Spurning

Ég er að fara með 100 manna kór ungmenna til Þýskalands í sumar, getið þið sagt okkur hvort ESB styrki kórferðalagið?

Spyrjandi

Björn Sveinsson

Svar

Íslendingar eru þátttakendur í margvíslegum styrkjaáætlunum Evrópusambandsins sem eiga sameiginlegt það meginmarkmið að stuðla að samstarfi borgara frá ólíkum löndum. Til þessara áætlana er hægt að sækja um styrki fyrir verkefni sem tengjast meðal annars menntun, ungmennastarfi, menningu og listum og jafnréttismálum. Evrópusambandið styrkir þó ekki hvað sem er og setur styrkveitingum sínum nokkuð ströng skilyrði. Það kemur sér því vel að í þátttökulöndum hverrar áætlunar eru starfræktar þjónustuskrifstofur sem hafa það hlutverk að veita upplýsingar og vera umsækjendum innan handar.

***

Áður hefur verið fjallað um styrkjakerfi Evrópusambandsins á Evrópuvefnum í svari við spurningunni Getið þið útskýrt styrkjakerfi ESB í stuttu máli? Í þessu svari er fjallað nánar um þriðja hluta styrkjakerfisins, samstarfsáætlanirnar.


Skoskur skólakór syngur á alþjóðlegu kórmóti í Graz í Austurríki árið 2008.

Það er ekki fjarri lagi að ætla að kórferð 100 íslenskra ungmenna til Þýskalands gæti með einhverjum hætti fallið undir ungmennaáætlun Evrópusambandsins, Evrópu unga fólksins (e. Youth in action). Áætlunin er ætluð ungu fólki í Evrópu á aldrinum 13 til 30 ára og samtökum sem vinna með ungmennum. Líkt og aðrar samstarfsáætlanir ESB hefur ungmennaáætlunin ákveðin markmið sem henni er ætlað að stuðla að og skilgreind voru í ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins um stofnun áætlunarinnar (nr. 1719/2006/EB). Þessi markmið eru að:
  • Efla virka og almenna þátttöku ungs fólks í þjóðfélaginu og sérstaklega þátttöku í evrópska samfélaginu.
  • Þróa samstöðu og hvetja til umburðarlyndis meðal ungs fólks, sérstaklega með það fyrir augum að stuðla að félagslegum samruna í Evrópusambandinu.
  • Stuðla að gagnkvæmum skilningi milli ungmenna í ólíkum löndum.
  • Auka gæði stuðningsaðgerða fyrir starfsemi tengda ungmennum og getu óformlegra samtaka sem starfa fyrir ungmenni.
  • Efla samvinnu Evrópulanda á sviði æskulýðsmála.

Til þess að verkefni hljóti styrk úr áætluninni er nauðsynlegt að umsóknin sýni tengsl við ofangreind markmið sem og svonefnd föst forgangsatriði áætlunarinnar en þau eru að efla:
  • Evrópska borgaravitund.
  • Þátttöku ungs fólks.
  • Virðingu fyrir menningarlegum fjölbreytileika.
  • Þátttöku ungs fólks með takmarkaða möguleika.


Ungmennaáætlun ESB er ætlað að styrkja þátttöku ungs fólks í þverþjóðlegu samstarfi.
Hvert þessara atriða er útskýrt nánar í 150 blaðsíðna handbók ungmennaáætlunarinnar sem gefin er út á hverju ári. Þar koma einnig fram sérstök forgangsatriði ársins 2012 og aðrir mikilvægir þættir varðandi áætlunina. Mikilvægt er að umsækjendur kynni sér handbókina rækilega áður en þeir senda inn styrkumsókn því þar koma fram verðmætar upplýsingar. Það gildir raunar um flestar ef ekki allar samstarfsáætlanir ESB en með hverri og einni þeirra er gefin út handbók eða annað álíka efni til útskýringar á markmiðum og tilgangi áætlananna.

Ungmennaáætlunin styrkir verkefni af ýmsu tagi:

Sérhver tegund verkefna hefur sín markmið og skilyrði, eða viðmið, fyrir styrkveitingu. Þannig er til að mynda markmiðið með ungmennaskiptum að hópar ungs fólks frá tveimur eða fleiri löndum komi saman og hafi tækifæri til að ræða og kynna sér ýmis málefni og læra um leið um menningu og siði í löndum hvers annars. Miðað við þessa stuttu lýsingu mætti vel ímynda sér að einhvers konar fjölþjóðlegt kóramót gæti vel fallið í þennan flokk verkefna. Til þess að svo væri þyrfti ferðalagið til Þýskalands þó að uppfylla fjöldann allan af skilyrðum. Sem dæmi má nefna að þátttakendur í ungmennaskiptaverkefnum þurfa að vera á aldrinum 13 til 25 ára, en allt að 20% mega þó vera á aldrinum 26 til 30.

Í handbókinni er ennfremur talið upp það sem ekki telst til ungmennaskiptaverkefna. Það eru:
  • Heimsóknir á milli menntastofnana.
  • Heimsóknir ætlaðar í ágóðaskyni.
  • Skemmtiferðir.
  • Hátíðir.
  • Tungumálakennsla.
  • Sýningar / gjörningar.
  • Heimsóknir milli bekkja.
  • Íþróttamót.
  • Lögskipaðir fundir hjá samtökum.
  • Vinnubúðir.

Af því sem hér hefur komið fram má sjá að verkefnum sem Evrópusambandið styrkir eru gjarnan sniðinn nokkuð þröngur stakkur. Það getur því borgað sig að hefja undirbúning styrkumsóknar til samstarfsáætlunar ESB tímanlega, helst á meðan verkefni er enn í mótun svo hægt sé að aðlaga það að kröfum tiltekinnar áætlunar.

Til þess að svara því endanlega úr hvaða samstarfsáætlun ESB kórferðalangarnir íslensku mættu eiga von á því að geta fengið styrk þyrftu að liggja fyrir meiri upplýsingar um verkefnið, eðli þess, lengd og þátttakendur meðal annars. Spyrjanda er bent á að hafa samband við landsskrifstofu Evrópu unga fólksins til að fá nánari upplýsingar um möguleikana sem áætlunin býður upp á. Einnig væri rétt að spyrjast fyrir hjá upplýsingaþjónustu menningaráætlunar Evrópusambandsins (e. Culture Programme 2007-2013). Hún nær til allra listgreina, menningararfleifðar og menningarsögu og styrkir meðal annars samstarfsnet, rannsóknir, starfsþjálfun, námskeið, vinnubúðir, nýsköpun, sýningar, hátíðir, ráðstefnur, þýðingar og fleira.

Evrópuvefurinn ráðleggur öllum sem vilja leita sér upplýsinga um styrki frá Evrópusambandinu að skoða heimasíðuna Evrópusamvinna en þar er að finna lista yfir þær samstarfsáætlanir sem Íslendingar geta sótt um styrki úr. Á síðunni eru ennfremur upplýsingar um landskrifstofur og upplýsinga- og þjónustuskrifstofur áætlananna þar sem veittar eru frekari upplýsingar um möguleikana sem hver áætlun býður upp á og hægt er að fá aðstoð við gerð umsókna.

Myndir:

Upprunaleg spurning:

Ég er í forsvari fyrir 100 manna kór ungmenna sem eru á leið til Usedom i Þýskalandi í sumar. Okkur datt í hug að kanna með styrki frá ESB. Við vitum ekki hvert við eigum að snúa okkur með erindið. Getið þið nokkuð leiðbeint okkur?

Um þessa spurningu

Dagsetning

Útgáfudagur 3.2.2012

Tilvísun

Þórhildur Hagalín. „Ég er að fara með 100 manna kór ungmenna til Þýskalands í sumar, getið þið sagt okkur hvort ESB styrki kórferðalagið?“. Evrópuvefurinn 3.2.2012. http://evropuvefur.is/svar.php?id=61747. (Skoðað 12.10.2024).

Höfundur

Þórhildur HagalínEvrópufræðingur og fyrrverandi ritstjóri Evrópuvefsins

Við þetta svar eru 2 athugasemdir Fela athugasemdir

Gunnlaugur Ingvarsson 3.2.2012

Mikið rosalega er þetta styrkja- og ölmusukerfi ESB málað hér rósrauðum og hlutdrægum litum af ykkur í þessu endemis dæmalausa svari ykkar!

Að mínu áliti og margra annarra er styrkja- og ölmusukerfi ESB ekkert annað en óhreinn bastarður og skilgetið afkvæmi þeirra þríburasystra sem heita spilling, sóun og misbeiting.

Styrkja- og ölmusukerfi ESB er rándýrt í framkvæmd og kostar flesta skattgreiðendur aðildarríkjanna miklu meira en þeir fá nokkurn tímann til baka. Styrkja- og ölmusukerfið kostar þúsundir fyrirtækja gríðarlega fjármuni við að ganga frá flóknum umsóknum, sem flestar hverjar aldrei landi ná. Hefur einhver reiknað það út hversu miklu fyrirtæki og einstaklingar eyða í sérfræðivinnu, endurskoðendur, lögfræðinga og markaðsráðgjafa við það eitt að reyna að komast yfir þessa styrki.

Mýmörg dæmi eru um hroðalega misbeitingu og spillingu við þessar styrkveitingar, þar sem jafnvel sjálfir úthlutunarbúrókratarnir í Brussel skammta sér og sínum útvöldu vinum fjármunum skattgreiðenda.

Auk þess sem þessar styrk- og ölmusugjafir skekkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins í viðkomandi atvinnugreinum og viðkomandi löndum.

Þetta apparat ölmusu og styrkja er því alls ekki af hinu góða eins og þið reynið hér að halda fram og það algerlega gagnrýnislaust!

Það er mjög gagnrýnisvert, því að þið eigið lögum samkvæmt að segja hlutlaust frá kostum og göllum ESB-aðildar, en gerið það sjaldnast eða aldrei, eins og best sést á þessari lofgrein ykkar um þessa "náttúruauðlind" sem þið teljið ESB ölmusu- og styrkjakerfið greinilega vera.

Þórhildur Hagalín 7.2.2012

Þakka þér fyrir athugasemdina Gunnlaugur.

Styrkjakerfi ESB er hvorki lofað né lastað í þessu svari heldur er þeirri spurningu einfaldlega svarað hvert þeir geti snúið sér sem hafa áhuga á að nýta sér aðild okkar að EES með því að sækja um styrk frá ESB fyrir kórferðalag íslenskra ungmenna til Þýskalands. Spurningin gefur ekkert tilefni til að fjalla um kosti og galla ESB-aðildar þar sem spyrjendur eiga kost á umræddum styrkjum nú þegar, óháð aðild að ESB.

Styrkjakerfi ESB hefur sætt gagnrýni úr mörgum áttum fyrir að vera bæði óhagkvæmt og ógegnsætt og er vissulega margt réttmætt í þeim málflutningi. Evrópuvefurinn tekur gjarnan að sér að varpa ljósi á þá umræðu með því að svara spurningu á borð við „Er styrkjakerfi Evrópusambandsins hafið yfir gagnrýni?“