Spurning

Hvaða áhrif hefur það á réttindi Íslendings að giftast breskum ríkisborgara hvað aðgang að háskólamenntun og greiðslu skólagjalda varðar?

Spyrjandi

N.N.

Svar

Hjúskaparstaða getur skipt máli fyrir ríkisborgara EFTA/EES-ríkja þegar þeir flytjast á milli landa sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu. Það að giftast sambandsborgara leiðir þó ekki sjálfkrafa til betri réttarstöðu. Réttur maka er háður þeim rétti sem sambandsborgarinn hefur, en til að virkja þau réttindi er það skilyrði að viðkomandi sambandsborgari hafi nýtt sér réttinn til frjálsrar farar.

***

Ef Íslendingur giftist til að mynda breskum ríkisborgara, sem hefur búið og unnið í öðru EES-ríki (þar með talið Íslandi) eða Sviss, njóta breski ríkisborgarinn og íslenski makinn þeirra réttinda sem leiða má af reglum ESB og EES-samningnum. Ef breski ríkisborgarinn hefur aldrei búið eða unnið annars staðar en í Bretlandi eiga breskar reglur við um hann og makann.

Hafa verður í huga að réttindi EFTA/EES-þegna ráðast af EES-samningnum og geta EFTA/EES-þegnar því átt sjálfstæðan rétt til búsetu og annarrar fyrirgreiðslu án tillits til réttinda sambandsborgara sem þeir giftast.


Oxford-háskóli til vinstri og Cambridge-háskóli til hægri. Háskólarnir eru taldir tveir bestu háskólar Bretlands.

Eftirfarandi reglur gilda um íslenskan ríkisborgara sem giftist breskum ríkisborgara, flytur til Bretlands og ætlar að stunda nám þar:

  1. Ef breskur maki ríkisborgara EFTA/EES-ríkis hefur nýtt sér réttinn til frjálsrar farar og flytur aftur til heimalands síns, Bretlands, nýtur EFTA/EES-þegninn sömu réttinda og breskir þegnar. Þessi regla byggist á dómaframkvæmd dómstóls Evrópusambandsins og getur verið matskennd. Þó má ganga út frá því að EFTA/EES-ríkisborgarinn njóti sömu kjara og breskir þegnar ef makinn hefur unnið eða stundað sjálfstæða starfsemi í öðru EES-ríki (eða Sviss) og ef viðkomandi hefur verið búsettur á EES-svæðinu (eða Sviss) í að minnsta kosti þrjú ár. Sú búseta má ekki hafa verið tengd námi; ef nám hefur verið stundað á þeim tíma, er tekið mið af fyrri búsetu innan EES (eða Sviss). Ekki er gerð ákveðin krafa um hversu lengi viðkomandi hafi stundað vinnu eða sjálfstæða starfsemi í öðru landi EES en heimalandi ef um raunverulega starfsemi er að ræða.
  2. Ef breskur maki ríkisborgara EFTA/EES-ríkis hefur aldrei búið eða unnið í öðru EES-ríki (eða Sviss) eða uppfyllir ekki kröfurnar sem lýst er í a-lið gilda breskar reglur um þau hjónin. Ríkisborgari EFTA/EES-ríkisins verður þá að eiga rétt á varanlegri búsetu í Bretlandi (e. settled status) til þess að borga sömu skólagjöld og breskir nemendur. Auk þess er það skilyrði að viðkomandi hafi búið í Bretlandi síðustu þrjú árin áður en nám hefst og að búsetan hafi ekki verið í þeim tilgangi að stunda nám.

    Krafan um varanlega búsetu þýðir að engar takmarkanir séu á búseturétti í Bretlandi en þegnar ESB- og EFTA/EES-ríkja uppfylla ekki sjálfkrafa þá kröfu. Samkvæmt innflytjendalöggjöf í Bretlandi skiptir hjúskaparstaða máli við þessar aðstæður þar sem það tekur styttri tíma fyrir maka breskra ríkisborgara en aðra útlendinga að fá varanlegt búsetuleyfi. Umsækjandi þarf ekki að hafa haft varanlegan búseturétt í þrjú ár áður en nám hefst, nægilegt er að sú réttarstaða sé til komin þegar námið hefst. Hins vegar dregur krafan um þriggja ára búsetu úr þýðingu þess að fá varanlegt búsetuleyfi þar sem búsetutíminn er sjálfstætt skilyrði. Allar þessar reglur miðast við að umsækjandi uppfylli sett skilyrði frá fyrsta degi þegar háskólanám hefst.
  3. Ríkisborgarar EFTA/EES-ríkis eiga þar að auki sjálfstæðan rétt á sömu fyrirgreiðslu og sambandsborgarar þegar kemur að skólagjöldum og/eða framfærslu vegna náms, ef þeir uppfylla þau skilyrði að vera (eða hafa verið) launþegar eða sjálfstætt starfandi í Bretlandi og hafa búið í að minnsta kosti þrjú ár á EES-svæðinu (eða Sviss). Þær kröfur eru gerðar að um raunverulega starfsemi sé að ræða og stopul vinna í stuttan tíma mundi oft ekki fullnægja þeim kröfum. Auk þess er gerð sú krafa að þriggja ára búseta á EES-svæðinu (eða Sviss) hafi ekki verið til þess að stunda fullt nám. Börn farandlaunþega njóta sambærilegra réttinda.

    Skólagjöld eru víða há í Bretlandi og því skiptir einnig máli hvaða fyrirgreiðslu ríkisborgarar ESB- og EFTA/EES-ríkja njóta varðandi námslán og styrki til greiðslu skólagjalda og til framfærslu. Almennt má miða við að réttur EFTA/EES-ríkisborgara sé sambærilegur við rétt breskra þegna varðandi lán fyrir eða lækkun á skólagjöldum ef þeim skilyrðum sem lýst var hér að framan er fullnægt, það er að viðkomandi geti sýnt fram á að vera eða hafa verið launþegi eða sjálfstætt starfandi í Bretlandi í einhvern tíma. Það sama á við um aðstoð við framfærslu, en ríki geta þó skilyrt slíka aðstoð við fimm ára búsetu samkvæmt tilskipun (2004/38/EB) um rétt ríkisborgara ríkja Evrópusambandsins og fjölskyldna þeirra til frjálsrar farar og dvalar innan svæðisins, nema umsækjendur hafi stöðu launþega eða starfi sjálfstætt.

Háskólar í Bretlandi birta á heimasíðum sínum reglur og leiðbeiningar um það hvernig skólagjöld eru ákveðin og hvernig réttarstaða fólks er metin út frá þarlendri löggjöf og ESB/EES-reglum.

Myndir:

Upprunaleg spurning:
Ég er að fara að gifta mig og maki minn er frá Englandi. Mig langar að vita hvaða áhrif það hefur á mína stöðu gagnvart ESB. Ef ég sæki t.d. um nám í Englandi eru skólagjöld mörgum milljónum hærri á ári fyrir nemendur utan ESB en fyrir þá sem eru innan þess. Breytast mín réttindi á einhvern hátt innan ESB með hjónabandinu, eða á það aðeins við um búsetu, þ.e.a.s. þyrfti ég að flytja fyrst til Englands?
Við þetta svar er engin athugasemd Fela