nú þegar á Íslandi. Með aðild að ESB yrði því engin breyting á efnisrétti heldur einungis reglum um málsmeðferð fyrir einstaklinga og rekstraraðila.

***

Mat á verðtryggðum lánssamningum verður að fara fram í ljósi nýjustu löggjafar ESB um neytendalán sem einnig er í fullu gildi á Evrópska efnahagssvæðinu og þar með á Íslandi.


Evrópsk lög um neytendalán tilgreina nauðsyn þess að neytendum séu veittar allar upplýsingar sem máli skipta og að þeir skilji heildarumfang þeirra fjárhagslegu skuldbindinga sem lánssamningar fela í sér.

Tilskipun ESB um neytendasamninga (93/13/EEB) leggur þannig almennt bann við ósanngjörnum skilmálum í neytendasamningum, það er að segja skilmálum sem ekki hefur verið samið um sérstaklega, sem stríða gegn góðum viðskiptaháttum og raska til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytendum í óhag. Tilskipun ESB um ósanngjarna viðskiptahætti (2005/29) kveður á um tilteknar skyldur viðskiptamanna til að upplýsa neytendur, sem eru í góðri trú, um allar fjárhagslegar skyldur sínar. Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar geta viðskiptahættir (til dæmis auglýsingastarfsemi) talist óréttmætir ef þeir
  1. stríða gegn kröfunni um kostgæfni í starfi og/eða
  2. raska, eða eru líklegir til að raska, hegðun neytenda (til dæmis með villandi framsetningu upplýsinga eða skorti á upplýsingum).
Þessar tvær tilskipanir gilda um verðtryggða lánssamninga á Íslandi.

Tilskipun ESB um neytendalán (2008/48) gildir um sambandið milli viðskiptamanns og neytanda. Tilskipunin kveður á um skyldur viðskiptamanna til að veita neytendum upplýsingar áður en lánssamningur er gerður. Lánveitendur skulu nota staðlað eyðublað (Standard European Consumer Credit Information, SECCI), þar sem gerð er grein fyrir því á skýran og skilmerkilegan hátt hver árleg hlutfallstala lánskostnaðar er og hvert heildarverð lántökunnar er, miðað við útreikninga við gerð samningsins. Skylt er að veita upplýsingar um árlegan heildarlánskostnað. Alþingi hefur samþykkt að tilskipunin verði felld inn í EES-samninginn og er hún þar með bindandi á Íslandi, þrátt fyrir að hafa enn ekki verið innleidd í íslensk lög, en tilskipunin kallar á endurskoðun á núgildandi regluverki um neytendalán (sjá þingsályktun).

Undanþegnir gildissviði neytendalánatilskipunarinnar eru lánssamningar sem eru tryggðir, annaðhvort með veðláni eða annarri sambærilegri tryggingu sem er venjulega notuð í aðildarríki í tengslum við fasteignir, eða tryggðir með réttindum sem tengjast fasteignum, eins og á við um flest hefðbundin húsnæðislán. Lánssamningar þar sem heildarupphæð láns er lægri en 200 evrur eða hærri en 75.000 evrur eru einnig undanþegnir ákvæðum tilskipunarinnar. Verðtryggð lán, að upphæð milli 200 og 75.000 evrur, falla því aðeins undir gildissvið tilskipunarinnar ef þau eru ekki tryggð með veðláni.

Framkvæmdastjórn ESB gaf á hinn bóginn út tilmæli, árið 2001, um þær upplýsingar sem lánveitendur skulu veita neytendum áður en samningur um lán til húsnæðiskaupa er gerður. Árið 2011 lagði hún ennfremur fram tillögu að tilskipun um lánssamninga í tengslum við íbúðarhúsnæði, í þeim tilgangi að auka neytendavernd húsnæðiskaupenda.

Þau álitamál sem íslenskir neytendur og neytendasamtök hafa kvartað yfir í sambandi við verðtryggða lánssamninga og varða evrópsk lög eru eftirfarandi:
  • Höfuðstóll lánsins (að nafnverði) er tengdur vísitölu neysluverðs og hækkar yfir tíma með því að vöxtum og vaxtavöxtum er bætt við höfuðstólinn.
  • Upplýsingar sem neytendum eru veittar eru oft villandi. Lán eru reiknuð á svo flókinn og torskilinn hátt að raunverulegur kostnaður er lánþegum hulinn.
  • Raunkostnaður verðbólgutengdra lána, eins og þau eru reiknuð út, er hærri en látið er í veðri vaka. Lán til 30 ára með 5% ársvöxtum og 7% verðbólgu á ári reynist ekki lán með 12,4% vöxtum, eins og prósentutölurnar gefa í skyn. Raunverulegur lánskostnaður þess konar láns er sambærilegur við óverðtryggt lán með 22% ársvöxtum (sjá lánareikni Íbúðalánasjóðs).
  • Greiðsluáætlanir endurspegla ekki raunveruleikann. Fjármálastofnanir raska verulega hegðun neytenda með því að gera lítið úr langtímaáhættu vegna verðbólgu (stundum kemur verðbólguvísitalan ekki fram í greiðsluáætluninni).
  • Lánin eru í reynd flóknar afleiðutengdar fjármálaafurðir sem ómögulegt er fyrir almenna neytendur að meta á fullnægjandi hátt.

Almennar meginreglur evrópskra neytendalaga banna innleiðingu einhliða ákvæða sem fela í sér misbeitingu (e. abusive clauses), til dæmis óréttlátan útreikning vaxta, og ósanngjarna viðskiptahætti, svo sem villandi upplýsingar. Evrópsk lög um neytendalán tilgreina skýrt og greinilega nauðsyn þess að tryggja að neytendum séu veittar allar upplýsingar sem máli skipta og að þeir skilji heildarumfang þeirra fjárhagslegu skuldbindinga sem lánssamningar fela í sér.

Það liggur fyrir að á þeim tímapunkti þegar gerður er vísitölutengdur lánssamingur geta lánveitendur ekki veitt allar þær upplýsingar sem munu hafa áhrif á fjárhagslegar skuldbindingar þeirra, eins og verðbólgustig framtíðar. Neytendur geta því ekki tekið algjörlega upplýsta ákvörðun þegar kemur að því að gangast undir fjárhagslegar skuldbindingar slíkra samninga, sem oft fela í sér háar fjárhæðir sem greiddar eru til baka á nokkrum áratugum.

Af almennri neytendalöggjöf ESB og sérstakri lánalöggjöf leiðir að:
  1. túlka má neytendalánatilskipunina þannig að verðtryggðir lánssamningar að upphæð milli 200 og 75.000 evrur, sem ekki eru húsnæðislán tryggð með fasteignaveði, brjóti gegn Evrópurétti þar sem binding höfuðstóls láns við vísitölu neysluverðs komi í veg fyrir að hægt sé að uppfylla ströng skilyrði tilskipunarinnar um veitingu upplýsinga til neytenda;
  2. verðtrygging húsnæðislána er vafasöm þar sem uppbygging hennar stangast á við grundvallarreglur evrópskra neytendalaga sem banna misbeitingarákvæði sem raska jafnvægi samningsaðila neytanda í óhag, veitingu misvísandi upplýsinga og viðskiptahætti sem láta neytendur vanmeta fjárhagslegar skuldbindingar sínar.

Myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur28.10.2011

Tilvísun

María Elvira Méndez Pinedo. „Hvaða reglur gilda um verðtryggingu lána í ESB?“. Evrópuvefurinn 28.10.2011. http://evropuvefur.is/svar.php?id=60690. (Skoðað 19.3.2024).

Höfundur

María Elvira Méndez Pinedoprófessor í Evrópurétti

Við þetta svar eru 4 athugasemdir Fela athugasemdir

Guðbjörn Jónsson 30.10.2011

Verðtrygging lánsfjár, eins og hún hefur verið framkvæmd hér á landi, hefur aldrei verið til í lögum landsins. Greinargerð (u.þ.b. 100 bls.) var send Umboðsmanni Alþingis um þessi atriði, auk 40 mín. myndbands um ólögmæti verðtryggingar frá upphafi. Það þarf því ekkert að leita út fyrir landsteina til staðfestingar á ólögmæti verðtryggingar.

Þórarinn Einarsson 30.10.2011

Höfundur greinarinnar telur fasteignalán undanskilin þar sem þau voru það í upphaflegu tilskipuninni um neytendalán sem var fyrst innleidd hér á landi 1993. En það sem höfundi greinarinnar yfirsást var að þessum lögum var breytt í árslok 2000 þannig að eftir gildistöku þann 11. janúar 2001 voru fasteignalán ekki lengur undanskilin. Fasteignalán eru því neytendalán. Allur rökstuðningur í þessari grein á því einnig við um verðtryggð fasteignalán eftir að lagabreytingin tók gildi.

Guðmundur Ásgeirsson 30.10.2011

Núgildandi tilskipun Evrópusambandsins um neytendalán tók gildi 2008, en hvaða reglur voru í gildi þar áður, og hvernig var innleiðingu þeirra háttað á Íslandi? Í núgildandi lögum nr.121/1994 um neytendalán er ekkert sem undanskilur húsnæðislán frá gildissviði þeirra. Má þá ekki segja að lántakendur njóti í raun meiri neytendaverndar ef farið væri eftir íslenskum lögum frekar en evrópskum?

Magnús Kristjánsson 17.1.2013

Samkvæmt grein höfundar þá er segir að heimilt sé að verðtryggja fasteignalán ef það eru lán með veði en. Fram kemur jafnframt að bannað er að verðtryggja neytendalán og mjög vafasamt sé að heimila verðtryggingu húsnæðislána á forsendu laga um neytendavernd. Er það ekki rétt skilið hjá mér eins og fram kemur í innleggi Þórarins að fasteignalán eru neytendalán þ.e. lánasamningur milli einstaklings og lánastofnunar (það er munur á hvort lán eru á milli rekstraraðila eða einstaklinga og lánastofnana) ?