Spurning

Stendur til að hætta með Erasmus-styrki?

Spyrjandi

Þorbjörg R. Hákonardóttir

Svar

Í stuttu máli er svarið nei, það stendur ekki til að hætta með Erasmus-styrki. Aftur á móti er komin upp sú staða að fjárlög Evrópusambandsins fyrir árið 2012 duga ekki til að veita evrópskum landsskrifstofum framlög fyrir öllum útlögðum kostnaði á samstarfsverkefnum á borð við þau sem falla undir Menntaáætlun ESB, en undir hana heyrir Erasmus-áætlunin. Nánar er fjallað um Erasmus-áætlunina í svari við spurningunni Hvernig styrki geta námsmenn fengið til að læra erlendis?

***

Framkvæmdastjórn ESB hefur nú þegar greitt út 99% af þeirri upphæð sem ætluð er verkefnum Menntaáætlunarinnar fyrir líðandi ár. Sú upphæð nemur 980 milljónum evra en um það bil 45% af henni er ætluð greiðslum á Erasmus-styrkjum.

Vegna halla á fjárlögum sambandsins fyrir árið 2012 á framkvæmdastjórnin eftir að endurgreiða landsskrifstofum tiltekinna ríkja útlagðan kostnað vegna styrkja sem heyra undir Menntaáætlunina. Sú upphæð nemur 118 milljónum evra. Þar af eru 90 milljónir evra sem tengjast verkefnum Erasmus-áætlunarinnar. Kröfur um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði hafa borist frá landsskrifstofum eftirfarandi aðildarríkja ESB:

Aðildarríki ESB Upphæð kröfu
(í milljónum evra)
Austurríki 6,3
Belgía (flæmskumælandi hluti) 4
Belgía (frönskumælandi hluti) 3
Bretland 19
Eistland 2,75
Írland 2,2
Litháen 4,3
Pólland 29,5
Slóvakía 5
Slóvenía 2,7
Tékkland 7,2
Þýskaland 32

Þar að auki mun framkvæmdastjórnin að öllum líkindum fá fleiri beiðnir um endurgreiðslur frá landsskrifstofum annarra samstarfsríkja. Sú upphæð gæti numið allt að 100 milljónum evra. Landsskrifstofur Belgíu (þýskumælandi hluta), Danmerkur, Frakklands, Grikklands, Hollands, Króatíu, Lettlands, Möltu, Noregs, Rúmeníu, Sviss, Svíþjóðar og Ungverjalands eru líklegar til að fara fram á greiðslur fyrir árslok 2012.

Framkvæmdastjórnin mun ekki geta endurgreitt þessar upphæðir nema til komi aukafjárveiting í sameiginlega sjóði Evrópusambandsins. Hún hefur því farið fram á aukin fjárframlög frá aðildarríkjum ESB fyrir árið 2012 og krafist í það minnsta 180 milljóna evra til viðbótar til að standa straum af endurgreiðslunum. Hinn 23. október síðastliðinn bað hún Evrópuþingið og aðildarríki sambandsins um að fallast á lausn sem fyrst til að leiðrétta hallann á núverandi fjárlögum sambandsins og stendur ferlið enn yfir.


Framkvæmdastjórnin hefur lagt til að 1,14 milljarði evra verði varið í samtarfsverkefni sem heyra undir Menntaáætlunina á komandi fjárhagsári 2013. Þar af mundu 490 milljónir evra vera helgaðar Erasmus-styrkþegum. Ef aðildarríki ESB ná ekki að rétta við tekjuhalla ársins 2012 mun hluti af fjárlögum næstkomandi árs verða notaður til að bæta neikvæða reikningsstöðu þessa árs en það gæti þá leitt til þess að sjóðurinn sem er ætlaður Erasmus-áætluninni gæti tæmst fyrir mitt ár 2013. Slíkt mundi skapa enn frekari vandamál og er því allra leiða leitað til að leysa fjárhagsvandann og koma í veg fyrir að samstarfsáætlanir á borð við Menntaáætlunina lendi í fjárþurrð.

Áætlað er að um 270 þúsund nemar muni njóta Erasmus-styrkja á skólaárinu 2012-2013. Hætta er á að háskólar takmarki fjölda þeirra sem geta hlotið Erasmus-styrki á næsta skólaári 2013-2014 eða að upphæðir styrkjanna verði lækkaðar frá og með síðari hluta árs 2013. Enn sem komið er er þó ekki hægt að fullyrða hverjar afleiðingarnar verða.

Heimildir og mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur30.11.2012

Tilvísun

Brynhildur Ingimarsdóttir. „Stendur til að hætta með Erasmus-styrki?“. Evrópuvefurinn 30.11.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=63613. (Skoðað 18.9.2024).

Höfundur

Brynhildur Ingimarsdóttiralþjóðastjórnmálafræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri á Evrópuvefnum

Við þetta svar er engin athugasemd Fela