Spurning

Geta háskólar í Skotlandi krafið Íslendinga um hærri skólagjöld af því að Ísland er ekki í Evrópusambandinu heldur aðeins aðili að EES-samningnum?

Spyrjandi

Geir Hólmarsson

Svar

Stutta svarið er já. Aðilum að EES-samningnum er heimilt að mismuna námsmönnum eftir ríkisfangi, hafi þeir gert það fyrir gildistöku samningsins einnig. Um þetta var samið í sérstakri bókun við EES-samninginn. Aðildarríki Evrópusambandsins mega á hinn bóginn ekki innheimta hærri skólagjöld af ríkisborgurum annarra ESB-ríkja en sínum eigin. Það er því rétt að vegna þess að Ísland er aðili að EES-samningnum en ekki Evrópusambandinu geta háskólar í Skotlandi, og annars staðar í Evrópusambandinu, krafið Íslendinga um hærri skólagjöld en sambandsborgara.

***

Við gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið var samþykkt í sérstakri bókun (bókun 29 um starfsþjálfun) „að ákvæði samningsins um búseturétt námsmanna breyti ekki möguleikum einstakra samningsaðila, sem við lýði eru fyrir gildistöku samningsins, til dæmis varðandi innheimtu skólagjalda af erlendum námsmönnum“. Bókunin hefur í för með sér að þau ESB-ríki sem kröfðu ríkisborgara EFTA/EES-ríkjanna um hærri skólagjöld en sína eigin ríkisborgara fyrir gildistöku EES-samningsins, er heimilt að halda því áfram. Hið sama gildir að sjálfsögðu um þau EFTA/EES-ríki sem innheimtu hærri skólagjöld af erlendum námsmönnum en sínum eigin.


Edinborgarháskólinn í Skotlandi, einn elsti og stærsti háskólinn á Stóra-Bretlandi.

Ástæðuna fyrir því að samið var um þessa bókun má að öllum líkindum rekja til úrskurðar dómstóls Evrópusambandsins í máli Frakkans Françoise Gravier gegn belgísku borginni Liège frá árinu 1985 (mál nr. 293/83), fjórum árum áður en samningaviðræður um EES-samninginn hófust. Niðurstaða dómsins var að þótt menntamál og málefni skóla séu ekki með beinum hætti á samningssviði sáttmálans um Evrópusambandið (sem þá hét Evrópubandalagið), og stjórnvöld í aðildarríkjunum fari með forræði í menntamálum, þá beri þrátt fyrir það að líta svo á að aðgengi að starfsmenntun (skilgreind sem öll sú menntun sem er undirbúningur fyrir prófréttindi í tilteknu fagi, iðngrein eða starfi) falli innan gildissviðs sáttmálans. Af því leiði að innheimta skóla- eða skráningargjalda af námsmönnum sem eru ríkisborgarar annarra ESB-ríkja umfram þau gjöld sem innheimt eru af ríkisborgurum gistiríkisins feli í sér mismunun á grundvelli ríkisfangs sem er óheimil samkvæmt 18. grein sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins (SSE) (áður 7. grein sáttmálans um Evrópubandalagið).

Samhljóða ákvæði um bann við hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er að finna í EES-samningnum (4. grein) og er því næsta víst að ef ekki væri fyrir bókun 29 þá væri óheimilt að krefja íslenska námsmenn um hærri skólagjöld við háskóla í Evrópusambandinu en sambandsborgara. Í fæstum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eru reyndar innheimt skólagjöld við menntastofnanir. Bretland sker sig úr hvað þetta varðar en þar er rík hefð fyrir háum skólagjöldum og getur munað miklu á því sem sambandsborgarar og ríkisborgarar annarra landa, til dæmis Íslands, þurfa að greiða.

Dómstóll Evrópusambandsins hefur löngum haft orð á sér fyrir að ganga jafnan lengra í því að veita borgurum réttindi og leggja skyldur á herðar stjórnvöldum á grundvelli laga og reglna Evrópusambandsins en höfundar þeirra, aðildarríkin, ætluðu sér. Ofannefndur úrskurður er líklega ágætt dæmi um slíkan dóm því það má leiða líkum að því að bókun 29 við EES-samninginn hafi verið samþykkt gagngert til að koma í veg fyrir að dómafordæmið næði einnig til EFTA/EES-ríkjanna. Í því sambandi þarf að hafa í huga að á þeim tíma þegar samið var um EES-samninginn voru það ekki aðeins Ísland, Liechtenstein og Noregur sem voru samningsaðilar Evrópusambandsríkjanna heldur einnig Austurríki, Finnland og Svíþjóð, sem þá tilheyrðu EFTA en ekki ESB, og Sviss, sem seinna hafnaði EES-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Bent er á að í svari við spurningunni Hvaða áhrif hefur það á réttindi Íslendings að giftast breskum ríkisborgara hvað aðgang að háskólamenntun og greiðslu skólagjalda varðar? er fjallað um hvaða skilyrði ríkisborgarar EFTA/EES-ríkis þurfa að uppfylla til að eiga sjálfstæðan rétt á sömu fyrirgreiðslu og sambandsborgarar þegar kemur að skólagjöldum (sjá c-lið neðst í svarinu).

Mynd:

Upprunaleg spurning:

Geta háskólar í Skotlandi rukkað Íslendinga um hærri skólagjöld af því að Ísland er ekki í ESB heldur aðeins í EES? Ef svo er ekki, getur þú vísað í forsendur svarsins (niðurstöðunnar) ef þær eru til á ensku. Gæti nýst til að andmæla hærri skólagjöldum þeirra en munurinn getur verið 10.000 pund.

Við þetta svar er engin athugasemd Fela