Spurning

Hvaða áhrif mundi innganga í Evrópusambandið hafa á menntamál?

Spyrjandi

Kristrún Vala Kristínardóttir

Svar

ESB hefur ekki sameiginlega menntastefnu en samstarf aðildarríkjanna á sviði menntamála byggist á sameiginlegum verkefnum á grundvelli Menntaáætlunar ESB. Ísland tekur þátt í þessu samstarfi á grundvelli EES-samningsins og hafa þúsundir Íslendinga tekið þátt í verkefnum styrktum af Menntaáætluninni. Ef til aðildar Íslands að ESB kæmi yrði ekki önnur breyting á því en sú að Ísland fengi fullan aðgang að ákvarðanatöku um samstarfsverkefni ESB á sviði menntamála og skóla og íslenskir nemendur sem stunda nám í Bretlandi mundu greiða lægri skólagjöld þar.

***

Evrópusambandið (ESB) hefur ekki sameiginlega menntastefnu. Forræði í menntamálum og málefnum menntastofnana er hjá stjórnvöldum hvers aðildarríkis fyrir sig. Sambandið hefur því ekki beint laga- eða reglusetningarvald á þessum sviðum en markmið þess er þó að stuðla að betri menntun með því að ýta undir samstarf milli aðildarríkjanna (165. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins). Þetta samstarf byggist á sameiginlegum verkefnum á grundvelli Menntaáætlunar ESB (e. Life Long Learning Program). Menntamálaráðherrar aðildarríkjanna hittast reglulega og taka ákvarðanir um sameiginleg verkefni og gefa þar að auki út yfirlýsingar um stefnumál sem þeir hafa sammælst um að fylgja í löndum sínum.

Verkefni Menntaáætlunarinnar eru margvísleg en markmið hennar er einkum að hjálpa fólki, háskólanemum, iðnnemum, kennurum og fleirum, að kynnast öðrum ESB-ríkjum og stunda þar nám og störf. Einnig hefur verið unnið að því að efla samstarf milli skóla og tengsl háskóla og atvinnulífs. Með umfangsmiklum styrkveitingum og sameiginlegum reglum um námsmat eru námsmenn á öllum stigum hvattir til að afla hluta menntunar sinnar í öðru Evrópulandi. Áætlunin nær yfir fjórar undiráætlanir; Comenius (leik-, grunn-, og framhaldsskólamenntun), Erasmus (menntun á háskólastigi), Grundtvig (fullorðinsfræðsla og aðrar menntunarleiðir) og Leonardo (starfsmenntun og þjálfun). Úr hverri undiráætlun eru veittir styrkir til ólíkra tegunda verkefna svo sem skólaheimsókna, nemenda- og kennaraskipta, starfsnáms og samvinnu um gerð námsefnis og námskeiða fyrir fullorðna.


Þátttakendur í Comenius verkefninu frá Þýskalandi, Spáni, Frakklandi og Hollandi stilla sér upp fyrir myndatöku.

Ísland tekur nú þegar þátt í samstarfsverkefnum ESB á sviði menntamála á grundvelli EES-samningsins. Þessu samstarfi hafa ekki fylgt neinar laga- eða kerfisbreytingar af Íslands hálfu. Þátttaka Íslendinga hefur verið mikil frá upphafi en þúsundir íslenskra nemenda, kennara, skólastjórnenda og annarra hafa tekið þátt í verkefnum styrktum af Menntaáætluninni. Meðalfjöldi íslenskra styrkþega á árunum 2000-2007 var 864 einstaklingar. Ísland, ásamt hinum EFTA/EES-ríkjunum, greiðir umsamið árlegt gjald fyrir þátttöku í áætluninni en hingað til hafa styrkir ESB til íslenskra aðila verið hærri en kostnaður Íslands við þátttökuna.

Samningskaflinn sem snýr að menntamálum í aðildarviðræðum Íslands við ESB var opnaður 27. júní 2011 og lokað samdægurs. Í samningsafstöðu Íslands var ekki talin ástæða til að vekja athygli á neinum álitamálum varðandi samstarf Íslands og ESB í menntamálum. Ef til aðildar Íslands kæmi yrði því ekki önnur breyting á því en sú að Ísland fengi fullan aðgang að ákvarðanatöku um samstarfsverkefni ESB á sviði menntamála, en EES-samningurinn tryggir íslenskum stjórnvöldum ekki aðkomu nema á mótunarstigi.

Með hugsanlegri aðild Íslands að ESB mundu íslenskir námsmenn einnig greiða lægri skólagjöld í breskum háskólum. Almennt eru ekki innheimt skólagjöld í háskólum aðildarríkja ESB en í Bretlandi, þar sem skólagjöld eru hvað hæst í Evrópu, hafa til þessa samkvæmt bókun 29. ákvæðis EES-samningsins verið innheimt hærri skólagjöld af námsmönnum frá EFTA/EES-ríkjunum Íslandi, Noregi og Liechtenstein. Um þetta er nánar fjallað í svari við spurningunni Hvernig breytist aðgangur að vinnumarkaði og skólum ef Ísland gengur í Evrópusambandið?

Heimildir og myndir:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 4.5.2012

Tilvísun

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hvaða áhrif mundi innganga í Evrópusambandið hafa á menntamál?“. Evrópuvefurinn 4.5.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62426. (Skoðað 6.12.2024).

Höfundur

Þorvarður Kjerulf Sigurjónssonalþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela