Spurning

Hvernig styrki geta námsmenn fengið til að læra erlendis?

Spyrjandi

Gunnar Ágúst Thoroddsen

Svar

Íslenskum námsmönnum sem hyggja á nám erlendis standa margvíslegir styrkir til boða. Umfangsmestu alþjóðlegu áætlanirnar, sem Ísland tekur þátt í, veita háskólanemum styrki til stúdentaskipta við erlenda háskóla. Helstu stúdentaskiptaáætlanirnar eru Erasmus, sem styrkir skiptinám í aðildarríkjum Evrópusambandsins og EFTA, og Nordplus, sem styrkir skiptinám á Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum. Þess utan hafa margir íslenskir háskólar gert tvíhliða samninga um skiptinám við einstaka erlenda háskóla víða um heim.


Erasmus-skiptinemar við Umeå háskólann í Svíþjóð.

Úr Erasmus- og Nordplus-áætlununum eru veittir ferða- og dvalarstyrkir. Upphæð styrkjanna er nokkuð breytileg frá ári til árs og í sumum tilvikum einnig eftir þeim löndum sem farið er til. Styrkirnir skerða ekki námslán frá LÍN. Fyrir skólaárið 2011-2012 samanstóðu Erasmus-styrkir til stúdentaskipta af:
  • 650 € ferðastyrk (500 € til Kaupmannahafnar og London) og
  • 300 € á mánuði í uppihaldsstyrk.

Um upphæð Nordplus-styrkja til stúdentaskipta gildir yfirleitt:
  • Flugfargjald til og frá Íslandi, allt að 660 € og
  • Uppihaldsstyrkur, allt að 200 € á mánuði.

Erasmus-áætlunin veitir stúdentum þar að auki styrki til starfsnáms og svokallaðra hraðnámskeiða, sjá upplýsingar á heimasíðu Erasmus-áætlunarinnar, sem og styrki til starfsmannaskipta og annarra samstarfsverkefna evrópskra háskóla.

Erasmus-áætlunin er ein af fjórum undiráætlunum Menntaáætlunar Evrópusambandsins. Erasmus snýr að samstarfi á háskólastiginu en hinar eru Comenius, fyrir kennara og skóla á leik-, grunn- og framhaldsskólastiginu, Leonardo, fyrir starfsmenntun, og Grundtvig, fyrir fullorðinsfræðslu. Þátttaka Íslendinga í Menntaáætlun ESB grundvallast á EES-samningnum og hefur það því engin áhrif á möguleika Íslendinga til að fá styrki eða taka þátt í verkefnum áætlunarinnar hvort Íslandi standi áfram utan ESB eða gangi í sambandið.

Á heimasíðu landsskrifstofu Nordplus og landsskrifstofu Menntaáætlunar Evrópusambandsins er að finna allar frekari upplýsingar um áætlanirnar.

Margvíslegir aðrir styrkir eru í boði fyrir íslenska stúdenta sem vilja nema við erlenda háskóla, hvort sem er til lengri eða skemmri tíma. Á heimasíðu alþjóðaskrifstofu háskólastigsins er að finna handbók um styrki þar sem meðal annars er hægt að leita að styrkjum eftir löndum. Ítarlegt yfirlit yfir þá styrki sem Íslendingum standa til boða, hvort sem er til náms, fræðistarfa, þróunarverkefna eða menningarviðburða, er einnig að finna á heimasíðu Áttavitans. Áhugasömum er einnig bent á hagnýtt yfirlit Áttavitans yfir það sem gott er að hafa í huga þegar maður hyggur á nám við erlenda háskóla.

Mynd:

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 8.6.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Hvernig styrki geta námsmenn fengið til að læra erlendis?“. Evrópuvefurinn 8.6.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=62424. (Skoðað 20.7.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar er engin athugasemd Fela